Fyrsti mánuður loftárása

Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við sem þá vorum í stjórnarandstöðu spyrðum ekki hvort annað „hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála.

Nú hafa fyrrum stjórnarandstöðuflokkar myndað ríkisstjórn. Það hefur verið óskrifuð regla hér og annars staðar að ný ríkisstjórn fengi sæmilegan frið í upphafi kjörtímabils til að setja sig inn í mál og innleiða svo nýja stefnu. Það var aldrei við því að búast að núverandi ríkisstjórn fengi þess háttar grið. Þó var helst til langt seilst þegar farið var að saka ríkisstjórnina um að hafa svikið kosningaloforð áður en hún var tekin til starfa. Rétt eftir að nýir ráðherrar tóku við lyklum að ráðuneytunum varð svo ljóst hvert stefndi með umfjöllun.

Þrátt fyrir yfirlýsingar fyrrum stjórnarflokka um mikilvægi þess að breyta stjórnmálunum og umræðuhefð fóru þeir af stað í stjórnarandstöðu af ótrúlegu offorsi sem virðist drifið áfram af hamslausri gremju yfir úrslitum kosninganna. Málþóf hófst í fyrsta máli á fyrsta degi sumarþings. Snúið er út úr nánast öllu sem stjórnarliðar segja og gera og einskis svifist í ómerkilegum pólitískum brellum. Framganga hinna nýju stjórnarandstæðinga, innan þings og utan, pirringurinn og ofleikurinn er augljós.

Það hefur því verið furðulegt að fylgjast með því að engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós að hann verði ekki að stórfrétt. Látið er eins og það séu undur og stórmerki þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá stefnu fyrri ríkisstjórnar og framfylgir eigin stefnu. Ekkert af þessu á þó að koma á óvart.

Fyrir og eftir kosningar

Þegar fyrri ríkisstjórn greip inn í rammaáætlun margítrekuðu núverandi stjórnarflokkar að þeir vildu leiðrétta þau inngrip og láta faglegt mat ráða. Frá upphafi var bent á að veiðigjaldaaðferð fyrri ríkisstjórnar væri meingölluð og gengi ekki upp, aðferðin myndi gera útaf við lítil fyrirtæki í greininni og jafnvel lítil byggðarlög líka, hún myndi ýta undir samþjöppun og valda samfélaginu efnahagslegu tjóni. Núverandi stjórnarflokkar fóru ekki í grafgötur með það í kosningabaráttunni að þessu yrði breytt, það var ítrekað á ótal kosningafundum og í umræðum milli flokka. Ekkert skorti heldur á gagnrýni á áform um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Meira að segja fyrrverandi fjármálaráðherra var orðinn sammála því fyrir kosningar að hækkunin væri óráðleg.

Þegar ný ríkisstjórn hefst svo handa við boðaðar úrbætur láta menn eins og hún sé að gera breytingar sem komi öllum á óvart. Augljósastur er þó fáránleikinn í umræðu um skuldamál heimilanna. Í kosningabaráttunni kvörtuðu flokkar, sem höfðu ekki leyst málin á fjórum árum, undan því að stjórnarandstaðan teldi sig þurfa tíma eftir kosningar til að afla gagna (sem var ekki einu sinni komin lagaheimild fyrir) og útfæra lausnirnar.  Eftir kosningar gerðu þeir sér svo upp mikla undrun yfir því að málið yrði ekki klárað áður en sumarþing kæmi saman.

Einstefna

Umfjöllun um þessi mál hefur sums staðar verið svo einhliða, að í öllum vangaveltum síðasta kjörtímabils um muninn á umfjöllun um S-V-stjórn eða B-D-stjórn hvarflaði varla að nokkrum manni hversu mikill og augljós sá munur yrði eða hversu fljótt hann myndi birtast. Hér er  auðvitað rétt að geta þess að í þessu eins og öðru eru fjölmiðlar og fjölmiðlamenn jafn ólíkir og þeir eru margir og alls ekki ætlunin að gagnrýna fjölmiðla almennt.

Stundum er byggt á upphrópunum og dylgjum stjórnarandstöðunnar, stundum á gömlu góðu álitsgjöfunum og stundum á meintum sérfræðingum. Í málum sem varða fullveldi og forsetann eru kallaðir til þeir sérfræðingar sem gagnrýnastir voru á núverandi stjórnarflokka og forsetann í umræðunni um Icesave og aðrar milliríkjadeilur.

Hver skyldi svo vera valinn sem sérfræðingur til að fjalla um veiðigjöldin og önnur efnahagsmál? Jú, hagfræðingur sem hélt úti sérstöku bloggi gegn núverandi stjórnarflokkum, sérstakur talsmaður síðustu ríkisstjórnar í efnahags- og sjávarútvegsmálum. Maður sem skrifaði miklalofgrein um ríkisstjórn Samfylkingar og Vg undir lok síðasta kjörtímabils þar sem var að finna greiningu á borð við þá að ríkisstjórnin hefði „staðið eins og klettur gegn almennri skuldaleiðréttingu“. Sami maður er nú eltur til útlanda til að gefa sérfræðiálit og talinn best til þess fallinn að leggja mat á stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Undirskriftasöfnun

Nú stendur yfir undirskriftasöfnun gegn því að gerðar verði breytingar á hinum óframkvæmanlegu og skaðlegu veiðigjaldalögum síðustu ríkisstjórnar.

Minnugur þess hvernig gekk að fá suma fjölmiðla til að segja frá því að fram færi undirskriftasöfnun gegn Icesave-samningunum er athygli vert að fylgjast með umfjölluninni um undirskriftasöfnun gegn því að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu sinni. Engu er líkara en að hafið sé söfnunarátak aldarinnar í þágu óumdeilds málstaðar.

Á fyrstu dögum undirskriftasöfnunarinnar sagði Ríkisútvarpið tugi frétta af söfnuninni. Í fréttatíma eftir fréttatíma voru birtar nýjustu tölur og rætt við réttu sérfræðingana og forystumenn stjórnarandstöðunnar. Nokkrum sinnum fjallaði fyrsta frétt í aðalfréttatímum RÚV um að undirskriftum fjölgaði enn.

Þetta er nokkuð annað en þeir sem söfnuðu undirskriftum gegn Icesave bjuggu við. Þeir áttu lengi vel í mesta basli með að fá fjölmiðla til að segja frá því að undirskriftasöfnun færi fram. Þegar sagðar voru fréttir af því var það oft til að tortryggja safnanirnar og þá sem að þeim stóðu. Sumir þeirra máttu þola persónulegar árásir og dylgjur. Þeir sem vildu lýsa efasemdum um að rétt væri staðið að málum fengu hins vegar alla þá athygli sem þeir vildu. Þegar einhverjir skemmtu sér við að skrá „Mikka mús“ á listann stóð ekki á hneykslunarviðbrögðum þótt slíkum skráningum hafi jafnóðum verið eytt og eftirfylgni með undirskriftum verið meiri en dæmi voru um áður.

Engum dettur í hug að velta slíku fyrir sér nú. Stöðluð skráningarsíða af netinu er látin duga gagnrýnilaust þótt þar séu 30 þúsund undirskriftir úr 20 þúsund tölvum (og allt í lagi með það). Engum dettur í hug að spá í pólitíska afstöðu þeirra sem að skráningunni standa, ólíkt því sem áður var. Keyrt er áfram gagnrýnilaust og meira að segja hringt í formann Samfylkingarinnar í Búlgaríu svo að hægt sé að gera hvatningarorð hans að fyrstu frétt.

Það er ekkert út á það að setja að áhugafólk um þjóðfélagsmál beiti sér fyrir undirskriftasöfnun á netinu. Slíkt verður eflaust algengt á næstu árum. En það hversu langt  svekktir stjórnarandstæðingar hafa gengið í að nýta sér það er fyrir neðan allar hellur. Nú skal hefna þess í fjölmiðlum sem hallaðist í kosningum.

Ofsafengin viðbrögð við samráði

Jafnvel augljósustu áróðursbrellur fá stórfréttaumfjöllun.

Þegar atvinnuveganefnd Alþingis og sjávarútvegsráðherra vildu sýna þeim sem settu upp fyrrgreinda undirskriftasöfnun virðingu með því að bjóða þeim að kynna sjónarmið sín var því líka snúið á haus. Þingmenn stjórnarandstöðu héldu því fram að verið væri að „beita almenna borgara óeðlilegum þrýstingi“ með því að bjóða þeim að kynna málstað sinn. Og þegar aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyndi að koma skilaboðum til aðstandenda söfnunarinnar um að ráðherra vildi gjarnan hlusta á sjónarmið þeirra varð aftur uppi fótur og fit. Tölvupóstur um áhuga ráðherrans á að kynna sér málið rataði á rangt netfang.  Sá sem átti að fá póstinn tók einlæga afsökunarbeiðni góða og gilda. En þá steig fram einn af afdráttarlausustu andstæðingum núverandi stjórnarflokka, nú sem lögmaður undirskriftasafnenda, og hélt því fram að það hefði verið með vilja gert að láta yfirmann undirskriftasafnandans vita að ráðherrann vildi kynna sér málið. Tilgangurinn hefði augljóslega verið sá að koma á framfæri beinni hótun. Það að ráðherra vildi kynna sér málið var semsagt orðin tilraun til skoðanakúgunar.

Sagt var frá þessu gagnrýnilaust án þess að menn gerðu sér strax grein fyrir fáránleika málsins. Enda hafði komið fram í öllum fjölmiðlum landsins að umræddur maður væri að safna undirskriftum og fundurinn með ráðherra var að sjálfsögðu fjölmiðlaefni líka. Félagar lögmannsins á þingi tóku sem von var þátt í leiknum og hrukku eina ferðina enn af hjörunum með upphrópanir um skoðanakúgun, heimtuðu hlé á þingfundi og létu öllum illum látum. Svo var haldið áfram með því að heimta rannsóknir á öllu þessu samsæri.

Sem betur fer kom fáránleiki upphlaupsins augljóslega fram í fréttum kvöldsins þar sem aðstandandi söfnunarinnar sást taka afsökunarbeiðni ráðherra og aðstoðarkonu hans góða og gilda. En því miður er ekki alltaf hægt að treysta á að sjónvarpsmyndavélar séu á staðnum, eins og í þessutilviki, til að færa sönnur á hversu fáránlegur útúrsnúningurinn er.

Það alvarlegasta í málinu er að stjórnarandstaðan skuli nota dýrmætan tíma á stuttu sumarþingi í umræðu um þetta atriði, sem er óravegu frá því að hafa þýðingu fyrir stöðu og velferð heimilanna í landinu. Ber málið kannski vott um það sem koma skal, áherslumál stjórnarandstöðunnar og forgangsröðun á kjörtímabilinu? Verða heimilin í landinu enn sem fyrr aftarlega í röðinni en samsæriskenningar alls ráðandi?

Hin hliðin

Það segir sig sjálft að nánast ekkert er fjallað um hina hlið veiðigjaldamálsins frekar en annarra uppþota að undanförnu. Ekkert spáð í hvort það sé eðlilegt að búa þannig um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar að sum fyrirtæki séu látin greiða meira en nemur öllum hagnaði í skatta á meðan önnur sleppa mun betur. Ekkert talað um að stór hluti minni útgerðarfyrirtækja séu ekki rekstrarhæf ef útfærslan verður ekki löguð, ekkert talað um að óbreytt kerfi geti kippt efnahagslegum stoðum undan bæjum á borð við Seyðisfjörð og Snæfellsbæ, ekkert talað um áhrif á atvinnu þúsunda Íslendinga.

Það kann að vera að einhverjir telji óásættanlegt að fyrirtæki geti hagnast á sjávarútvegi. Slíkar hugmyndir eru ekki nýjar í stjórnmálasögunni. En það þarf að minnsta kosti að leyfa öðrum sjónarmiðum að komast að. T.d. þeim sjónarmiðum að sjávarútvegur eigi að skila þjóðinni hámarks arði, vera fjölbreytilegur og treysta byggð í landinu og að það sé best gert með því að gera það eftirsóknarvert að starfa í greininni. Íslenskur sjávarútvegur er umhverfisvænn og var orðinn þjóðhagslega arðbær ólíkt sjávarútvegi víðast hvar í Evrópu. Réttlætir það ekki að minnsta kosti sanngjarna rökræðu fremur en linnulausan einsleitan áróður og tilraunir til að sverta alla sem starfa í greininni eða setja henni reglur?

Lýðræði þarfnast rökræðu

Það er ógnun við lýðræði ef rökræða fær ekki að eiga sér stað, ef ákveðið er frá byrjun að aðeins annar málstaðurinn sé réttur og allt sem styður við þá mynd fær greiða leið i gegn en önnur sjónarmið hverfa. Ef við viljum tryggja að sjávarútvegur skili þjóðinni hámarks arði en verði ekki baggi á samfélaginu eins og víða annars staðar, ef við viljum hámarka hlutfall umhverfisvænnar orkuframleiðslu og vernda náttúruna og ef við viljum rétta stöðu heimilana af sanngirni þarf að ræða málin fordómalaust.  Rökræða er forsenda framfara.