Ísland hefur ótrúleg tækifæri þrátt fyrir tímabundnu erfiðleika sem við erum í núna. Við þurfum ekki annað en að líta á þau grundvallaratriði að við eigum líklega meiri auðlindir á mann heldur en nokkur önnur þjóð, innviðir ríkisins eru mjög sterkir, við höfum mikla framleiðslugetu og þjóðin er mjög vel menntuð.
En það er ekki nóg að hafa þetta allt til staðar. Við verðum að búa til eðlilegt fyrirkomulag sem hvetur til þess að það verði til verðmæti til úr þessu. Ef það er gert þá þurfa Íslendingar ekki að kvíða framtíðinni.
Okkar vandamál í dag er að það er verið að fara í öfuga átt á nánast öllum sviðum. Skattkerfið hvetur ekki til vinnu heldur letur og fólkið flýr úr landinu því að fyrirtækjunum eru ekki skapaðar aðstæður eða hvati til að veita þeim atvinnu. Sífelldar skattahækkanir og skattabreytingar ríkisstjórnarinnar vinna beint gegn heimilunum og fyrirtækjum.
Tekjuskattur lögaðila hefur verið hækkaður um þriðjung, úr 15% í 20%. Tryggingagjald var hækkað úr rúmum 5% upp í hátt í 9%. Fjármagnstekjuskattur einstaklinga var tvöfaldaður, úr 10% í 20%. Þrepaskipting tekjuskatts var tekin upp að nýju og skatthlutfall einstaklinga miðað við hæsta þrep hækkað úr 37,3% í 46,2%. Eignarskattur var tekinn upp að nýju, virðisaukaskattur, sem var hár fyrir, var hækkaður upp í 25,5% – er kominn yfir fjórðung.
Svo bætast ofan á þetta ítrekaðar hækkanir á bensíngjaldi, áfengisgjaldi, tóbaksgjaldi, vörugjöldum o.fl. sem leggjast beint á heimilin í landinu. Afleiðingin er að fólk hefur sífellt minna fé milli handanna til að kaupa sér sífellt dýrari vörur og þjónustu. Þetta er stórhættulegt því að þegar hækkanirnar fara yfir ákveðin mörk dregur úr umsvifum í efnahagslífinu einmitt þegar við þurfum að auka þau.
Staðan er því miður augljóslega þessi: Það er ekki verið að nýta þau tækifæri sem liggja fyrir fótum okkar til að skapa hér verðmæti, heldur er verið að fara í þveröfuga átt. Öllum hvötum sem ríkið gæti veitt atvinnulífinu og heimilunum er snúið á haus í skattastefnu þessarar ríkisstjórnar. Og afleiðingin er sú, sem þegar er staðreynd, að fyrirtækin fara, fólkið fer og innviðirnir bresta.