Fögnum fullveldi Íslands

Á síðustu áratugum hafa Íslendingar fagnað sjálfstæði lands og þjóðar að sumri, á þjóðhátíðardaginn 17. júní. En á sama tíma hefur það fallið í skuggann hve mikilvæg tímamót fullveldisdagurinn 1. desember táknar.

Flestir landsmenn þekkja í stórum dráttum sögu sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld, sem segja má að hafi fyrir alvöru borist Íslendingum með tímariti Baldvins Einarssonar, Ármann á Alþingi árið 1829, sem Tómas Sæmundsson sagði í fyrsta hefti Fjölnis að hefði verið „ætlað til að vekja andann í þjóðinni, og minna hana á, að meta sig réttilega“.

Þrátt fyrir það hefur sigurinn sem fólst í fullveldi Íslands 1. desember 1918 ekki hlotið þann sess sem honum ber hin síðari ár. Barátta þjóðarinnar fyrir auknum réttindum og aukinni sjálfsstjórn, sem skilaði endurreisn Alþingis, afhendingu stjórnarskrárinnar árið 1874 og heimastjórninni 1904 leiddi að sambandslagasamningnum við Dani árið 1918.

Með setningunni stuttu, „Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki í sambandi við einn og sama konung“, var loks sigur unninn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir frelsi og sjálfsákvörðunarrétti, eftir tæpra sjö alda yfirráð annarra ríkja.

Fullveldisdagurinn markar því mikilvæg tímamót í sögu þjóðarinnar, ekki síður en lýðveldisdagurinn, og honum ber okkur því að halda á lofti og minnast þeirrar baráttu og tímamóta sem hann táknar.

Í dag eru 96 ár liðin frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki og þegar við lítum til baka er árangur íslensku þjóðarinnar mikill. Fáar þjóðir, ef einhverjar, geta státað af því að færast á jafn skömmum tíma frá því að vera eitt fátækasta bændasamfélag Evrópu til þess að vera eitt þróaðasta og best stæða samfélag heims. Því er ekki hvað síst fyrir að þakka skynsamlegri nýtingu á gæðum lands og hafs og framvaravilja og uppbyggingarhug þjóðarinnar sjálfrar.

Fyrir þá framsýni og uppbyggingarhug fyrri kynslóða getum við verið þakklát og einnig tekið okkur hann til fyrirmyndar. Trúin á tækifæri og framtíð lands og þjóðar er jafn mikilvæg í dag og næstu 96 ár inn í framtíðina eins hún hefur reynst okkur í fortíðinni.

Því er ekki að neita að úrlausnarefnin sem við Íslendingar og heimurinn allur stendur frammi fyrir nú dag eru um margt ólík því sem þau voru fyrir 96 árum. En tæknin, tækifærin og möguleikarnir sem við stöndum frammi fyrir hafa einnig aukist gríðarlega. Þá þurfum við að nálgast á skynsamlegan hátt, með það að markmiði að samfélagið allt njóti góðs af til framtíðar.

 

Það er engin nýjung að það skapist umræða og jafnvel hörð pólitísk átök um stór samfélagsmál. Stjórnmál snúast um stefnu, og frjáls rökræða um stefnu er því mikilvæg. Rökræðan skilar hins vegar ekki tilætluðum árangri nema hún byggist á staðreyndum.

Á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin tók til starfa er margt sem færst hefur til betri vegar. Í grein á ársafmæli ríkisstjórnarinnar fór ég yfir marga slíka þætti og nú er ljóst að sú jákvæða þróun hefur haldið áfram af krafti.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins eftir erfiðan niðurskurð síðasta kjörtímabils er nú kröftuglega hafin, þó að öllum sé ljóst að það verkefni mun taka nokkurn tíma. Eins og forstjóri Landsspítalans hefur bent á hefur ríkisstjórnin forgangsraðað í þágu heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpi komandi árs og verða framlög til Landsspítalans á árinu 2015 meiri en þau hafa nokkru sinni áður verið.

Því er við að bæta að tæpum milljarði króna verður varið til að flýta fyrir byggingu nýs landsspítala og að greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði minnkar auk þess sem lyf lækka í verði með lækkun efra þreps virðisaukaskatts.

Þá hafa framlög til almannatrygginga aldrei verið hærri, og þar má nefna sérstaklega að þær skerðingar á lífeyrisgreiðslum til aldraðra og öryrkja sem settar voru á árið 2009 hafa að fullu verið afnumdar, eins og boðað var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í efnahagslífinu eru horfurnar í raun enn betri en nokkur gat þorað að vona. Verðbólgan, sem hefur oft á tíðum reynst launafólki afar þungbær, er nú aðeins 1% og hefur aldrei verið lægri á þessari öld. Í raun hefur ríkt einstakt stöðugleikatímabil undanfarna tíu mánuði þar sem verðbólga hefur haldist fyrir neðan verðbólgumarkmið Seðlabankans og kaupmáttur hefur aukist um nærri 5%.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er enn bætt í þessa þróun þar sem samanlögð áhrif skattkerfisbreytinga og afnáms vörugjalda leiða til rúmlega 6 milljarða króna hækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna og sérstaklega hefur verið leitast við að tryggja að allir tekjuhópar komi best út úr breytingunum.

Heimili með verðtryggð húsnæðislán, sá hópur sem lengst hefur setið eftir óbættur, hafa loks fengið leiðréttingu eftir fimm ára bið, leiðréttingu á allri verðbólgu áranna 2008 0g 2009 fyrir ofan 4% vikmörk Seðlabankans. Þar er sérstaklega hugað að því að þak sé á leiðréttingarfjárhæð svo fjármagnið dreifist fremur á hina tekjulægri, nokkuð sem ekki var hugsað fyrir í 110% leið bankanna og fyrri ríkisstjórnar.

Ábyrg stjórn ríkisrjármála hefur skilað hallalausum fjárlögum tvö ár í röð og hafist hefur verið handa við að lækka skuldabyrði ríkisins. Við þetta bætist að hagspár fyrir næstu ár eru mjög jákvæðar og ástæða til að ætla að þessi ánægjulega þróun geti haldið áfram.

 

Árið 1918 var eitt mesta hörmungaár í sögu landsins okkar þar sem eldgos, frosthörkur og banvæn farsótt lagði þungar byrðar á landsmenn. En þrátt fyrir það var það einnig ár gleðilegra tímamóta þar sem árangur náðist loks eftir erfiða þrautagöngu.

Það er hollt að hafa í huga þegar við lítum fram á veginn á þessum merkisdegi. Því þó það sé að sönnu margt sem taka þarf á og lagfæra í samfélagi okkar nú á dögum er einnig margt sem gengur vel og horfir til enn betri vegar. Fullveldisdagurinn er í Íslandssögunni lýsandi kyndill árangurs eftir áratuga þrotlausa baráttu. Hann minnir okkur á að með samstilltu átaki, trú á okkur sjálf og landið okkar og framsýnni stefnu getum við náð markmiðum okkar og búið komandi kynslóðum betra samfélag.

Til hamingju með fullveldisdaginn Íslendingar.