Eldhúsdagsræða á Alþingi 8. júní 2011



Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra er rétt að horfa fram á við og ræða verkefnin á komandi þingi. Í eldhúsdagsumræðum er hins vegar litið yfir farinn veg. Forsætisráðherra kemst eðli málsins samkvæmt ekki hjá því að halda stefnuræðu forsætisráðherra, en það er athyglisvert að hvorki nú né í fyrra hefur forsætisráðherra treyst sér til að svara fyrir framgöngu ríkisstjórnarinnar við eldhúsdagsumræður. Það er þó skiljanlegt þegar horft er yfir undanfarin ár. Það er æskilegt að líta til baka og ræða hvernig hefur tekist til vegna þess að ef við greinum mistök fortíðar getur það nýst okkur við að leysa vandamál framtíðarinnar. Ég ætla því að byrja á að velta því upp hvernig staðan gæti verið ef skynsamlegar ákvarðanir hefðu verið teknar, einkum á sviði efnahagsmála á undanförnum tveimur árum, en að því búnu mun ég rekja nokkur af þeim fjölmörgu tækifærum sem við okkur blasa enn þrátt fyrir allt.

Það efnahagslega áfall sem reið yfir þjóðina árið 2008 var stórt en eftir stóðu traustir innviðir samfélagsins byggðir upp á heilli öld framfara og einstök tækifæri til að lágmarka tjónið fyrir íslenskan almenning. Framsókn barðist fyrir því á sínum tíma með öllum tiltækum ráðum að nýta þau tækifæri sem gáfust til að létta skuldum af heimilum, fyrirtækjum og íslenska ríkinu. Það vann með okkur að Ísland hafði verið afskrifað efnahagslega og lánasöfn bankanna voru metin á brot af nafnverði. Það lága mat var hægt að nýta til að færa niður skuldir og gera fleiri fyrirtæki fær um að halda eðlilegum rekstri, halda fólki í vinnu, fjárfesta og ráða nýja starfsmenn. Heimilin hefðu öðlast öryggi og verið betur í stakk búin til að halda uppi verslun og þjónustu og þar með atvinnu. Þetta voru aðgerðir sem voru réttlátar, efnahagslega nauðsynlegar, lögmætar og framkvæmanlegar. En eins og fram kemur í nýrri skýrslu fjármálaráðherra um stofnun bankanna voru þau tækifæri ekki nýtt.

Við vöruðum við því að myntkörfulánin kynnu að verða dæmd ólögmæt og lögðum fram útfærða áætlun um hvernig standa mætti að endurreisn bankanna og lágmarka áhættu hinna nýju banka og ríkisins en gera þá í stakk búna til að sinna frá fyrsta degi hlutverki sínu eða lána fjármagn til atvinnuuppbyggingar. Fjárfestingartækifærin voru næg. Fjölmargir innlendir og erlendir aðilar kynntu stór verkefni, enda var Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar eftir efnahagshrunið. Í nánast öllum tilvikum var þó fyrirstaðan sú sama; orkuskortur og pólitísk óvissa, einkum varðandi skattstefnu.

Skattar hafa verið hækkaðir hvað eftir annað og skattkerfið flækt með innleiðingu á gömlum furðuhugmyndum sem hvergi hafa virkað og iðulega dýpkað kreppu þegar þeim hefur verið beitt í efnahagslegri niðursveiflu.

Í febrúar 2009 lögðum við fram tillögur um hvernig vinna mætti á jöklabréfavandanum og afnema í framhaldinu gjaldeyrishöftin. Nú þegar liðið er vel á þriðja ár frá því höftin voru sett á er Seðlabankinn loksins farinn að fikra sig á fram við þær leiðir sem þá voru lagðar til. En um leið boðar ríkisstjórnin austur-þýsku leiðina í gjaldmiðilsmálum. Höft sem gera hversdagslega hluti glæpsamlega, eða hvað kalla menn það þegar kynnt er frumvarp um að fólk geti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir að gleyma að skila þeim gjaldeyri sem ekki var eytt í utanlandsferðinni eða sturtað niður um klósettið í flugvélinni á leiðinni heim svona til öryggis?

Ráðamenn vega svo að gjaldmiðli landsins við hvert tækifæri. Erlendum fjölmiðlum er sagt að krónan sé ónýt og hér verði höft um alla framtíð á meðan krónan er við lýði. Svo er því bætt við að hér muni enginn vilja fjárfesta. Svo undrast menn að þeir sem á þetta hlýða ráðist ekki í fjárfestingu í landinu eða að illa gangi að styrkja gengi gjaldmiðilsins þrátt fyrir mikinn hagnað af utanríkisviðskiptum. Í ofanálag er öllum greinum atvinnulífsins haldið í varanlegri eyðileggjandi óvissu.

Sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnugreinin er sett í algjört uppnám að því er virðist að tilefnislausu með frumvörpum sem allir þeir sem veitt hafa þinginu álit telja stórvarasamt.

Ef tækifærin væru nýtt í stað þess að auka á óvissuna væri öðruvísi umhorfs á Íslandi. Atvinnuleysi færi hratt minnkandi og hagvöxtur væri kominn á skrið. Snarpri kreppu fylgir yfirleitt hraður hagvöxtur um leið og óttinn hverfur en hér ríkir óttinn og óvissan enn.

Hvað skýrir hegðun ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna hafa tækifærin ekki verið nýtt? Hvers vegna er öllu tilfórnandi til að þóknast erlendum embættismönnum og kröfuhöfum?

Sagan segir að þegar hinn alræmdi landkönnuður Hernando Cortez kom til landsins sem nú heitir Mexíkó hafi hann brennt skipaflota sinn svo að fylgdarmenn hans ættu engan annan kost en að sækja inn í óbyggðirnar í leit að gullborginni; fyrirheitna landið eða dauði. Það hvarflar oft að manni að þessi aðferð Cortezar sé lýsandi fyrir viðhorf Samfylkingarinnar til Evrópusambandsumsóknarinnar. Það eru Evrópusinnar í öllum flokkum og margir óákveðnir, fólk sem lítur á umsókn um aðild að ESB sem einn valkost af mörgum. Í forustu Samfylkingarinnar ríkir hins vegar nokkurs konar Evrópusambandstrú. Ekkert skiptir máli nema málið eina. Það sannaðist nýlega þegar formaður flokksins bauðst til að leggja Samfylkinguna niður og stofna nýjan flokk um það eina markmið að komast í ESB. Öllu er tilfórnandi á Evrópugöngunni, hvort sem það er algjör uppgjöf gagnvart löglausum kröfum erlendra ríkja eða samningar sem fórna einstökum tækifærum til að leiðrétta skuldir almennings. Það sem gerist í jarðlífinu, þ.e. lífinu á Íslandi, skiptir engu máli. Það eina sem skiptir máli er vistin í sæluríkinu.

Í þessu öllu virðist hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, líta á sig sem nokkurs konar verktaka Samfylkingarinnar, verktaka sem fær það að launum að halda ráðuneytum og geta stundað hina sérkennilegu hagstjórnar- og samfélagstilraunir sínar. Það kemur líklega ekki að sök að mati samstarfsflokksins því að það nýtist við að ítreka mikilvægi málsins eina.

Það er sjálfsagt mál að ræða hugsanlega kosti Evrópusambandsaðildar en í millitíðinni verðum við að byggja upp íslenskt efnahagslíf. Það verður að gerast hvort sem menn vilja í Evrópusambandið eða ekki.

Ef við hverfum frá blöndu af sósíalisma og blindri trú á aðeins eina leið út úr vandanum eru tækifærin óþrjótandi. Við þurfum að taka skuldavandann föstum tökum og reka ríkið með aðhaldssömu heimilisbókhaldi. Losa þarf um hið mikla fjármagn sem nýta má til fjárfestingar og draga úr pólitískri óvissu með stjórnvöldum sem veita skýra framtíðarsýn.

Innviðir samfélagsins eru sterkir. Með umhverfisvænni orkuframleiðslu og áreiðanlegu, einföldu og skynsamlegu skattkerfi er ekkert því til fyrirstöðu að þúsundir starfa verði til á Íslandi á skömmum tíma. Auðlindirnar og lega landsins geta þá nýst til að skapa viðvarandi velferð í landi þar sem enginn á að þurfa að líða skort. Það eina sem þarf er áræðni og skynsemi.