Það reynist ekki vel að breyta trúarbrögðum í pólitík og ekki heldur að breyta pólitík í trúarbrögð.
Ein af afleiðingum sýndarstjórnmála samtímans er sú að því meiri athygli sem pólitísk viðfangsefni vekja, þeim mun meiri hætta er á þau séu gerð að trúarbrögðum. Þegar sú er orðin raunin teljast hinir áköfustu jafnan hæst skrifaðir í söfnuðinum og samkeppnin um að vera betri en aðrir eykst. Það er ýmist gert með því að ganga lengra en félagarnir eða með því að fordæma aðra, t.d. þá sem efast um ofsann.
Þannig getur það gerst að þeir sem vilja leysa málin með hliðsjón af vísindum og almennri skynsemi séu fordæmdir sem villutrúarmenn. Þá er ekkert hlustað á skýringar.
Þeir sem vilja falla í kramið þurfa m.a. að sýna tryggðina með því að temja sér að nota orðin sem æðstu-klerkarnir telja viðeigandi hverju sinni. Annars eru þeir úti. Samanber: „Maðurinn sagði loftslagsbreytingar eftir að búið var að gefa út tilskipun um að þetta héti hamfarahlýnun. Hann er augljóslega ekki einn af okkur.“
Þeir sem reyna sitt besta til að komast í söfnuðinn, læra kennisetningarnar og tungutakið, geta þó átt erfitt uppdráttar ef þeir koma ekki úr réttri átt. Sýndarpólitíkin dæmir nefnilega það sem er sagt og gert út frá því hver á í hlut, jafnvel út frá líkamlegum einkennum.
Stærsta forgangsmálið
Ríkisstjórnin vill gera loftslagsmálin að forgangsverkefni og virðist ætla að leita í smiðju söfnuðarins sem leggur línurnar í þeim efnum, m.a. fínni meðlimanna sem koma reglulega saman á einkaþotunum til að tala um fyrir fólki sem keyrir bíl eða fer stöku sinnum í flugvél til útlanda.
Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra vöruðu margir við popúlisma og þeim hræðsluáróðri sem einkenni hann um leið og þeir minntu á að heimurinn væri að farast.
Ég lagði áherslu á mikilvægi umhverfismálanna eins og ég hef oft gert áður en benti á mikilvægi þess að nálgast þetta stóra viðfangsefni með hjálp vísinda og út frá staðreyndum. Auk þess benti ég á að það hjálpaði ekki að viðhafa tilhæfulausan hræðsluáróður og nefndi eitt dæmi (af mörgum).
Í ræðu vísaði ég líka í einkar skynsamlegar athugasemdir Petteri Taalas, forstjóra Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), um mikilvægi þess að við nálguðumst loftslagsmál út frá vísindum og skynsemi en ekki hræðslu og öfgum.
Viðbrögðin
Viðbrögð safnaðarins létu ekki á sér standa. Aðstoðarmaður ráðherra sendi frá sér skilaboð um að þetta rugl þyrfti að stöðva í fæðingu. Félagsskapur sem kallar sig hvorki meira né minna en Náttúruverndarsamtök Íslands brást skjótt við og fullyrti snemma næsta dag að ég hefði verið að vísa í félagsskap í Bretlandi sem skipaður væri falsspámönnum og því væri þetta allt tóm vitleysa. Ekki vissi ég af tilvist þess hóps og gat því ekki vísað í hann en hafði látið mér nægja að vísa í gögn Sameinuðu þjóðanna.
Dagurinn var svo ekki hálfnaður þegar dreift var nýrri yfirlýsingu frá Finnanum skynsama hjá WMO. Hvernig skyldi það hafa gerst?
Langlínusamtal
Rétt er að taka fram að eftirfarandi er bara kenning en ekki staðreynd byggð á gögnum SÞ:
Finninn vinalegi var e.t.v. nýsestur með morgunkaffið á skrifstofu sinni í Genf þegar ritarinn skaut inn kollinum og tilkynnti að í símanum væri maður sem segðist vera íslenskur starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Brussel. Þessi maður héldi því fram að á Íslandi væri fullyrt að hann, sjálfur framkvæmdastjóri WMO, teldi enga þörf á aðgerðum í loftslagsmálum. Þetta væri byggt á blaðaviðtölum við hann.
Hvort sem skilaboðin bárust með þessum hætti eða ekki lét Finninn yfirvegaði hafa sig í að verja hluta dagsins í að skrifa langa yfirlýsingu um að hann hefði vissulega áhyggjur af loftslagsmálum.
Þótt ekki verði fullyrt hver fékk framkvæmdastjórann til að skrifa yfirlýsinguna er ljóst að embættismaðurinn og aktívistinn í Brussel tók að sér að skila henni til íslenskra fjölmiðla. Maður sem hafði enga aðkomu að málinu (hvað sem líður tengslum við umhverfispopúlista á Íslandi).
Finninn staðfasti
Ekki er vitað til þess að nokkur maður hafi haldið því fram að framkvæmdastjóri WMO hafi afneitað loftslagsbreytingum. Það var því illa gert að raska ró hans með slíkum fullyrðingum. Best var þó að yfirlýsing Finnans skynsama fól fyrst og fremst í sér ítrekun á fyrri afstöðu. Hann útlistaði að loftslagsbreytingar væru vissulega áhyggjuefni en mikilvægt væri að nálgast vandann á grundvelli vísinda og skynsemi en ekki með hræðsluáróðri. Ég var því ekki síður ánægður með nýju yfirlýsinguna en viðtalið.
Túlkunin
Túlkun sumra fjölmiðla á Íslandi var þó allsérkennileg og jafnvel villandi, samanber fyrirsögnina „Stjóri veðurstofunar sem Sigmundur vitnaði í segir orð sín afbökuð“. Erfitt var að skilja þetta öðruvísi en svo að „veðurstofustjórinn“ teldi mig hafa afbakað orð sín. Hann hafði ekki sagt neitt slíkt. Aðeins ítrekað það sem ég hafði hrósað honum fyrir.
Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja. Í Kastljósi var málinu fylgt eftir með hreint dæmalausu viðtali við stjórnmálafræðing. Þar leitaðist þingfréttaritari ríkisins til margra ára við að fylgja eftir hlutleysisstefnu stofnunarinnar með því að krefja viðmælandann svara um hvort það væri ekki alveg á hreinu að hann teldi Miðflokkinn algjörlega glataðan.
Framgangan kallar á umræðu á öðrum vettvangi en aftur að umhverfismálunum.
Við þurfum skynsamlegri aðgerðir
Ríkisstjórnin boðar aðgerðir í loftslagsmálum sem ekki eru allar til þess fallnar að leysa vandann. Enn á að refsa almenningi fyrir það eitt að vera til með alls konar nýjum gjöldum. Ofan á ný eldsneytisgjöld bætast ný gjöld fyrir að fara um göturnar sem skattgreiðendur voru þegar búnir að borga. Afraksturinn á að fara í óendanlega dýra borgarlínu sem mun hafa þann „viðbótarkost“ að þrengja að umferðinni. Urðunarskattur verður svo notaður til að refsa fólki fyrir að kaupa hluti og draga þannig úr neyslu. Á sama tíma reiða stjórnvöld sig þó á aukna neyslu til að láta fjárlögin ganga upp.
Getum við ekki sameinast um að taka á umhverfismálum af skynsemi? Ræktað landið, stutt vel við íslenska matvælaframleiðslu, eflt rannsóknarstarf, lyft þróunarverkefnum sem þegar hafa skilað ótrúlegum árangri, en mæta endalausum hindrunum, og framleitt orku úr sorpi í umhverfisvænni hátækni-sorpbrennslu? Þannig mætti lengi telja.
Umhverfismálin eru of mikilvægur málaflokkur til að þeim sé fórnað á altari sýndarstjórnmálanna.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14.9.2019