Bretum og Hollendingum hentar hvorki að vinna né tapa dómsmáli

Ýmsum meðölum er beitt til að hvetja fólk til að samþykkja Icesave samningana í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl næstkomandi.  Þar eru ekki síst fyrirferðarmikil rökin um að ef Íslendingar hafni samningunum þá muni Bretar og Hollendingar fara með málið fyrir dóm. Þá sé hætta á að dómsmál tapist og þjóðin standi eftir með enn stærri skuldir en samningurinn hljóðar upp á.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að skýra betur:

Í fyrsta lagi þá setja Bretar og Hollendingar málið ekki strax eða sjálfkrafa fyrir dómstóla ef Íslendingar hafna samningunum. Þeir munu bíða eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) höfði mál á hendur Íslandi fyrir brot á EES samningnum, þ.e. um það hvort íslenska ríkinu beri að greiða skuldbindingar innistæðuryggingasjóðs, 20.000 evrur á hvern Icesave reikning.

Í öðru lagi er alls ekki víst að Íslendingar tapi þessu máli. Virtir lögfræðingar, íslenskir sem erlendir, hafa fært fyrir því rök að Ísland eigi mjög góðar líkur á að vinna slíkt mál fyrir EFTA dómstólnum. En eitt er víst: Bretum og Hollendingum hentar hvorki að vinna né tapa slíku máli. Hvers vegna?

Jú, Það hentar þeim augljóslega ekki að tapa dómsmáli, en ástæðan fyrir því að þeim hentar ekki að vinna það heldur er að þá hefur Evrópudómstóll komist að þeirri niðurstöðu að allar innistæður í öllum bönkum í Evrópu séu á ábyrgð viðkomandi ríkja. Breskum yfirvöldum ber þá að tryggja allar innistæður í breskum bönkum upp að 20.000 Evrum, hollenska ríkið ber þá ábyrgð á hollenskum bönkum og svo framvegis. Ekki aðeins er þetta algerlega andstætt samkeppnisreglum Evrópusambandsins heldur má einnig velta því fyrir sér hversu vænlegt það sé fyrir t.d. yfirskuldsett spænska ríkið að fá alla stórskuldugu spænsku bankana í fangið í einu vetfangi eftir slíkan dóm.

Í þriðja lagi ákvarðar EFTA dómstóllinn ekki skaðabætur eða vaxtakjör á skuldum. Það er ljóst að ef EFTA dómsóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu beri að ábyrgjast 20.000 Evrur á hvern Icesave reikning, þá kemur til kasta íslenska ríkisins að ákveða hvernig ríkið kemur til móts við þá skyldu. Það gæti það til dæmis gert með því að bjóða Bretum og Hollendingum að fá allt eignasafn Landsbankans greitt út. Slík lausn myndi nær örugglega sjá til þess að þeir fengju greiddan allan höfuðstól kröfu sinnar og gott betur.

Í fjorða lagi er öruggt að aðeins íslenskur dómstóll getur dæmt íslenska ríkið til að greiða Bretum og Hollendingum skaðabætur vegna Icesave málsins (t.d. allar Icesave innistæður sem Bretar greiddu úr, eins og hræðsluáróðurinn hamast nú á). Þetta kom t.d. fram fyrir skömmu í bréfi frá ritara EFTA dómstólsins. Varnarþing íslenska ríkisins er í Reykjavík og ríkið verður ekki sótt fyrir öðrum dómstólum nema það samþykki það sjálft (t.d. eins og gert er í Icesave samningunum).

Ef Bretar og Hollendingar myndu ekki fallast á þá lausn sem íslendingar byðu í kjölfar EFTA dóms gætu þeir því höfðað skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu fyrir Hérðasdómi Reykjavíkur.

Í fimmta lagi er það ljóst að dæmi íslenskir dómstólar íslenska ríkið til að greiða Bretum og Hollendingum kostnað þeirra vegna allra Iceasve innistæðnanna (ekki bara 20.000 Evrur á hvern reikning), þá mun ríkið fá á móti allt eignasafn Landsbankans (en ekki bara helminginn eins og skv. Icesave samningunum). Einnig verður íslenska ríkinu þá heimilt að greiða í íslenskum krónum í stað gjaldeyris.

Í sjötta lagi er rétt að minnast þess að Icesave samningur losar íslenska ríkið ekki við málaferli vegna neyðarlaganna, og mismununnar á grundvelli þeirra, enda eru slík málaferli þegar hafin af hálfu annarra kröfuhafa.

Þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar lið fyrir lið á skynsamlegan hátt er augljóst að sá hræðsluáróður sem nú er beitt til að hvetja Íslendinga til að samþykkja Icesave samningana er rakalaus.