Gagnrýni mín á hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á matvæli í tíð síðustu ríkisstjórnar var, eins og ég tók þá fram, í samhengi við aðrar skattahækkanir á þeim tíma – ekki hvað síst með vísun í að efra þrepið væri orðið óeðlilega hátt. Slíkar hækkanir hefðu þá verið viðbót við stöðugar hækkanir annarra skatta, gjalda og verðlags og þannig rýrt enn kaupmátt heimilanna. Í því lágu áhyggjur mínar og í því liggja þær enn, að hækkun virðisaukaskatts á matvæli geti skert kaupmátt.
Frá því að umræða hófst, meðal annars með hliðsjón af reynslu annarra þjóða, um að æskilegt gæti verið að draga úr muninum á efra og neðra virðisaukaskattsþrepinu hefur orðið grundvallarbreyting á þeim hugmyndum sem hafa verið til skoðunar. Gert er ráð fyrir minni hækkun neðra þrepsins en áður og það sem mestu máli skiptir; innleiddar hafa verið tvær grundvallarforsendur. Þ.e. að með lækkun annars verðlags (m.a. lækkun efra vsk þrepsins) og auknum stuðningi við fólk með lægri- og millitekjur eiga breytingarnar í heild að:
a) Auka ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa, þar sem sérstaklega verður hugað að því að þeir sem eru með lægri- og millitekjur fái aukinn kaupmátt með breytingunum. Skýr dæmi um áhrifin á ráðstöfunartekjur eftir mismunandi fjölskylduhögum má finna í frumvarpinu.
b) Áhrifin á vísitölu neysluverðs og þar með á skuldir heimilanna eiga að verða til lækkunar, ekki hækkunar og lækka þar með skuldir heimilanna frekar en að hækka þær.
Í stað þess að skerða kjör heimilanna eiga þau að batna um leið og skattkerfið verður skilvirkara. Menn geta svo haft mismunandi skoðanir á því hvort sú aðferð sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu dugi til að ná þessum grundvallarmarkmiðum.
Ég, aðrir framsóknarmenn, og eflaust sjálfstæðismenn líka, vilja hafa sem mesta vissu fyrir því að sú verði raunin. Þess vegna hefur fjármálaráðherra sagt að komi í ljós við þinglega meðferð að einhver vanhöld séu á því að breytingarnar nái markmiðunum um aukinn kaupmátt fyrir alla og lægra verðlag, verði gerðar hverjar þær breytingar sem þurfa þykir til að ná því markmiði.
Allir hljóta að geta verið sammála um að ef hægt er að fara í breytingar sem auka almennan kaupmátt, lækka verðlag og bæta stöðu lág- og millitekjuhópa sé það æskilegt.
Það var lengi svo á Íslandi að aðeins sá hluti þjóðarinnar sem hafði tiltölulega háar tekjur eða átti kost á að ferðast til útlanda gat eignast ýmis konar raftæki og aðrar vörur sem voru skattlagðar svo mikið innanlands að allt að 70-80% verðsins var opinber gjöld. Einhverjir virðast reyndar enn vera þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að verð sumra vara, t.d. tölvubúnaðar og heimilistækja sé svo hátt að aðeins hluti þjóðarinnar hafi efni á að kaupa slíkar vörur. En ef menn vilja raunverulega vinna að jöfnuði í samfélaginu verðum við að stefna að því að öllum verði kleift að búa við nútíma þægindi og jafnvel geta leyft sér að fylgja þróun samfélagsins og tækninnar með því að eignast nútíma raftæki eða kaupa ný föt á börnin sín fyrir skólann og veita þeim þann búnað sem þau þurfa til að geta fylgt félögunum eftir í námi eða tómstundum.
Nú tekur við vinna í þinginu þar sem markmiðið er að tryggja að breytingar í fjárlagafrumvarpinu auki kaupmátt, lækki verðlag, dragi úr svartri atvinnustarfsemi, efli innlenda framleiðslu og færi okkur yfir í þær leiðir sem reynst hafa best til að auka jöfnuð í samfélaginu. Það hljóta að vera markmið sem flestir geta sameinast um.
Þessar aðgerðir er ætlaðar til að hafa þveröfug áhrif við skattahækkanir síðasta kjörtímabils og hækkun virðisaukaskatts á matvæli ef hún hefði orðið á þeim tíma.
Þá var tilgangur hækkunarinnar að auka tekjur ríkissjóðs. Áhrif skattkerfisbreytinganna nú á ríkissjóð eru hins vegar neikvæð um nærri fjóra milljarða þegar allt er talið saman. Það er allt önnur mynd en blasti við árið 2011 í tíð fyrri ríkisstjórnar sem taldi sig geta búið til verðmæti með skattlagningu.
Ég nefndi stundum á síðasta kjörtímabili að ekki væri gert nóg af því að bera upp á ráðherra hvað þeir hefðu sagt og hver afstaða þeirra hefði verið áður en þeir tóku við völdum. Nú er þetta ekki lengur vandamál. Menn eru mjög duglegir við að leita að einhverju sem ráðherrar hafi sagt á liðnum árum sem hugsanlega samræmist ekki umræðu samtímans. Það er ekkert út á slíkt aðhald að setja en þó hlýtur að vera eðlilegt að tekið sé tillit til samhengis hlutanna. Skattkerfisbreytingar sem bæta hag heimilanna eru allt annars eðlis en þær sem skerða hag þeirra.
One comment
Comments are closed.