Almenningur á bara að borga

Nýjustu fréttir af íslensku bönkunum sem eru enn ein vísbendingin um það sem hefur verið að koma betur og betur í ljós, þ.e. hversu lítið hefur breyst. Almenningur á að borga þegar illa fer en fjármálakerfið hér á landi og erlendis heldur sínu striki með aðstoð stjórnvalda.

Meiri hagnaður en 2007

Íslandsbanki hagnaðist á síðasta ári um hærri upphæð en Glitnir gerði árið 2007. Að mestu leyti er hagnaðurinn til kominn vegna vaxtamunar og vegna þess að lánasöfn voru færð yfir í nýja bankann með miklum afslætti. Þetta svigrúm hefði átt að nýta í að færa niður lán eins og framsóknarmenn hafa ítrekað bent á undanfarin tvö ár. Einnig hefði átt að standa öðruvísi að stofnun bankanna og nýta það lága verðmat sem var á lánasöfnum banka eftir efnahagshrunið almenningi í hag.

Hagsmunir ríkisstjórnarinnar

Í staðinn er unnið að því hörðum höndum að innheimta sem mest. Allt er þetta gert samkvæmt forskrift ríkisstjórnarinnar sem hannaði kerfið. Ríkið hefur reyndar mikinn hag af því að bankarnir sýni sem mestan hagnað því að það eykur skatttekjurnar. Hjá Landsbankanum fá menn svo meira upp í skuldabréfið sem á að ganga upp í Icesave með því að láta almenning borga sem mest. Það er óheppilegt ef ríkisstjórnin lítur svo á að hag sínum sé best borgið með því að fá sem mestar tekjur úr bönkunum fremur en að bankarnir ráðist í sem víðtækasta leiðréttingu lána.

Hvatakerfi bankanna

Laun bankastjóra eru eitt en hvernig ætli samspil tekna og innheimtu sé? Í fjármálabólunni hér á landi og annars staðar átti hvatakerfi bankanna stórann þátt í að ýta undir bólumyndunina. Er ríkisstjórnin nú búin að hanna bankakerfi sem felur í sér sterka hvata til að innheimta stökkbreytt lán íslensks almennings og smáfyrirtækja upp í topp?

Almenningur á að borga

Fréttir af afkomu í Íslandsbanka og Arion-banka berast rétt eftir að sömu bankar stóðu fyrir miklum áróðursfundum til að afla fylgis við það að almenningur ábyrgist gamlar skuldir einkabanka með hinum nýju Icesave-samningum. Þar voru mennirnir sem gerðu samningana (þótt sumir hafi bara verið kynntir sem erlendir sérfræðingar) látnir útskýra fyrir almenningi hvers vegna fólki væri hollast að rugga ekki báti hins alþjóðlega fjármálakerfis.

Forsætisráðherra kemur enn af fjöllum

Enn á ný virðast svo forsætisráðherra og stjórnarliðar ætla að láta eins og þau séu í stjórnarandstöðu og hafi ekkert með málin að gera. Forsætisráðherra lét eins og hann kæmi af fjöllum þegar upplýst var um laun seðlabankastjóra og þegar sölunni á HS orku var mótmælt hélt forsætisráðherra því fram að mótmælin væru einmitt í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Það gerði ráðherrann þótt hann hefði í þremur ríkisstjórnum innleitt og framkvæmt þveröfuga stefnu (þar af í tveimur sem forsætisráðherra).

Stjórnlaust land

Það var núverandi ríkisstjórn sem einkavæddi bankana, hannaði nýju bankana (án þess að hlusta á aðvaranir) og rekur Bankasýslu ríkisins sem hefur umsjón með öllu saman. Einhver þarf að fara að upplýsa Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún sé ekki lengur fyrrverandi félagsmálaráðherra í stjórnarandstöðu. Það má minna ráðherrann á að hann hafi setið í stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í efnahagshruninu og aðdraganda þess og sé nú forsætisráðherra. Svo þarf að fara að stjórna landinu.

– Greinin birtist í morgunblaðinu 10. mars 2011

One comment

Comments are closed.