Virðulegur forseti.
Á okkar dögum ríkir tilhneiging til að fletja út söguna, draga úr gildi afreka og halda því fram að allt hafi að mestu leyti verið afleiðing aðstæðna á hverjum tíma. En það er ekki hægt að draga úr gildi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Á tímum þegar voru innan við 20 sjálfstæðar þjóðir í heiminum öllum trúði 50 þúsund manna þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi því að hún ætti að vera sjálfstæð og væri fullbær um að stýra eigin málum á farsælan hátt. Jón Sigurðsson leiddi baráttuna. Til þess beitti hann öllum góðum vopnum en lét þau vondu liggja óhreyfð. Jón var ávallt friðarsinni og leiddi sjálfstæðisbaráttu sem var nánast einstök í því að uppþot og ofbeldi komu aldrei til greina, sigur skyldi vinnast með rökum.
Eitt mikilvægasta framlag hans var að veita þjóðinni sjálfstraust, kenna henni að meta sig rétt. Íslenska þjóðin hafði mikla trú á Jóni Sigurðssyni en barátta hans byggðist ekki hvað síst á trú hans á íslensku þjóðina. Trú þjóðarinnar á sjálfa sig og gildi sjálfstæðis er nú sem þá forsenda velferðar og framfara. Jón mátti oft þola árásir samtímamanna. Hann var sakaður um að vera ofstækisfullur leiðtogi öfgasinnaðs þjóðernisflokks, enda þóttu mörgum hugmyndir um sjálfstæði smáríkisins óraunhæfar. Í raun háði hann þó baráttu sína alltaf með rökum og var tilbúinn til málamiðlana ef þær voru til þess fallna að þoka málum í rétta átt. Hann var samt alltaf prinsippmaður sem vék ekki frá grundvallaratriðum.
Þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann m.a. í krafti þeirrar vitneskju að örfáir þingmenn á þingi sem áttu að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi, ekki frekar en embættismenn sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjarri Íslandsströndum. Sannfæring Jóns reyndist rétt því að þótt ýmislegt hefði betur mátt fara er saga Íslands eftir að landið fékk sjálfstæði ein mesta framfarasaga mannkynssögunnar.
Það sakar ekki að minnast þess þegar gengið er í gegnum tímabundin skakkaföll sem þó virðast smávægileg í samanburði við þær aðstæður sem ríktu á meðan á sjálfstæðisbaráttunni stóð. Það væri aumt að halda því fram að aðstæður okkar hér sem sjálfstæðrar þjóðar sé á einhvern hátt erfiðari en þær voru á meðan Jón Sigurðsson háði baráttu sína. Jón Sigurðsson var íslensku þjóðinni ómetanleg fyrirmynd í sjálfstæðisbaráttunni og ætti að vera það enn.
Fyrir 100 árum, þann 17. júní 1911, þegar öld var liðin frá fæðingu Jóns, flutti Jón Jónsson sagnfræðingur ávarp um frelsishetjuna af svölum Alþingishússins hér á bak við hæstv. forseta. Þar lýsti hann þeim manni sem Jón Sigurðsson hafði að geyma, með leyfi forseta:
„Hann fer ekki í felur með skoðanir sínar eða heldur því einu fram, sem mestan byr hefur í svipinn. Hann beygir ekki knje fyrir tískunni og tíðarandanum, auðnum og völdunum. Hann segir það svart, sem hann álítur svart, þótt allir aðrir segi það hvítt. Hann rís upp á móti því, sem honum finst rangt og skaðlegt, þótt allur þorri manna sje á annari skoðun, þótt lýðhylli hans sje i veði. Það er ekki hundrað í hættunni, þótt lýðhyllinnar missi við, en hitt er honum óbærileg tilhugsun, að glata virðingunni fyrir sjálfum sjér. Þess vegna er hann jafnan sjálfum sjer og sannfæringu sinni trúr og tryggur í öllum greinum.“
Nú þegar samfélagsumræða stjórnast oft um of af tíðarandanum og sleggjudómum frekar en rökum er hollt að líta til Jóns forseta. Að vera og ekki virðast, það var einkenni hans. Það mættum við samtímamenn taka okkur til fyrirmyndar.
Jón sagnfræðingur lýsti því á svölunum fyrir aftan mig að hann óskaði þess að það ætti fyrir þjóð vorri að liggja að fagna því þegar 200 ár væru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, en einnig 300 ár og mörg hundruð ár eftir það.
Að lokum leit sagnfræðingurinn til framtíðar og sagði:
„Sje það eitt öðru framar, sem vjer vildum kjósa þessari fámennu, fátæku þjóð til handa þá er það sameinig, samlyndi. Við erum svo kraftalitlir, að við megum ekki til lengdar við þessari stöðugu sundrung, innbyrðis hatri og óeirðum. Við verðum að geta tekið höndum saman, ef á liggur. Nú er það einkum tvent, sem hefur slíkt sameiningarafl í sjer fólgið. Annað er sameiginleg þjóðarógæfa, þjóðarböl, þjóðaráföll, ofsókn af hendi erlends ofurvalds eða annað þess háttar. Hitt er sameiginleg göfug og glæsileg þjóðarminning. Ógæfu vil jeg ekki æskja þjóð minni, böls vil jeg ekki biðja henni, jafnvel þótt það mætti leiða til hagsældar í framtíðinni. Því verði vil jeg ekki að svo stöddu kaupa sameiningu kraftanna. En hins vil jeg biðja af heilum hug, að þessi minningarhátíð, sem vjer höldum í dag, verði oss öllum, — öllum íslendingum — sameiningarhátíð, ekki skoðananna, heldur hjartnanna, í ósjerplægnu starfi fyrir land og lýð, í bróðurlegri samvinnu á öllum sviðum þjóðlífsins“
Við tökum í dag ákvörðun um að minnast Jóns Sigurðssonar með stofnun prófessorsstöðu í nafni hans. Það er vel við hæfi því að barátta Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði þjóðarinnar spratt upp úr þekkingu hans og baráttan var háð með rannsóknir og fróðleik að vopni. Þekking er því senn rótin að sjálfstæði þjóðarinnar og undirstaða farsældar til framtíðar. Lengi lifi minning Jóns Sigurðssonar.