Sumarið 2020 og nýja menningarbyltingin

Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég fjallað mikið um skaðleg áhrif pólitísks rétttrúnaðar og svokölluð ímyndarstjórnmál (e. identity politics). Þótt kenningar um að Covidfaraldurinn muni breyta heiminum séu stundum heldur langsóttar leyfði ég mér að vona að þessi sameiginlega raun heimsbyggðarinnar myndi minna á hvað skiptir raunverulega mestu máli. Hlutir á borð við samkennd, jafnræði, heilbrigðisþjónustu, verðmætasköpun atvinnulífsins, öryggi ríkja o.s.frv. Slíkir hlutir og mörg af grundvallargildum vestrænna samfélaga hafa átt mjög undir högg að sækja.

Það horfir ekki vel með þær vonir. Um leið og dró úr árifum faraldursins á Vesturlöndum náðu áhrif óheillaþróunar samfélaganna nýjum hæðum. Eftir að rétttrúnaðarfylkingin hafði haft enn meiri tíma en áður til að liggja á netinu náði vitleysan nýjum lægðum.

Tilefnið

Það eina sem vantaði var tilefni til að hefja byltingu. Það kom í formi hræðilegs myndbands þar sem lögreglumaður í Bandaríkjunum murkaði lífið úr blökkumanni á einstaklega grimmilegan hátt. Það var eðlilegt að slíkt vekti viðbrögð og kröfur um að lögreglumanninum yrði refsað ásamt félögum hans sem stóðu aðgerðarlausir hjá.

Lögreglumennirnir voru ákærðir en fljótlega fóru ýmsir hópar að nýta sér málið í eigin þágu. Fremst í flokki fór hreyfing sem kallar sig Black Lives Matter (BLM) eða „Svört líf skipta máli“. Allt vitiborið fólk hlýtur að vera sammála fullyrðingunni sem birtist í nafni samtakanna þótt það sé óneitanlega sérkennilegt að litgreina líf sem svört, hvít eða eitthvað annað.

Bara nafnið

BLM hafði verið þekkt sem herská samtök á jaðri stjórnmálanna. En nú skipti bara nafnið máli. Það er tilhneiging sem birtist víða í stjórnmálum samtímans, m.a. á Íslandi eins og ég hef fjallað um áður. Afstaða til samtaka, stofnana, starfa og jafnvel lagafrumvarpa skal byggð á nafninu en ekki innihaldinu og aðferðinni. Það er ekki að ástæðulausu að ímyndarstjórnmál eru stundum kölluð merkimiðastjórnmál.

Fyrr en varði fór fólk að klifra hvert yfir annað til að komast fremst í röð þeirra sem styddu BLM. Alþjóðafyrirtæki sem lengi hafa sýnt undirgefni gagnvart þeim tíðaranda sem hæst ber hverju sinni fóru þar framarlega í flokki og fræga fólkið lét ekki sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn. Þátttaka var reyndar skylda. Bresk leikkona fékk símtal frá umboðsmanni sínum sem spurði hvers vegna hún væri ekki búin að sverja BLM hollustu á samfélagsmiðlum. Hún útskýrði að það væri vegna þess að hana langaði ekki til þess. Umboðsmaðurinn kvaðst skilja það en þetta væri skylda ef hún vildi einhvern tímann fá vinnu aftur. Leikkonan lét því undan.

Það þarf að sanna sig

Í ofstopaástandi er nefnilega ekki nóg að halda sig til hlés. Það þarf að sanna að maður sé rétttrúaður en ekki efasemdanorn. „Hvít þögn er ofbeldi“ er vinsælt slagorð byltingarinnar. Byltingar sem nú hefur tekið á sig öll helstu einkenni kínversku menningarbyltingarinnar. Að vísu að undanskildum opinberum aftökum en lögreglumenn, hvítir og svartir, hafa verið skotnir í „að mestu friðsamlegum mótmælum“ eins og flestir fjölmiðlar kjósa jafnan að kalla það.

Öðrum fremur eru það hvítir „aðgerðasinnar“ sem viðhafa mestu ólætin sem eins og jafnan snúast um sjálfsupphafningu fremur en málstaðinn. Mörg myndbönd hafa birst af ungu hvítu háskólafólki öskra á þeldökka lögreglumenn og kalla þá svikara fyrir það eitt að vinna vinnuna sína og halda uppi lögum og reglu.

Nýja menningarbyltingin felur í sér endurvakningu kynþáttahyggju, þess að flokka fólk eftir húðlit, en hún ber líka með sér aðrar hugmyndir sem áður fylgdu slíkri mismunun, m.a. þeirri um „hvíta bjargvættinn“. Þ.e. að hvítu fólki beri að hafa vit fyrir öðrum kynþáttum.

Menningarbylting Vesturlanda hefur öll einkenni öfgatrúar, þ.m.t. trúarathafnir sem fólki er ætlað að undirgangast til að sanna undirgefni sína gagnvart rétttrúnaðinum. Fljótlega myndaðist sú krafa að fólk „tæki hné“, þ.e. færi niður á annað hnéð, til að sýna stuðning við BLM.

Allir á hnéð

Fyrr en varði fór fólk að „taka hné“ um allt. Leiðtogar Demókrataflokksins, sem á langa sögu stórkostlegra afreka áður en hann var yfirtekin af ímyndarpólitíkinni, tóku hné og báru sérstaka trefla til að fullkomna athöfnina.

Þótt erfitt sé að átta sig á því hvað enski boltinn hefur með lögreglumál í Minneapolis að gera samþykktu öll liðin að spila með áletrunina „Black lives matter“ á bakinu í stað nafna leikmannanna og auðvitað að taka hné fyrir leik.

Kappakstursmenn þurfa eðli máls samkvæmt að vera hugrakkir. En þegar farið var fram á að ökumenn í Formúlu 1 tækju hné fyrir kappakstur þorðu aðeins sex þeirra að standa. Þeir hinir sömu voru að sjálfsögðu fordæmdir fyrir fordómafulla (ofbeldisfulla) hegðun. Þó höfðu allir klæðst bolum með áletrunum gegn kynþáttahyggju. Breskur ráðherra sem ekki hlýddi kröfu um að krjúpa á kné þurfti dögum saman að verjast sams konar árásum.

Bandaríski NASCAR-kappaksturinn er ekki síst vinsæll í Suðurríkjunum. Þar varð uppi fótur og fit eftir að birt var mynd af snöru í bílskúr þeldökks ökumanns. FBI mætti með 15 vopnaða menn í bílskúrinn og fordæmingar og kröfur um aðgerðir tröllriðu íþróttinni þar til í ljós kom að snaran hefði hangið í bílskúrnum löngu áður en ökuþórinn fékk hann til ráðstöfunar og að um væri að ræða spotta til að loka bílskúrshurðinni.

Fyrst rætt er um kappakstursmenn má líka nefna ökumann sem missti stuðning bakhjarla sinna eftir að einhver benti á að látinn faðir hans hefði notað óviðeigandi frasa í útvarpi áður en sonurinn fæddist.

Stuðningur við hvað?

Fjármagn streymir nú til BLM, ekki síst frá fyrirtækjum og fræga fólkinu. En að hverju er það að stuðla með fjárframlögum sínum og helgiathöfnum? Breskir blaðamenn höfðu fyrir því að kynna sér stefnu samtakanna og bentu á að hún snerist um að brjóta á bak aftur vestræna menningu og kapítalisma, fjölskylduformið, stjórnkerfið og sérstaklega að leggja niður lögreglu og dómstóla.

Víða um lönd létu lögreglumenn sig hafa það að krjúpa fyrir samtökum sem berjast gegn þeim reglum sem þeir starfa við að verja og raunar þeim sjálfum. Lögreglustjórar virtust enda margir logandi hræddir við að verja sitt fólk og sitt hlutverk. Í Minneapolis var lögreglustöðin þar sem manndráparinn hafði starfað yfirgefin og eftirlátin óeirðaseggjum sem fóru þar um brjótandi og bramlandi og kveiktu í eftir að hafa tæmt vopnabúrið.

Fríríki

Í Seattle, sem nú er undir oki menningarbyltingarinnar, var stofnað nýtt fríríki. Borgarstjórnin, sem minnir um sumt á þá reykvísku, lagði það helst til mála að færa fríríkinu vegtálma til að marka landamærin með áfestum spjöldum fyrir veggjakrot. Fljótlega kárnaði þó gamanið í litla landinu sem bar hið skammstafaða nafn CHAZ þegar hópur fólks vildi endurskíra það með skammstöfuninni CHOP. Deilurnar snerust um hvernig ætti að skilgreina svæðið. Þó var fljótt komið á landamæravörslu þungvopnaðra manna með hríðskotariffla. Eflaust hafa þeir verið dyggir stuðningsmenn samtakanna „No Borders“. Svartklæddir og álíka vel vopnaðir meðlimir Antifa (svokallaðra and-fasista) munu hafa sinnt gæslu innan landamæranna. Eigendur íbúða eða fyrirtækja á svæðinu þurftu að sýna skilríki til að komast heim. Fræðimaður á sviði einhvers konar vistvænnar borgarfræði (sem hlýtur fljótlega að verða ráðinn í Reykjavík) mætti á svæðið til að hefja ræktun matjurta sem sérstaklega voru merktar fólki af tilteknum húðlit. Sjálfskipað samfélagsráð leitaðist við að leysa dómstóla af hólmi. En allt kom fyrir ekki og fríríkið flosnaði upp en eftirlét skattgreiðendum að hreinsa til.

Fórnarlambamenning

Menningarbylting Vesturlanda er byggð á því sem kallað hefur verið fórnarlambamenning. Tilhneigingu til að skipa fólki í hópa sem njóta mismikilla réttinda eftir því hversu hátt þeir skora á óformlegum fórnarlambaskala. Röðun á listann kallar svo stundum á innbyrðisátök innan rétttrúnaðarhreyfingarinnar. Í því samhengi er mikilvægt að hafa hugfast að allar öfgahreyfingar segjast vera að verja hagsmuni þeirra sem hallar á og réttlæta þannig aðgerðir sínar. Umræðan er alltaf um yfirlýst markmið. Ekki um aðferðirnar sem jafnan bitna fyrir rest á þeim sem barist er fyrir. „Byltingin étur börnin sín“ eins og Frakkar uppgötvuðu fyrir nærri 230 árum.

Smátt og smátt hefur komið í ljós að vestræna menningarbyltingin snýst í grunninn um andúð á vestrænni siðmenningu, rétt eins og sú kínverska sem snerist reyndar bæði um andúð á gömlum kínverskum gildum og vestrænni menningu.

Í allmörg ár hefur t.d. mátt segja hvað sem er um kristni og gagnrýni á trúna talist mikilvægur þáttur hins nýja rétttrúnaðar. Hinir sömu telja hins vegar alla gagnrýni á Islam vera glæp (hatursglæp) og skilgreina slíkt nú sem geðsjúkdóm, svo kallaða islamofóbíu.

Aftökumenning

Þótt leiðtogar nýju menningarbyltingarinnar hafi ekki vald til að taka fólk af lífi eru þó aftökur eitt helsta einkenni hreyfingarinnar. Þ.e. samfélagslegar aftökur. Enda er þróunin nú kölluð aftökumenning í enskumælandi löndum (e. Cancel culture). Sú þróun hófst raunar löngu áður en menningarbyltingin sem fylgdi Covid fór af stað og lagði grunninn að því sem koma skyldi. Allir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atburðarásina geta vænst þess að verða „teknir af lífi“ á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þar er enginn óhultur.

Rithöfundurinn J.K. Rowling sem er þekktust fyrir sögurnar um Harry Potter var lengst af einn af öflugustu stuðningsmönnum ríkjandi rétttrúnaðar. Ég skrifaði um raunir Rowling í greinum við síðustu áramót en eftir upphaf nýju menningarbyltingarinnar hefur hún mátt þola ágjöf sem aldrei fyrr. Rowling er hlynnt réttindum transfólks en hún er líka femínisti og hefur lýst áhyggjum af því að ákveðnir transaktívistar séu að vega að kvenfrelsi. Fyrir vikið hefur hún verið stimpluð „terfa“ (e. TERF – trans-exclusionary radical feminist).

Nú telst það sums staðar hatursglæpur að vitna í orðabókina og skilgreiningu hennar á orðinu „kona“. Í Bretlandi hefur fólk fengið símtal eða heimsókn frá lögreglu fyrir að vitna í orðabók á samfélagsmiðlum. Í Oxford hóf lögreglan umfangsmikla rannsókn eftir að einhver setti litla límmiða á nokkra veggi með skilgreiningu orðabókar Oxfordháskóla á orðinu kona.

Rowling og á annað hundrað þekktra Breta skrifuðu einstaklega hófstillta og á köflum afsakandi grein til að andmæla aftökumenningunni. Ekki leið á löngu þar til fólk bað um að verða tekið af lista greinarhöfunda eftir að hafa verið spurt hvort það ætlaði virkilega að skrifa grein með fólki á borð við J.K.Rowling.

En það eru ekki allir í sömu stöðu og Rowling að geta látið sér fátt um finnast þegar öfgafólk ræðst til atlögu. Margir hafa misst vinnuna eða lifibrauð sitt að miklu leyti eftir samfélagslegar aftökur, oft af litlu eða engu tilefni. Sumir jafnvel vegna þess sem ættingi sagði fyrir áratugum. Dæmin væru í mörgum tilvikum hlægileg ef þau væru ekki of sorgleg og því miður of mörg til að hægt sé að rekja þau í stuttri grein.

Það er líka hættulegt að vera með

Þegar öfgamenn efna til byltingar líður ekki á löngu áður en innbyrðissamkeppni um að vera rétttrúaðri en aðrir kemur jafnvel þeim sem vilja taka þátt í vandræði. Ritstjóri þekkts matreiðslutímarits taldi rétt að tímaritið lýsti yfir stuðningi við byltinguna. Einhverjir töldu hann hins vegar ekki hafa gengið nógu langt og því var þess krafist að hann hætti störfum.

Forstöðumaður listasafns San Franciscoborgar ákvað að skýra frá því að aukin áhersla yrði lögð á að safna list eftir fólk með annan húðlit en hvítan en lét fylgja sögunni að safnið myndi þó einnig kaupa verk eftir hvíta listamenn. Honum varð ekki sætt í starfi.

Eigendum fjölskyldurekinnar bókaverslunar í Denver varð það á að nefna það á samfélagsmiðli að bókabúðin yrði ópólitísk og myndi áfram selja alls konar bækur. Ofstopafólkið brást illa við. Eigendur verslunarinnar gáfu eftir og lýstu yfir fullum stuðningi við BLM. Það dugði ekki og fólk sem sagðist ýmist vera viðskiptavinir eða rithöfundar birti langan lista af kröfum sem bókabúðin þyrfti að uppfylla.

Félag bandarískra ljóðskálda birti stuðningsyfirlýsingu en þrátt fyrir að hún kæmi úr réttri átt var hún ekki nógu róttæk og því var félaginu sendur langur listi krafna. Eins kostulegur og sá listi var er ekki svigrúm til að rekja hann hér. En í ofanálag var krafist fjárframlags frá skáldafélaginu með vísan til þess að það hefði drýgt þá synd að safna aurum í sjóð. Félagið lét auðvitað undan og fyrsta greiðsla í málstað menningarbyltingarinnar nemur milljón bandaríkjadölum.

Háskólar og fjölmiðlar

Langur listi 48 krafna, auk undirkrafna, undirritaður af meira en 350 starfsmönnum Stanford-háskóla til skólastjórnenda, slær þó líklega flest met. Listinn tekur á öllu frá kvöð um sérstakar hárgreiðslustofur og veitingastaði fólks af afrískum uppruna að umfangsmikilli endurmenntun starfsfólks og refsingum við hugsanaglæpum. Auk 25 milljóna dollara framlags. Stanford-háskóli er sem stendur í miklum fjárhagsþrengingum og hafði sett á ráðningarbann þannig að erfitt er að segja til um hvernig þessum kröfum verður mætt.

Fjölmiðlar fara auðvitað ekki varhluta af menningarbyltingunni og sumir þeirra eru virkir þátttakendur í baráttunni. Ákveðnar sjónvarpsstöðvar gerðu kröfu um að fréttaskýrendur bæru nælu til að sýna stuðning sinn við BLM. Bandaríska blaðið New York Times sem eitt sinn studdist við kjörorðið „óttalaust og hlutlaust“ (e. without fear or favour) er fyrir löngu orðið áróðursblað og varð loks að grínútgáfu þess sama áróðurs. Þar missti ritstjóri aðsendra greina vinnuna eftir að hann birti grein frá öldungadeildarþingmanni sem taldi rétt að hafa herinn í viðbragðsstöðu vegna óeirða í landinu. Það var ekki síst að kröfu samstarfsfólks sem fór hamförum á Twitter sem maðurinn fór frá. Skömmu síðar sagði kona á sömu deild upp störfum. Hún var þekktur blaðamaður og birti magnaða grein þar sem hún lýsti einelti af hálfu samstarfsmanna og því hvernig NYT væri nú ritstýrt af Twitter. Hún bætti því við að „það ætti ekki að þurfa hugrekki til að mæta í vinnuna á bandarísku dagblaði sem miðjumaður“.

Nú skal tryggt að sjónarmið sem ganga gegn nýjustu uppfærslunni af reglum rétttrúnaðarins heyrist ekki. Fólk sem gæti viljað taka þátt í gagnrýninni umræðu fær ekki að halda erindi, greinar þess mega ekki birtast og samfélagsmiðlar færa sig jafnt og þétt upp á skaftið við ritskoðun.

Eyðing sögunnar

Til viðbótar við ritskoðun samtímaumræðu felst mikilvægur þáttur menningarbyltingarinnar í því að endurskrifa söguna. Sígildar kvikmyndir og gamanþættir hafa verið afmáð hjá efnisveitum. Meðal fórnarlambanna var þáttur um Golden girls þar sem aðalleikkonurnar höfðu farið í leirbað og þóttu þar með hafa svert sig í framan.

Nöfnum gatna og bygginga er breytt að kröfu æsingamanna. Jafnvel William Gladstone, hinn umbótasinnaði og frjálslyndi forsætisráðherra Breta á 19. öld, varð fórnarlamb slíkra hreinsana vegna einhvers sem faðir hans var sakaður um.

Svo eru það stytturnar og minnismerkin. Rétt eins og talíbanar í Afganistan og ISIS-liðar í Sýrlandi og Írak leggja herskarar rétttrúnaðarfólks áherslu á að eyðileggja minnismerki frá liðinni tíð sem eru þeim ekki að skapi. Eins og alltaf þegar öfgahreyfing kemst á skrið færa þær sig upp á skaftið þegar hreinsanirnar hefjast. Ráðist var á minnismerki um Breta sem féllu í heimsstyrjöldunum. Styttan af Winston Churchill var ekki óhult og næst var ráðist á styttur af Gandhi og sjálfum Abraham Lincoln, manninum sem háði borgarastyrjöld til að afnema þrælahald. Í Bandaríkjunum var sótt að styttu Lincolns sem fjármögnuð var með samskotum fyrrverandi þræla. Þegar einn afkomenda þeirra sem reistu styttuna bað fólk að sýna forfeðrum sínum virðingu var hann hrópaður niður af hvítum aðgerðasinnum.

Niðurstaðan

Menningarbyltingin snýst ekki bara um kynþáttamál en með henni er endurvakin einhver galnasta hugmynd sem komið hefur upp í mannkynssögunni. Hugmyndin um að flokka beri fólk eftir litbrigðum húðarinnar. Þegar langt var komið með að útrýma þeirri bábilju er hún nú endurvakin og fólk aftur skilgreint út frá húðlit.

Nú þarf að standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar. Þau gildi sem skilað hafa samfélögum meiri árangri en nokkuð annað í mannkynssögunni. Þar ber hæst hugsjónina um að allir skuli teljast jafnréttháir óháð líkamlegum einkennum. Hugsjónina sem kirkjumaðurinn og mannréttindaleiðtoginn Martin Luther King orðaði í frægri ræðu. Þar sagðist hann eiga sér draum um að dag einn yrðu börn hans ekki dæmd út frá húðlit sínum heldur mannkostum. Sá boðskapur hefur náð stórkostlegum árangri. Byggjum áfram á því besta sem síðustu árþúsund hafa skilað okkur en köstum því ekki á glæ til að þóknast þversagnakenndum og gölnum tíðaranda sumarsins 2020.

 

Greinin birtist fyrst (styttri útgáfa) í Morgunblaðinu 25.7.‘20