Stóra myndin

Það hefur legið fyrir frá því áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum að konan mín ætti talsvert af peningum. Sumum finnst það eitt og sér vera ákaflega neikvætt. Við því er ekki mikið að gera því ég ætla hvorki að skilja við konuna mína né fara fram á að hún afsali sér fjölskylduarfleifð sinni. Hún hefur hins vegar aldrei hagnast á þátttöku minni í stjórnmálum, þvert á móti, þá hefur pólitísk þátttaka mín og stefnan sem ég hef barist fyrir orðið til þess að rýra eignir hennar. Hún hefur samt aldrei kvartað yfir því vegna þess að hún vill að ég berjist fyrir stefnu sem tryggir heildarhagsmuni samfélagsins og til þess þurfa þeir sem betur standa að vera tilbúnir til að leggja meira af mörkum en hinir. Það hefur aldrei staðið á henni að gera það.

Frá því að hún eignaðist umtalsverða peninga hefur hún verið hörð á því að greiða af þeim skatta til íslensks samfélags fremur en að nýta kosti sem buðust til að spara á því að skattleggja þá erlendis. Hún hefur því hvorki nýtt sér skattaskjól né er hægt að tala um að félag hennar sé aflandsfyrirtæki í þeim skilningi að það greiði skatta erlendis frekar en hér á landi.

Við fall bankanna voru allir sem áttu inni hjá þeim peninga kröfuhafar sama á hvaða formi þær eignir voru, hvort sem það voru innistæður, eign í skuldabréfum í gegnum peningamarkaðssjóði eða í skuldabréfum beint. Allt var þetta jafngilt fyrir lögum, einfaldlega peningar sem bankarnir tóku að láni hjá viðskiptavinum á mismunandi formi.

Neyðarlögin endurröðuðu þessum kröfum. Þeir sem áttu sínar kröfur í formi innistæðna á Íslandi fengu kröfur sínar bættar að fullu. Svo voru gerðar ráðstafanir til að þeir sem áttu kröfu í gegnum peningamarkaðssjóði fengju sitt bætt að mestu. Þeir sem áttu kröfur á formi skuldabréfa voru hins vegar látnir borga fyrir hina. Þetta var róttæk breyting sem ég hef þó alltaf stutt og talið mikilvæga þótt með því hafi mjög mikið af eignum eiginkonu minnar og annarra sem áttu sína peninga hjá bönkunum í formi skuldabréfa verið færðir yfir til hinna sem áttu peninga hjá bönkunum á öðru formi.

En þar lauk sögunni ekki. Ég tók upp á því að berjast fyrir því að það yrði gengið enn lengra. Ég barðist fyrir því að enn meira yrði tekið af þeim sem, eins og konan mín, höfðu átt eignir á formi skuldabréfa um leið og vogunarsjóðirnir yrðu látnir leggja sitt af mörkum. Ég barðist fyrir því að konan mín sem hafði átt eignir í banka, sem í raun höfðu verið eins og hverjar aðrar innistæður yrði látin gefa eftir enn meira af eignum sínum svo að hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili, sem ekkert hafði verið gert fyrir, og verja lífskjör í landinu.

Ég sá ekki ástæðu til að grobba mig af þessu á sínum tíma enda er ekki víst að slíkt hefði hjálpað til við að ná þeirri niðurstöðu sem náðist. En nú er þetta semsagt komið í ljós og meira til.

  1. Það hefur komið í ljós að konan mín, sem allir máttu vita að ætti mikla peninga eftir reglubundana fjölmiðlaumfjöllun í mörg ár, hefur greitt af þeim fullan skatt til íslensks samfélags fremur en að nýta tækifæri til að greiða skatta erlendis. Jú, bankinn stofnaði fyrir hana félag og skráði það eins og títt var á sínum tíma í landi sem gerir út á að halda utan um fyrirtæki fyrir fólk. Hins vegar hefur hún aldrei átt peninga í skattaskjóli né verið með aflandsfélag til að greiða skatta erlendis því félagið og eignir þess eru skattaðar á Íslandi.
  2.  Það hefur líka komið í ljós að stefnan sem ég setti á dagskrá og var sögð óraunhæf eignaupptaka hefur orðið til þess að konan mín hefur þurft að taka á sig enn meira tap (umfram kröfuhafa sem áttu innistæður osfrv).
  3. Loks hefur komið í ljós að konan mín hefur forðast að skapa árekstra við stjórnmálastörf mín með því að nýta meðvitað ekki möguleika á að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta hér í verðtryggðum hávaxtakrónum eða íslenskum fyrirtækjum. Hún hefði getað hagnast á því en kaus að nýta sér ekki þá möguleika.

Það þykir frétt að konan mín sé kröfuhafi af þeirri gerð sem hefur verið látinn taka á sig tap á meðan enginn spyr um alla hina kröfuhafana, stjórnmálamenn og maka þeirra sem fengu allar sínar kröfur greiddar. Því er meira að segja ruglað saman viljandi að hafa átt inni peninga hjá bönkunum fyrir hrun (rétt eins og innistæðueigendur) og tapað á því og svo vogunarsjóðunum sem keyptu kröfur eftir fall bankanna til að græða á þeim.

 

Gamlir kunningjar út baráttunni um hagsmuni þjóðarinnar

Þeir sem helst vilja líta framhjá þessum grundvallarstaðreyndum eru einmitt þeir sömu og veittu mér mesta mótspyrnu í baráttunni fyrir að vogunarsjóðirnir yrðu látnir leggja sitt af mörkum og með því tap annarra kröfuhafa aukið um leið. Sama fólkið og taldi hugmyndir mínar óraunhæfar gera  því nú skóna að ég hafi haft rangt við.

Það er ekkert launungarmál að mér hefur þótt undarlegt að fylgjast með því með hvaða hætti RÚV hefur nálgast þetta mál. Umfjöllunin öll hefur haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás fremur en að greina frá staðreyndum. Byrjað var á að kalla til, sem álitsgjafa, menn sem hafa verið vægast sagt neikvæðir í minn garð og ríkisstjórnarinnar á síðustu misserum án þess að gera nokkra grein fyrir tengslum þeirra. Þannig var siðfræðingurinn sem sagði að Íslendingum bæri siðferðisleg skylda til að greiða Icesave fenginn til að leggja mat á málið strax í upphafi og aðrir úr sömu átt fylgdu svo í röðum. Næst var farið að hringja reglulega í þingmenn stjórnarliðsins en svör þeirra aldrei birt þegar þau töldust jákvæð í minn garð eða ríkisstjórnarinnar. Aðeins teknar út setningar sem hægt var að setja neikvætt yfirbragð á og þær settar í nýtt samhengi.

Á sama tíma bárust mér fregnir af því að þeir sem hafa verið að undirbúa Kastljóssþátt hringi vítt og breytt í fólk til að reyna að fá það til að rengja eitthvað af því sem ég hef sagt um þessi mál og taki því ákaflega illa þegar menn staðfesti frásögn mína. Og nú liggur svo á að þátturinn mun ryðja úr vegi öðrum þætti sem gerður hefur verið að pólitískum áróðursþætti í seinni tíð, Stundinni okkar.

Ég ætla að láta þetta nægja af umræðu um atburðarásina hjá RÚV að undanförnu að öðru leyti en því að ekki verður hjá því komist að nefna nýjasta atvikið þar sem keyrði gjörsamlega um þverbak. Þá flutti RÚV einstaklega ósmekklegan pistil Sigrúnar Davíðsdóttur sem birtur var sem frétt. Pistillinn gekk allur út á að gefa í skyn að ekki hefðu verið greiddir skattar af eignum eiginkonu minnar. Það byggðist fyrst og fremst á tilvísun í grein eftir Indriða H. Þorláksson frá árinu 2009. Í þeirri grein rakti hann að það hafi verið alsiða hjá bönkunum að stofna aflandsfélög fyrir vel stæða viðskiptavini sína á árunum fyrir hrun. Bent var á að slík félög hafi verið hægt að nota til að fela fjármagn og komast hjá því að greiða af því skatt og verða „sjálftökumenn“: Út frá þessu gaf fréttamaðurinn (eða pistlahöfundurinn) svo í skyn að fyrst slíkt hafi verið hægt þá megi gera ráð fyrir því að það hafi verið gert (enda þótt búið sé að segja fréttir af eignum og skattgreiðslum eiginkonu minnar í fjölmiðlum alveg frá upphafi).

Á sama tíma skrifaði sami pistlahöfundur pistil um fjármál eiginkonu minnar á heimasíðu sína á ensku til að dreifa óhróðrinum sem víðast. Ég hef reyndar orðið var við að einhverjir hér heima hafi lagt sig fram um að dreifa sögum til erlendra fjölmiðla þar sem farið er með rangt mál í grundvallaratriðum. Dreifing óhróðursins virðist því vera orðinn grundvöllur að nýrri útrás.

Uppgjör slitabúanna og losun hafta snýst um hagsmuni almennings á Íslandi. Það er sérlega merkilegt að þeir sem voru hörðustu gagnrýnendur mínir varðandi mikilvægi þess að kröfuhafar gæfu eftir af eignum sínum og baráttunni gegn því að Icesave-kröfunum yrði skellt á íslenskan almenning, telja sig best til þess fallna að gagnrýna mig nú þegar í ljós er komið að í þeirri baráttu var ég um leið að berjast fyrir því að fórna tugum milljóna af eignum eiginkonu minnar vegna þess að ég taldi það mikilvægt fyrir samfélagið.

Árum saman, allt fram að hruni sérhæfði Sigrún Davíðsdóttir sig í að skrifa lofgreinar um útrás íslensku bankanna og annarra fyrirtækja. Hún var meira að segja, að eigin frumkvæði, fengin til að skrifa skýrslur um snilldina til notkunar í áróðursskyni. Fljótlega eftir hrun varð hún að mati margra okkar í InDefence einn ötulasti talsmaður breskra og hollenskra stjórnvalda í Icesavedeilunni. Næst sérhæfði hún sig í að verja vogunarsjóðina og gera mig og aðra sem vildum að þeir legðu peninga til íslensks samfélags tortryggilega. Í greinargerð sem skrifuð var fyrir fulltrúa vogunarsjóðanna var bent á að gott aðgengi væri að Sigrúnu. Við vorum svo upplýst um að fulltrúar kröfuhafarnir og ráðgjafar þeirra hafi sagt að það þyrfti ekki einu sinni að greiða henni fyrir þessa þjónustu, svo einörð væri hún í sinni afstöðu.

 

Svo spyrja menn

Semsagt. Konan mín sem hefur alltaf viljað leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags, konan sem tapaði á falli bankanna, taldi sjálfsagt að tapa meiru til að tryggja eignir annarra kröfuhafa, þ.e. sparifjáreigenda. Hún tapaði líka á þeirri leið sem ég boðaði til að koma til móts við skuldsett heimili og verja efnahagsstöðugleika og var öflugasti hvatamaður minn í þeim efnum og tapaði svo loks á því að vilja ekki skapa árekstra með því að kaupa krónur á afslætti og fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum eða verðtryggðum íslenskum hávaxtakrónum.

Laun hennar eru þau að RÚV með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar, eftir skrif um bankaútrásina, Icesave og vogunarsjóðina, birtir frétt með mynd af henni undir fyrirsögninni: „Wintris-málið: „Íslands sjálftökumenn“

Svo er ég spurður af hverju ég sé ekki búinn að fara í viðtal á RÚV.