Nú er aftur hafin umræða um skipulagsbreytingar við Ingólfstorg þar sem meðal annars er gert ráð fyrir niðurrifi skemmtistaðarins NASA og flutningi húsa við Vallarstræti inn á torgið.
Þessi áform hafa verið gagnrýnd töluvert. Það er afar ánægjulegt að fólk skuli láta til sín taka og mótmæla skipulagsbreytingum sem því mislíkar í miðbænum. Vonandi verður þessi raunin áfram en á Íslandi hefur oft ríkt allt of mikil værukærð hvað varðar húsvernd og skipulag í þéttbýli. Í því máli sem hér um ræðir er hins vegar fólgin nokkur kaldhæðni því áformin sem nú er mótmælt eru tilraun til að vinda að nokkru leyti ofanaf afleitu skipulagi sem gerði ráð fyrir miklu meira niðurrifi og skaðlegum stórframkvæmdum. Í þeim efnum má þó gera betur. Til er lausn sem ekki aðeins leysir öll þau vandamál sem fylgja núverandi áformum heldur bætir einnig að miklu leyti úr því skipulagsklúðri sem fyrir er. Sú lausn er hér lögð fram til umræðu.
Núverandi ástand
Vel má halda því fram að sögulegur miðpunktur borgarinnar hafi verið gatnamót Aðalstrætis og Austurstrætis. Þau gatnamót eru ekki til lengur. Þar er nú Ingólfstorg. Torgið er ekki sérlega aðlaðandi „miðpunktur” og minnir reyndar talsvert á opin rými í minni borgum fyrrum austantjaldslanda (áður en þær hófu fegrun og endurbyggingu). Torgið sjálft er reyndar ágætlega hannað í stíl tíunda áratugarins en það varð til á árunum 1993-´94. Þar höfðu þá áratugum saman verið ófrágengin bílastæði á auðum lóðum sem í daglegu tali voru kallaðar Hallærisplanið og Steindórsplan. Umhverfi torgsins er hins vegar ekki til þess fallið að gera það aðlaðandi og veldur því raunar að torgið virkar ekki sem slíkt. Þar var enda alls ekki gert fyrir torgi heldur gatnamótum. Uppbygging svæðisins var því miðuð við það og umgjörð torgsins ber þess glöggt merki.
Flest húsin umhverfis Ingólfstorg eru því ekki hönnuð til að standa við torg. Morgunblaðshöllin er helsta undantekningin en um tíma voru uppi áform um að gera Austurstræti að breiðgötu og meðfram henni, framan við Morgunblaðshöllina, stórt opið torg. Þar sem áformin sem sú bygging var hluti af náðu ekki lengra (sem betur fer) á stórhýsið engan veginn heima í umhverfi sínu. Við bættist að hið einstaka hús, Fjalakötturinn, var rifið og stórhýsum bætt sitt hvoru megin við Morgunblaðshöllina.
Áður höfðu allmörg hús staðið á reitunum þar sem Ingólfstorg er nú, þeirra á meðal hið sögufræga Hótel Ísland við Austurstræti 2. Hótelið brann árið 1944 og var það mikið menningarlegt og sögulegt tjón fyrir Reykjavík.
Verstur er þó hinn risastóri brunagafl fjölbýlishússins sem byggt var ofan á Miðbæjarmarkaðinn (Aðalstræti 9). Sú bygging er allt of stór fyrir umhverfið en reyndar í fullu samræmi við það deiliskipulag sem enn er í gildi fyrir stóran hluta miðbæjarins, þar með talið skipulagið við sunnanvert Ingólfstorg, skipulagið sem nú er verið að reyna að vinda ofanaf.
Gallarnir við núverandi áform
1. Niðurrif Nasa
Skemmtistaðurinn Nasa er í einkar fallegu húsi sem reist var við Austurvöll árið 1878 og sal sem byggður var aftanvið húsið árið 1946. Framhúsið frá 1878 er friðað en ráðgert er að rífa salinn og byggja þar hótel. Þótt viðbyggingin sé ekki merkileg að utan væri eftirsjá af salnum.
2. Flutningur húsanna
Deiliskipulag gerði ráð fyrir að rífa mætti gömlu húsin við Vallarstræti. Það hefði orðið mikið tjón því húsin eru með elstu húsum borgarinnar og saga þeirra merkileg. Áform um að færa húsin inn á torgið eru tilraun til að vinda ofan af gamla skipulaginu en koma samt fyrir byggingarmagni sem heimilað hafði verið að mati borgarinnar. (Slík útdeiling og sala byggingarheimilda er meginástæðan fyrir skipulagshamförum miðbæjarins.) Þótt vissulega sé betra að færa húsin en að rífa þau brýtur flutningur í bága við þá reglu að vernda beri hús á upprunalegum stað. Fyrir því eru mikilvæg og vel þekkt rök sem ekki er svigrúm til að rekja hér.
3. Nýbygging
Gert er ráð fyrir að þegar húsin hafa verið færð inn á torgið verði reist nýbygging á bakvið þau. Tillögur að nýbyggingum, sem lagðar hafa verið fram, eru vissulega betri en brunagaflinn en þær væru hins vegar enn ein viðbótin við sundurlausa umgjörð um torgið og styrkja ekki nógu vel gömlu bæjarmyndina sem gerir miðbæ Reykjavíkur aðlaðandi og sérstæðan.
Lausnin
Leysa má öll þau vandamál sem fylgja nýju skipulagshugmyndunum og bæta núverandi ástand með því að líta til sögunnar. Lausnin felst í því að endurbyggja Hótel Ísland á upprunalegum stað.
Hótel Ísland var afar merkilegt hús í sögu Reykjavíkur og heildarmynd gamla bæjarins. Endurbygging þess væri lítið mál miðað við þá miklu endurbyggingu horfinna húsa sam fram hefur farið á undanförnum árum í evrópskum borgum, ekki hvað síst í Mið- og Austur Evrópu, til endurheimta aðdráttarafl (og tekjusköpun) borganna og styrkja ímynd þeirra. Svo vill til að mörg þeirra húsa sem endurbyggð hafa verið í Evrópu brunnu einmitt í loftárásunum miklu árið 1944, sama ár og Hótel Ísland brann.
Með því að endurreisa Hótel Ísland mætti leysa ótrúlega mörg af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Þótt gamla hótelið hafi verið timburhús mætti endurbyggja það úr steinsteypu en klæða að utan þ.a. það liti út eins og upprunalega byggingin. Hótelið væri svo hægt að tengja við Landssímahúsið með nýju húsi á milli Vallarstrætishúsanna og göngubrú yfir Vallarstræti.
Með endurbyggingu hótelsins og aðlögun torgsins gæti Ingólfstorg orðið heildstætt, sérstætt og fallegt reykvískt torg með mikið aðdráttarafl fyrir íbúa og ferðamenn í stað þess að vera eyða á milli ósamstæðra húsa, umlukin götum og bílastæðum. Það yrði þá að sterkri heild og miðpunkti endurnýjunar og fegrunar Reykjavíkur.
Núverandi torg myndi með þessu móti minnka um þriðjung (ívið meira en gert er ráð fyrir með flutningi Vallarstrætishúsanna) en það myndi hins vegar gera torgið mun meira aðlaðandi. Jafnframt mætti stækka torgið í aðrar áttir og gera það jafnvel stærra en það er nú.
Kostir
1. Brunagaflinn hverfur sjónum og Morgunblaðshöllin og aðliggjandi hús yfirgnæfa ekki lengur torgið. Þess í stað yrði það umlukið fallegum byggingum sem mynda heildstæða umgjörð sem væri bæði sérstök og aðlaðandi. Hótel Ísland að sunnan. Að austan hið gamla Austurstræti 3 og Veltusund 1 ,,hús Einars Ben.” sem færa mætti í upprunalegt horf, en það var mjög sérstætt og fallegt hús í svo kölluðum drekastíl (sjá mynd). Það væri þá aftur í stíl við Fálkahúsið sem stendur við norðurendann. Vestanmegin er svo Geysishúsið og þar opnast torgið inn að Vesturgötu og Grófinni þar sem nú er ein heildstæðasta gamla húsaþyrping borgarinnar.
2. Frá Ingólfstorgi að Grófinni og inn í Grjótaþorpið væri þá orðin til sterkur kjarni gamallar byggðar sem hefði mikið aðdráttarafl. Skammt frá eru einnig mörg hús sem hafa verið endurbyggð og endurbætt á undanförnum árum. Þannig yrði torgið raunverulegur miðpunktur í gamla miðbænum og til þess fallið að ýta undir fegrun hans.
3. Torgið fengi þá hlutverk sem er því mun eðlislægara en núverandi ástand. Það yrði notalegt afdrep í miðbænum þar sem gott væri að sitja á bekk við gosbrunn innanum tré og gamaldags ljósastaura eða borða á einu af veitingahúsunum sem umlykja torgið. Slík torg eru algeng í evrópskum borgum, m.a. í París og Kaupmannahöfn, samanber t.d. Nikulásartorg (Nikolaj Plads) og Grábræðratorg (Gråbrødretorv), tveir af mest aðlaðandi stöðum þeirrar borgar.
4. Með því að lyfta torginu og færa það þannig að húsunum sem umlykja það mundu skapast aðstæður fyrir blómlega starfsemi á jarðhæð húsanna sem enn ýtti undir líf við torgið.
5. Álitamál um heimilað byggingarmagn væru leyst. NASA-salurinn gæti staðið áfram og meira að segja yrði hægt að nýta hann í tengslum við rekstur nýja hótelsins. Gamla deiliskipulagið og niðurrifsáform þess væru þá endanlega úr sögunni en um leið væri stuðlað að fegrun svæðisins.
6. Vallarstræti, ein elsta gata borgarinnar, sem nú er svo gott sem horfin (og hyrfi endanlega ef Vallarstrætishúsin yrðu flutt), yrði aftur til sem falleg gönguleið milli Austurvallar og Grjótaþorpsins.
7. Önnur gömul gata, Veltusund yrði líka til aftur. Með því að gera Veltusund að steinlagðri göngugötu með gamaldags ljósastaurum og fallegum timburhúsum til beggja hliða, og við enda götunnar, yrði gatan sérlega rómantísk og gott myndefni fyrir ferðamenn (sjá mynd).
8. Vallarstræti 4 (Hótel Vík) mundi bæði endurheimta upprunalegt hlutverk sitt og stöðu við enda Veltusunds. Skemmtilegt væri ef framhlið hússins yrði aftur færð í sitt gamla sérstæða horf, en húsið var hannað til að standa við enda götunnar (sjá mynd). Vel færi á því að gamaldags miðbæjarbakaríi yrði aftur komið fyrir þar sem Björnsbakarí var rekið í nærri 100 ár.
9. ,,Bazar” Thorvaldsensfélagsins væri í kjörstöðu á hinu fallega horni Veltusunds, Austurstrætis og Ingólfstorgs (varla væri til betri staður til að reka ferðamannaverslun). Það sama ætti við um söluturninn Texas og fleiri fyrirtæki við hið snotra Veltusund.
10. Elsta gata Reykjavíkur, Aðalstræti, yrði aftur að raunverulegri húsagötu.
11. Aðalstræti 7 yrði fært í upprunalegt horf og samhengi. Framhlið hússins yrði aftur að eiginlegri framhlið þess og mundi sóma sér vel í götumyndinni. Húsið yrði þá aftur verðugur nágranni hins nýuppgerða Aðalstrætis 10.
12. Elsta hús miðbæjarins, Aðalstræti 10, yrði ekki lengur hornreka heldur miðpunktur í sterkri götumynd fjölfarinnar ferðamannagötu.
Endurbygging Hótels Íslands leysir vanda allra og yrði mjög hagkvæm fyrir borgina og til þess fallin að styrkja heildarmynd miðbæjar Reykjavíkur og gera hann að stað sem laðar að sér fyrirtæki, ferðamenn og annað fólk á öllum árstímum