Nýja fjármálakerfið

Miðflokkurinn hefur nú kynnt áform um endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins. Áformin eru framhald aðgerða sem ráðist var í á árunum 2013-2016. Áformum sem margir töldu fyrir fram óframkvæmanleg en gengu upp og skiluðu hraðasta efnahagslega viðsnúningi nokkurs ríkis í seinni tíð. Um leið endurheimtu stjórnvöld það forræði á bankakerfinu sem þau misstu árin á undan.

Það eru því kjöraðstæður nú til  að fylgja árangrinum eftir og ljúka endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins, þannig að það þjóni samfélaginu betur, og tryggja lægri vexti til framtíðar.

Vegna árangursins fram að þessu hefur myndast einstakt tækifæri.

Aðgerðirnar sem við boðum nú eru stórar en það er vegna þess að tækifærin eru stór. Þau tækifæri koma ekki aftur ef við nýtum þau ekki núna. Fáum við til þess umboð munum við standa við stóru fyrirheitin, rétt eins og eftir kosningarnar 2013.

 

ENDURSKIPULAGNING FJÁRMÁLAKERFISINS

(Í stuttu máli)

 

I.  Óheimilt verði að vísitölutengja neytendalán (bann við verðtryggingu)

Slíkt bann getur ekki staðið eitt og sér. Það kallar á víðtækar aðgerðir til að tryggja að neytendum bjóðist viðráðanlegir óverðtryggðir vextir.

 

II.  Yfirtaka Arion banka

Ríkisstjórn áranna 2013-2016 endurheimti bankana sem afhentir höfðu verið kröfuhöfum (vogunarsjóðunum). Íslandsbanki var afhentur ríkinu í heilu lagi en í tilviki Arion banka var samþykkt ákvæði um að ríkissjóður fengi megnið af því sem kæmi fyrir bankann ef hann yrði seldur. -Ef ekki væri búið að selja hann fyrir 2018 gæti ríkið leyst hann til sín.

Undarleg U-beygja fyrr á þessu ári varð svo til þess að stjórnvöld heimiluðu vogunarsjóðunum að selja sjálfum sér bankann á afslætti (og fögnuðu því meira að segja). Með því fær ríkið ekki eðlilega greiðslu fyrir bankann. Það er því tilefni til að virkja þann neyðarhemil sem við settum inn á árinu 2015 og ríkið nýti forkaupsrétt sinn að bankanum.

…Munið að ríkið tekur Arion banka upp í skuld og þarf því ekki að greiða mikið fyrir bankann því það mun sjálft fá megnið af því sem greitt verður fyrir hann.

 

III.  Minnka bankana

Þegar ríkið hefur endurheimt stjórn á stóru bönkunum þremur verða þeir minnkaðir með því að greiða út úr þeim „umfram-eigið-fé“. Hægt er að stilla þær greiðslur af miðað við hversu miklu fjármagni ríkið treystir sér til að verja skynsamlega í aðrar fjárfestingar en að binda peningana í bönkunum. Það fjármagn sem ríkið getur með góðu móti tekið úr bönkunum í fyrirsjáanlegri framtíð nemur tugum og hundruðum milljarða.

Á meðan of mikið eigið fé er geymt í bönkunum kallar það á of mikla ávöxtun, þ.e. bankarnir telja sig þurfa að hagnast um tugi milljarða árlega til að ávaxta hið mikla eigið fé. Minna eigið fé þýðir að bankarnir þurfa ekki að skila eins miklum hagnaði og í staðin nýtist fjármagnið í aðrar mikilvægar fjárfestingar eins og heilbrigðisþjónustu og samgöngubætur.

Nú þegar hafa nokkrir stjórnmálaflokkar tekið upp þessa stefnu. Það er jákvætt, svo framarlega sem farið verður skynsamlega með fjármagnið. Þó hefði að vísu verið gott að fá stuðning þessara flokka á þeim árum þegar því var haldið fram að ekki væri hægt að ná þessu fjármagni. Einnig er eftirgjöf Arion banka sérkennileg í þessu ljósi en vonandi munu allir flokkar nú geta sameinast um að endurheimta beri bankann og nýta fjármagnið á þann hátt sem Miðjumenn hafa talað fyrir lengi.

 

Eftir endurskipulagningu bankanna tekur næsti hluti áætlunarinnar við,

þar með talið aðgerðir til að lækka vexti:

 

IV.  Landsbankinn áfram í ríkiseigu og stofnar banka framtíðarinnar

Eftir endurskipulagningu bankanna verður Landsbankinn áfram í ríkiseigu. Sú eigendastefna sem gilt hefur fyrir bankann er í raun „seljendastefna“ því hún miðar að því að bankinn verði seldur. Í staðinn verður samþykkt raunveruleg eigendastefna þar sem hlutverk bankans í samfélaginu verður skilgreint.

Landsbankinn mun svo stofna dótturfélag, nýjan banka framtíðarinnar, netbanka með lágmarks yfirbyggingu og rekstrarkostnað. Bankinn mun hafa tvö megin hlutverk:

  1. Að ýta undir samkeppni á fjármálamarkaði með lækkun vaxta.
  2. Að búa íslenska fjármálakerfið undir óhjákvæmilegar breytingar vegna tækniþróunar.

Bankinn verður ekki „fjárfestingabanki“. Hann mun lágmarka áhættu og fyrst og fremst veita smærri lán, þ.e. lán til húsnæðiskaupa og smærri fyrirtækja.

 

V.  Arion banki afhentur landsmönnum

Þriðjungur hlutabréfa í bankanum verður afhentur öllum Íslendingum til jafns. Óheimilt verður að selja bréfin fyrr en að minnsta kosti þremur árum liðnum.

Þriðjungshlutur verður seldur í opnu hlutafjárútboði. Auglýst verður eftir ráðgjafafyrirtækjum til að annast söluna í alþjóðlegu útboði.

Ríkið heldur ráðandi þriðjungshlut í bankanum þar til reynsla er komin á fyrri söluna og markaður hefur myndast með hlutabréf í bankanum.

 

VI.  Íslandsbanki seldur erlendum viðskiptabanka

Strax mun hefjast vinna við að selja Íslandsbanka erlendum viðskiptabanka. Möguleikarnir á að fá erlend fyrirtæki inn á íslenskan markað hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Mestu máli skiptir þó skýr framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og sú staðreynd að stjórnvöld munu beita sér fyrir sölunni á virkan hátt ásamt þar til bærum sérfræðingum á sviði fjármálastarfsemi. Þannig verður hægt að fá erlendan samkeppni inn á íslenskan bankamarkað.

Stjórnvöld og Fjármálaeftirlitið munu setja skilyrði fyrir sölunni varðandi starfsemina hér á Íslandi.

 

VII.  Ný lög um Seðlabankann

  1. Bankinn fær það hlutverk að stuðla að aukinni samkeppni á bankamarkaði. Slíkt er þekkt víða, til dæmis með aðgerðum Seðlabanka Englands til að ýta undir samkeppni og lækka vexti á fasteignalánamarkaði.
  2. Peningastefna bankans verður endurskoðuð:

Sú viðmiðun bankans að huga einungis að vísitölu verðlags er of þröng. Of mikill vaxtamunur við útlönd hefur til að mynda enn á ný leitt til hættulegs innflæðis fjármagns í vaxtamunarviðskiptum.

Án verðtryggingar munu hagstjórnartæki bankans auk þess hafa meiri áhrif.

 

VIII.  Húsnæðismál

Lausnir í húsnæðismálum eru aðkallandi á mörgum sviðum. Lægri vextir munu auðvelda árangur á þeim öllum. Betra fjármálakerfi mun gjörbreyta möguleikum fólks á að eignast húsnæði. Samhliða því leggjum við til nokkrar sértækar lausnir.

  • Áfram verði hægt að nýta séreignasparnað til að lækka húsnæðislán
  • Byggingareglugerð verði lagfærð þannig að hagkvæmara verði að byggja húsnæði
  • Betri dreifing framkvæmda og aukin krafa um frumkvæði sveitarfélaga (sjá verkefnið ÍSLAND ALLT)
  • Nálgun borgaryfirvalda á þéttingu byggðar verði endurskoðuð af hálfu ríkisins
  • Fjölbreyttara skipulag, m.a. með nýjum miðbæjum
  • Heimiluð verði samtök fyrirtækja um stór verkefni svo menn geti unnið saman að sameiginlegri framtíðarsýn
  • Lög um byggingarsamvinnufélög
  • Aðkoma atvinnurekenda að byggingu húsnæðis fyrir starfsfólk verði auðvelduð þar sem skortir starfsfólk og húsnæði
  • Félagslegt húsnæði verði hannað með það að markmiði að hámarka langtímaverðmæti eignanna

 

IX.  Íbúðalánasjóður

Hlutverk Íbúðalánasjóðs verður þróað áfram samkvæmt núverandi áformum um að hann gegni fyrst og fremst félagslegu hlutverki. Samhliða afnámi verðtryggingar mun hann færa sig yfir í óverðtryggð lán.

 

X.  Lífeyrissjóðirnir

Lífeyrissjóðirnir munu þurfa að laga sig að nýju lágvaxtaumhverfi á Íslandi. Sú staðreynd mun hins vegar reynast gæfa þeirra, og íslensks efnahagslífs, til lengri tíma litið.

Íslensku lífeyrissjóðirnir munu ekki geta reitt sig á að heimili landsins og skattgreiðendur (sem greiðendur ríkisskulda) tryggi þeim yfir 3,5% verðtryggða ávöxtun. Slíkt er enda ekki sjálfbært í hagkerfi sem hefur skilað að jafnaði 2% hagvexti undanfarna áratugi. Það felur ekki í sér vöxt heldur millifærslu.

Sjóðirnir munu þurfa að fjárfesta í auknum mæli í nýsköpun, í því að búa til ný störf og ný verðmæti til að standa undir hagvexti og framtíðarlífeyri.

Þeir munu líka þurfa að fjárfesta miklum mun meira erlendis en þeir gera nú.

Samanburður við norska olíusjóðinn setur þetta í samhengi. Árið 2014 var námu eignir olíusjóðsins 166% af landsframleiðslu Noregs. Á sama tíma námu eignir íslensku lífeyrissjóðanna 150% af landsframleiðslu Íslands.

Olíusjóðurinn norski er stærsti sjóður heims (stærri en gjaldeyrisvaraforði Kína og sjóður seðlabanka Sádí-Arabíu). Hann á 1,3% af öllum skráðum hlutabréfum veraldar og 2,5% af skráðum hlutabréfum í Evrópu, auk gríðarlega mikilla annarra eigna. Öllum má vera ljóst hversu fráleitt það væri að olíusjóðurinn seldi eignir sínar erlendis og ætlaðist til þess að norsk heimili og skattgreiðendur stæðu undir ávöxtun sjóðsins. Svo ekki sé minnst á þau völd sem sjóðurinn hefði yfir norsku atvinnulífi og samfélaginu öllu.

Íslensku lífeyrissjóðirnir munu þurfa að ávaxta megnið af eignum sínum erlendis, auk nýsköpunar á Íslandi. Þannig munu þeir auka stöðugleika íslensks efnahagslífs, í stað þess að valda sveiflum með  bólumyndun á hlutabréfamarkaði.

Það sem skiptir ekki síður máli er að áhættudreifingin sem felst í því að stór hluti eigna Íslendinga verði geymdur erlendis, í öðrum myntum, mun einnig auka stöðugleika krónunnar og þar með lækka vexti. (Meira um lífeyrissjóðina hér)

 

Niðurstaðan

Þannig haldast öll þessi atriði í hendur og mynda trúverðuga áætlun sem tekur nokkur ár í framkvæmd en byrjar að hafa jákvæð áhrif og ýta undir vaxtalækkun um leið og henni er hrint í framkvæmd.

Svo vitnað sé óbeint í fleyg lokaorð sérfræðings frá kynningarfundi um losun fjármagnshafta (undanfara þessara áforma): „Svona endurskipuleggur maður fjármálakerfi“.