Kostnaðurinn af skaðlegri ríkisstjórn

Þekkt er úr sögunni að röng viðbrögð við efnahagskrísu valda oft meira efnahagstjóni en krísan sjálf. Ýmsir bentu Íslendingum á þessa hættu fljótlega eftir fall bankanna.

Ég benti nýverið á að stefna ríkisstjórnarinnar og viðbrögð hennar við falli bankanna hefðu valdið samfélaginu meira tjóni en bankahrunið sjálft. Það varð til þess að blogglúðrasveit og netdólgar ríkisstjórnarflokkanna hrukku af hjörunum. Annar eins fúkyrðaflaumur hefur líklega ekki komið úr þeirri átt frá því að ég tók upp á því að tjá mig um mikilvægi þess að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu, snemma árs 2009.

Það staðfestir að maður hafi hitt naglann á höfuðið í pólitískri gagnrýni þegar andstæðingarnir eiga ekki önnur svör en að ryðja úr sér persónulegum svívirðingum. Einhverjir hættu sér þó út í tölfræði og töldu að fráleitt væri að ætla að ríkisstjórnin hefði valdið jafnmiklum skaða og 8.000 milljarða tapi fjármálakerfisins af efnahagshruninu.

Eftir á að hyggja hefði ég átt að búast við því að stjórnarliðar hefðu ekki síður áhyggjur af tapi Deutsche Bank og annarra erlendra kröfuhafa en tapi íslensks almennings. Öll stefna ríkisstjórnarinnar hefur gefið það til kynna. Það er því rétt að árétta að þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi valdið meira tjóni en bankahrunið þá er ég að tala um áhrifin á íslenskt samfélag.

Samanburðurinn

Óhjákvæmilegur kostnaður af bankahruninu skiptist einkum í fernt. Lífeyrissjóðir og sparifjáreigendur sem áttu hluta- og skuldabréf í bönkunum töpuðu verulegum fjárhæðum þegar bankarnir féllu. Skattgreiðendur töpuðu á veðum Seðlabankans og auk þess tapaði almenningur á þeirri kaupmáttarrýrnun sem bankahrunið olli. Verstu áhrifin voru hins vegar þau sem helst mátti komast hjá, þ.e. tap skuldsettra heimila vegna höfuðstólshækkunar skulda.

Endanlegt tap Seðlabankans nemur líklega um 200 milljörðum króna, en hann getur prentað krónur. Lífeyrisþegar og aðrir sem lögðu sparifé sitt í hlutabréf urðu fyrir miklu áfalli. Margir voru sviptir lífeyri sínum. Slíkt er gríðarlegt áfall fyrir þá sem í hlut eiga. Hvað varðar áhrif á samfélagið í heild standa þó skuldamálin upp úr.

Þegar skuldir millitekjufólks aukast skyndilega og eigið fé þurrkast út hefur það gríðarleg áhrif á stöðu ótal heimila og dregur úr virkni hagkerfisins. Neysla og skattgreiðslur dragast saman, fólksflótti eykst og svo framvegis. Ofan á þetta bættist kaupmáttarrýrnun vegna falls krónunnar, aukins atvinnuleysis og lægri launa. Möguleikar stjórnvalda til að koma í veg fyrir þetta tjón voru borðliggjandi. Það að nýta ekki þau tækifæri olli því að tjónið af bankahruninu varð miklum mun meira en það hefði þurft að vera.

Tækifærin

Allar forsendur voru til að leiðrétta stökkbreytinguna á lánum heimilanna. Ef lánin hefðu verið færð frá gömlu bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð á eðlilegum afslætti hefði mátt leiðrétta fyrir öllum áhrifum verðbólguskotsins og meira til. Það sama á við um lán bankanna til rekstrarfélaga. Þannig mátti endurskipuleggja skuldir heimila og fyrirtækja hratt. Auk þess hefði ríkið eða Seðlabankinn átt að kaupa skuldabréf bankanna á meðan þau voru til sölu á hrakvirði (eins og við lögðum til). Slík fjárfesting hefði alltaf verið hagstæð enda íslensk lánasöfn verðmætari fyrir Íslendinga en fyrir vogunarsjóði sem ætla að ná skammtímagróða. Þetta hefði meira en vegið upp tap Seðlabankans af veðlánum.

Með pólitískum stöðugleika, skynsamri skattastefnu og orkuframleiðslu hefði fjölmörgum stórum atvinnuskapandi verkefnum verið hrint í framkvæmd á undanförnum árum. Þúsundir manna hefðu þá fengið vinnu. Ef 6.000 manns væru án atvinnu í stað 13.000 hefði það skilað samfélaginu tugum milljarða. Slíkt var raunhæft og borðliggjandi miðað við aðstæður 2009 eins og m.a. kom fram í kosningaauglýsingum Samfylkingarinnar og margítrekað í máli forsætisráðherra.

Raunin

Hér voru allar aðstæður til að fjárfesting yrði vel yfir meðallagi, eins og iðulega gerist eftir niðursveiflu. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að fjárfesting er sú lægsta frá því að mælingar hófust. Tap samfélagsins af þeim mun er ekki undir 75 milljörðum á ári.

Í stað þess að leiðrétta lán heimilanna samhliða stofnun nýju bankanna var komið til móts við erlenda kröfuhafa. Það skaðaði heimilin beint og jók á snjóhengjuna sem hefur haldið krónunni í höftum og valdið samfélaginu ómældu tjóni. Í ofanálag dældi ríkisstjórnin tugum milljarða inn í gjaldþrota fjármálafyrirtæki án heimildar frá Alþingi. Ólögmæt myntkörfulán voru færð yfir í nýju bankana sem lögmæt þrátt fyrir viðvaranir. Tap ríkisins af því gæti numið 150 milljörðum. Í ofanálag hafa svo skatta- og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar hækkað lán heimilanna og þar með kröfur erlendra lánardrottna um tugi milljarða.

Niðurstaðan

Lauslega áætlað og með vísan til þekktra auglýsinga er niðurstaðan um það bil þessi:

Hrun heils fjármálakerfis: 670 milljarðar.

Sósíalistastjórn í 3 ár: 890 milljarðar.

Kosningar og ný ríkisstjórn sem nýtir hin óendanlegu tækifæri Íslands öllum til hagsbóta: Ómetanlegt.