Hvað tapaði ríkið miklu á Sjóvá?

Fyrir nokkrum vikum lagði ég til að þingið yrði kallað saman til að ræða þá miklu óvissu sem er um endurtekin inngrip fjármálaráðuneytisins í fjármálastofnanir, þar með talið tryggingafyrirtækið Sjóvá. Sífellt kemur betur í ljós hversu mörgum spurningum er ósvarað um þessi mál. Í öllum tilvikum var um að ræða aðgerðir sem fjármálaráðherra tók ákvörðun um án aðkomu Alþingis.

Seðlabankinn heldur því nú fram að ríkið muni tapa yfir 4 milljörðum króna á viðskiptum með hlutabréf í Sjóvá en nýverið var staðfest að ríkið myndi selja 52,4% hlut í félaginu á 4,9 milljarða.

Þegar rætt er um að ríkið fái greidda 4,9 milljarða er væntanlega átt við 4,9 milljarða að núvirði, þ.e. á verðlagi ársins 2011. Ríkið greiddi hins vegar um 12 milljarða þegar ákveðið var að þjóðnýta félagið. Það var um mitt ár 2009 og því var um að ræða 12 milljarða á verðlagi þess tíma. Frá júlí 2009 til júlí 2011 hækkaði vísitala neysluverðs um 10%. Hafi ríkið lagt fram milljarðana 12 í júlí 2009 nema þeir því 13,2 milljörðum á núvirði.

Við það bætist að ríkið er rekið með halla og því voru kaupin á Sjóvá greidd með lánsfé. Ef miðað er við að fjármögnunarkostnaður ríkisins sé 3,5% ofan á verðtrygginu hefur bæst við tæpur milljarður í vaxtakostnað. Kostnaðurinn af þjóðnýtingu Sjóvár nemur þá rúmum 14 milljörðum.Á móti fær ríkið nú 4,9 milljarða fyrir meirihluta í félaginu.

Ríkið er því sem nemur yfir 9 milljörðum króna í mínus en á enn 20% hlut sem það vonast til að geta selt á 2,4 milljarða króna þótt óljóst sé hvort einhverjir eru tilbúnir að greiða þá upphæð fyrir fimmtungshlut í félaginu þegar búið er að selja ráðandi hlut. Tap ríkisins nemur því alla vega um 7 milljörðum króna en ekki 4,3 milljörðum eins og Seðlabankinn heldur fram. Telji Seðlabankinn eðlilegt að líta framhjá áhrifum vaxta og verðtryggingar og sleppa þeim úr reikningum sínum væru eflaust mörg heimili og fyrirtæki til í að gera slíkt hið sama.

Á sama tíma getur ríkisstjórnin ómögulega komið sér saman um byggingu nýs fangelsis sem er stórt atvinnuskapandi verkefni sem kostar einn og hálfan milljarða króna.

Nú kann að vera að ríkisstjórnin geti fært fram rök fyrir því að rétt hafi verið að yfirtaka Sjóvá í stað þess að ábyrgjast einfaldlega tryggingar félagsins. En svörin fást ekki því stjórnvöld neita að taka þetta mál til umræðu í þinginu. Formaður efnahags og skattanefndar telur ekki einu sinni taka því að kalla nefndina saman til að fara yfir málið.