Höldum reglulega opna nefndafundi um ESB umsóknina

Nú við upphaf fundar í utanríkismálanefnd kl. 13:00 mun ég leggja fram tillögu um að framvegis verði haldnir mánaðarlega opnir fundir í utanríkismálanefnd til að ræða málefni sem tengjast ESB umsókn Íslands.

Tillagan er svohljóðandi:

Utanríkismálanefnd samþykkir að nefndin fundi á opnum fundum a.m.k. einu sinni í mánuði frá og með ágúst 2011 til að ræða málefni sem tengjast ESB umsókn Íslands. Fundirnir skulu opnir almenningi auk þess sem þeim verði sjónvarpað. Utanríkisráðherra skal ætíð sitja þessa fundi auk annarra sem nefndin óskar eftir hverju sinni.

Þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB var jafnframt sagt að mikilvægt væri að almenningur gæti fylgst vel með málinu frá fyrsta degi. Krafan eftir hrun bankakerfisins hefur einnig verið gegnsæi og opin vinnubrögð. Það hefur verið gagnrýnt að litlar upplýsingar sé hægt að fá um hvað sé raunverulega að gerast í aðildarferli Íslands, ráðherra túlki þingsályktun Alþingis mjög frjálslega og haldi málinu sér.

Framundan eru mikilvægar ákvarðanatökur sem tengjast ESB umsókn Íslands og í ljósi reynslunnar hafa margir áhyggjur af stöðu mála. Þegar næstu skref eru ákvörðuð þá er mikilvægt að fram fari raunverulegt samráð við Alþingi, almenning og hagsmunasamtök. Opnir fundir í nefndinni myndu bæta þessa þætti og gera þingmönnum sem og almenningi tækifæri á aukinni aðkomu að málinu.