Ekki hærri skatta á matvæli og nauðsynjar – hingað og ekki lengra!

Eitt mikilvægasta viðfangsefni þjóðarinnar í haust verður að koma böndum á ríkisfjármálin. Fátt heyrist frá ríkisstjórninni um það hvernig það skuli gert, en það sem frá henni heyrist virðist boða meira af því sama.

Samkvæmt áætluninni um endurreisn efnahagslífsins átti hagvöxtur að taka við sér árið 2010. það gerðist ekki. Samkvæmt áætluninni átti ríkissjóður að hafa náð að rétta sig þokkalega af þannig að sæist í ljósið við enda ganganna. Nýútkominn ríkisreikningur sýnir að enn er langt í það markmið.

Ríkisstjórnin hefur fengið tveggja ára tækifæri og henni hefur mistekist. Og það sem verra er: Nú í haust hefur hún engar nýjar lausnir að bjóða þurrausnum þegnum sínum, aðeins meira af því sama. Meiri niðurskurð í velferðarkerfinu, meiri skattahækkanir á almenning og hærri verðtryggðar skuldir heimilanna.

Því miður heldur ríkisstjórnin sig við þá hugmyndafræði að skattar á almenning skapi verðmæti. Og við hverja hækkun blæðir heimilunum í landinu hraðar út. Skelfilegasta dæmið eru skattahækkanir á matvæli og nauðsynjavörur. Það eina sem slíkar skattahækkanir leiða af sér er að hver fjölskylda fær færri krónur í launaumslagið um hver mánaðarmót  og á minni möguleika á að ná endum saman. Fjölmargar fjölskyldur heyja nú þegar ómögulega baráttu við að lifa af hvern mánuð. Fyrir allt of marga er sú barátta löngu töpuð.

Og hvert er svar fjármálaráðherra? Frekari skattahækkanir ekki útilokaðar í fjárlögum haustsins 2011. Það er einmitt það.

Lítum á staðreyndir. Virðisaukaskattur á matvæli á Íslandi er nú sá hæsti í heiminum og hver hækkun á neyslusköttum dælist beint inn í vísitölu og hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna. Eldsneytisskattar hækka eldsneytisverð um helming og valda nú vel merkjanlegum samdrætti í ferðaþjónustu yfir sumartímann. Þrepaskipting tekjuskatts á almenning veldur því að það borgar sig ekki lengur að taka yfirvinnu, því þá á fólk á hættu að hækka upp í hátekjuskattþrep og fá minna útborgað en fyrir venjulegan vinnudag. Þetta eru nokkur dæmi um hið Nýja Ísland sem norræna velferðarstjórnin hefur byggt upp á undanförnum tveimur árum með skattahækkunum á almenning.

Og hvernig er þetta réttlætt? Fjármálaráðherra bendir reglulega á að skattprósenta á Íslandi sé lægri en í nágrannalöndum og því sé þetta allt himnalagi. En hann „gleymir“ að taka með í reikninginn að í samanburðarlöndunum eru greiðslur í lífeyriskerfið innifaldar í skattprósentunni. Hér á landi greiðir fólk hins vegar sérstaklega í lífeyrissjóði og því er eðlilegt að skattprósentan sjálf sé lægri.

Það má heldur ekki gleyma því, eins og fjármálaráðherra er þó svo gjarnt að gera, að í nágrannalöndunum skila hærri skattar sér til baka til þegnanna í formi meiri þjónustu. Hér á landi er þessu hins vegar öfugt farið og hvort tveggja gert almenningi til bölvunar, skattar hækkaðir og þjónustan skorin niður. Auk þess eru ýmsir frádráttarliðir í boði í nágrannalöndunum sem íslenskir skattgreiðendur hafa ekki möguleika á. Það er ekki hægt að bera saman skattprósentuna eina, það verður að skoða hvað liggur að baki henni. Og í þeim samanburði bera Íslendingar skarðan hlut frá borði.

Nú stendur yfir hjá ríkisstjórninni undirbúningur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Er það rétt, eins og heyrst hefur fleygt, að raunverulega standi til að hækka virðisaukaskatt á matvæli og nauðsynjavörur enn frekar í haust og kreista þannig síðustu krónurnar úr buddum þeirra sem nú þegar eiga enga möguleika á að ná endum saman, með tilheyrandi eyðileggingu kaupmáttar og hækkun verðtryggðra skulda heimilanna?

Það má ekki gerast. Ef tillögur um eitthvað slíkt koma fram verður þjóðin að standa saman gegn öllum slíkum áformum. Lausn vandans felst ekki í aukinni skattheimtu heldur sköpun raunverulegra verðmæta. Hærri skattar á almenning munu ekki byggja upp hér það samfélag velferðar og jöfnuðar sem við viljum að börnin okkar búi við.

Einhvern tíma verðum við að standa saman bak í bak og draga línuna í sandinn. Og sá tími er núna. Ekki hærri virðisaukaskatt á matvæli. Ekki meiri kaupmáttarrýrnun. Ekki hærri skuldir. Ekki fleiri gjaldþrota heimili. Ekki fleiri atvinnulausa foreldra. Ekki hærri neysluskatta. Hingað og ekki lengra.