11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

08/3/12

Árangur hverra og fyrir hverja?

Umræða undanfarinna daga um stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði gefur tilefni til að benda á nokkrar staðreyndir. Umræðan er mikilvæg vegna þess að tækifæri Íslands eru líklega meiri en nokkurs annars lands en samt eigum við á hættu að glata þeim. Saga undanfarinna ára undirstrikar þetta.

Ríkisstjórnin, eða hluti hennar, leitast nú við að telja fólki trú um að stefna ríkisstjórnarinnar hafi skilað árangri í efnahagsmálum. Þetta hefur reyndar reynst mörgum ráðherrum nokkuð erfitt eftir að þeir hafa varið megninu af kjörtímabilinu í að reyna að sannfæra fólk um að Ísland ætti sér enga framtíð nema almenningur tæki á sig hundruð milljarða króna skuldir fallinna banka og landið gengi svo í Evrópusambandið.

Continue reading

07/19/12

Ríkisfjármálin: Ríkisstjórnin setur Evrópumet í skekkju.

Nú hefur komið í ljós að halli á rekstri ríkisins árið 2011 var tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir í nýlegri áætlun. Ath! Hér er ekki um að ræða muninn á fjárlögum og raunveruleikanum heldur muninn á því sem áætlað var eftir árið 2011 og raunveruleikanum.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 átti hallinn á rekstri ríkissjóðs að vera 36,4 milljarðar. Eftir árið komst fjármálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að hallinn hefði í raun verið 10 milljörðum hærri, eða 46,4 milljarðar. En nú hefur komið í ljós að hallinn var 89,4 milljarðar, semsagt 63 milljörðum meiri en kynnt var í fjárlögum. Það er 173% umfram áætlun. Það hlýtur að vera Evrópumet í skekkju í rekstri ríkis á síðasta ári.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin kynnir fjárlög og svo áætlun sem reynist vera algjörlega út úr kortinu. Það virðist vera orðin regla frekar en undantekning.

Gert var ráð fyrir 87,4 milljarða halla á fjárlögum ársins 2010. Þegar fjárlögin 2011 voru kynnt upplýsti fjármálaráðherra um að hallinn 2010 yrði líklega ekki nema 74,5 milljarðar (vegna þess að ríkið reiknaði sér hagnað af svo kölluðum Avens-samningi). Áætlunin var svo aftur kominn upp í 82 milljarða skömmu síðar og þegar ríkisreikningur birtist reyndist raunverulegur halli ársins 2010 vera 123,3 milljarðar!

 

Continue reading