12/14/12

Olía

Það er ánægjulegt að sjá að forsetinn skuli vera farinn að láta til sín taka í olíumálum fyrst ríkisstjórnin hefur vanrækt þau að mestu allt kjörtímabilið. Endurbirti til gamans grein sem ég skrifaði um málið á sínum tíma:

Norðmenn ráða yfir gríðarmiklum olíu- og gasauðlindum. Engu að síður sáu Norðmenn ástæðu til að fagna í nóvember síðastliðnum þegar birtar voru niðurstöður olíu- og gasrannsókna á Jan Mayen hryggnum. Olíumálastofnun Noregs, sem kippir sér ekki upp við hvað sem er, gaf út tilkynningu um óvæntar og spennandi niðurstöður.  Fyrir nokkrum dögum upplýsti svo Orkustofnun að rannsóknir olíuleitarfélaganna TGS og VBPR hefðu staðfest að olíu væri að finna á Drekasvæðinu. Það eru góðar vonir um að olía eða gas séu þar í vinnanlegu magni.

Eins og Stöð 2 greindi frá á sínum tíma telur Terje Hagevang, helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen hrygginn, að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og finnast í Noregshafi. Norðmenn hafa þegar leigt borskip til að framkvæma rannsóknarboranir við Jan Mayen þarnæsta sumar en samkvæmt rannsóknum Sagex olíufélagsins frá 2006 er megnið af þeim svæðum sem líklegust eru til að geyma olíu- og gaslindir innan íslenskrar lögsögu.

Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. En ef þetta gefur Íslendingum ekki tilefni til að vera bjartsýnir er slíkt tilefni vandfundið.

Aðstæður

Margt hefur breyst frá því að fyrst kviknuðu vonir um að olía og gas kynnu að leynast á Drekasvæðinu. Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega. Nú er því hafin nýting á olíulindum sem áður töldust ekki hagkvæmar. Tækniframfarir á undanförnum árum hafa auk þess gert olíuvinnslu á miklu dýpi mun vænlegri en áður.

Samkvæmt útboðslýsingu Orkustofnunar vegna olíuleitar á Drekasvæðinu er hafdýpi yfir áhugaverðum leitarsvæðum yfirleitt á bilinu 1.000 til 1.500 metrar (Sagex 2006). Slíkt dýpi er ekki vandamál. Það þyrfti að nota fljótandi borpall en botnfastir borpallar teljast hvort eð er ekki hagkvæmir ef dýpi fer mikið yfir 120 metra. Fljótandi borpallar eru því algengir. Þeir hafa auk þess þann kost að vera færanlegir. Fimmta kynslóð færanlegra flotpalla, sem varð til árið 1998, nýtist til borunar á yfir 2.500 metra dýpi og sjötta kynslóð er hönnuð fyrir meira en 3.000 metra dýpi. Borskip geta svo borað á allt að 3.700 metra dýpi.

Hafdýpi segir auk þess ekki alla söguna. Við samanburð á borholum er litið til þess hversu langt er niður að lindinni. Í því sambandi er dýpið á Drekasvæðinu minna en víða annars staðar.

Og þótt veður geti verið válind suður af Jan Mayen eru aðstæður víða miklum mun verri. Á Norðursjó er veðurfar mjög erfitt. Raunar er ölduhæð á Drekasvæðinu almennt mun minni en við Noreg og á Mexíkóflóa ganga reglulega yfir gríðarlega öflugir fellibyljir. Þar eru yfir 4.000 borpallar.

Hvenær?

Norðmenn boruðu fyrst eftir olíu sumarið 1966 án árangurs. Sumarið 1969 fannst svo risaolíulind sem hlaut nafnið Ekofisk. 1971 var farið að dæla olíu beint í skip og tveimur árum síðar, þegar búið var að koma upp olíugeymi, skilaði lindin stórum hluta gjaldeyristekna landsins.

Frá 1969 hafa orðið gríðarlegar framfarir við leit og vinnslu. Jarðlög eru kortlögð með tvívíðum, þrívíðum og fjórvíðum hljóðbylgjumælingum. Nú er hægt að leigja borpalla á borð við Eirík rauða og Leif Eiríksson sem sigla um allan heim og gata hafsbotninn á allt að 3.000 metra dýpi. Hinn víðförli Leifur hefur á undanförnum árum m.a. borað við Noreg, Angóla, Tyrkland og Grænland. E.t.v. er tímabært að Leifur skili sér heim til Íslands.

Þótt fyrr hefði verið

Rannsóknir TGS og VBPR, sem getið var um í upphafi, voru unnar að frumkvæði fyrirtækjanna sjálfra en vísindamennirnir voru á leið til Grænlands og fengu leyfi til að kanna Drekann í leiðinni. Orkustofnun bendir á að hinar jákvæðu niðurstöður berist seint fyrir útboð sérleyfa sem nú stendur yfir og lýkur 2. apríl.

Það er áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki hafa undirbúið útboðið með því að láta vinna rannsóknir í tæka tíð. Fyrir tveimur árum fór ég í fundaferð um landið og benti á mikilvægi þess að ráðast í slíkar rannsóknir sem fyrst. Hvernig sem útboðið á Drekasvæðinu fer er mikilvægt að Orkustofnun fái öflugan stuðning og hvatningu stjórnvalda vegna olíuleitar.

Ríkisolíufélag

Stofnun ríkisolíufélags hefði ýmsa kosti. Halldór Þorkelsson sérfræðingur hjá PWC hefur bent á að stofnun slíks félags sé til þess fallin að laða að fjárfesta en jafnframt er æskilegt að byggja upp þekkingu á olíumálum í landinu. Slík þekking gæti orðið mjög verðmæt jafnvel þótt við yrðum óheppin með Drekasvæðið, t.d. ef af vinnslu yrði við Grænland og Færeyjar (eða annars staðar við Ísland).

Hjá Orkustofnun og í iðnaðarráðuneytinu var á sínum tíma hugað að stofnun ríkisolíufélags og fyrir fáeinum árum samþykktu fulltrúar allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi, nema Vg, heimild til stofnunar slíks félags samhliða áformum um fyrsta Drekaútboðið. Æskilegt væri að útvíkka þá heimild enda var aðeins gert ráð fyrir félagi til að halda utan um vinnsluleyfi.

Ráðstafanir

Nauðsynlegt er að tryggja að þjóðin öll njóti góðs af því ef olía og gas finnast í íslenskri lögsögu. Ríkisolíufélag er liður í því. En einnig væri skynsamlegt að undirbúa hvernig farið yrði með hugsanlegan ávinning af olíu- og gasvinnslu. Það er kostur að setja slíkar reglur án þess þrýstings sem getur myndast á síðari stigum. Þar mætti einnig líta til Noregs þ.a. byggður verði upp sjóður sem háður yrði takmörkunum til að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að eyða óhóflega og skapa þenslu. Þó ætti að sjálfsögðu að nýta ávinninginn til að bæta kjör landsmanna. Greiða undirstöðustéttum opinberra starfsmanna almennileg laun o.s.frv.

Áhrif

Okkur liggur á. Ef það finnast vinnanlegar olíu- eða gaslindir í íslenskri lögsögu hefði það samdægurs mikil áhrif á hag landsmanna. Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Það leyfir strax meiri útgjöld en ella, gerir Íbúðalánasjóði kleift að veita óverðtryggð lán á lágum vöxtum og leysa skuldavandann. Hægt yrði að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar.

Norðursjávarolía og gas bjargaði á sínum tíma efnahag Bretlands og gerði Noreg að einu ríkasta landi heims. Smæð þjóðarinnar er kostur því að brot af þeim kolefnisauðlindum sem grannþjóðir okkar hafa yfir að ráða gerir sama gagn fyrir Íslendinga.

Í því efnahagslega gjörningaveðri sem mun ríða yfir heiminn á næstu árum myndi slík viðbót við þær auðlindir sem Íslendingar eiga nú þegar tryggja velferð til framtíðar.

Verum skynsöm og varfærin en leyfum okkur líka að vera bjartsýn. Það er fullt tilefni til þess.

11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

03/14/12

Olía

Norðmenn ráða yfir gríðarmiklum olíu- og gasauðlindum. Engu að síður sáu Norðmenn ástæðu til að fagna í nóvember síðastliðnum þegar birtar voru niðurstöður olíu- og gasrannsókna á Jan Mayen hryggnum. Olíumálastofnun Noregs, sem kippir sér ekki upp við hvað sem er, gaf út tilkynningu um óvæntar og spennandi niðurstöður.  Fyrir nokkrum dögum upplýsti svo Orkustofnun að rannsóknir olíuleitarfélaganna TGS og VBPR hefðu staðfest að olíu væri að finna á Drekasvæðinu. Það eru góðar vonir um að olía eða gas séu þar í vinnanlegu magni.

Eins og Stöð 2 greindi frá á sínum tíma telur Terje Hagevang, helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen hrygginn, að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og finnast í Noregshafi. Norðmenn hafa þegar leigt borskip til að framkvæma rannsóknarboranir við Jan Mayen þarnæsta sumar en samkvæmt rannsóknum Sagex olíufélagsins frá 2006 er megnið af þeim svæðum sem líklegust eru til að geyma olíu- og gaslindir innan íslenskrar lögsögu.

Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. En ef þetta gefur Íslendingum ekki tilefni til að vera bjartsýnir er slíkt tilefni vandfundið.

Continue reading

09/14/11

Ísland þarf að búa sig undir Evrópukreppu

Wolfgang Munchau, einn þekktasti dálkahöfundur heims á sviði efnahagsmála og aðstoðarritstjóri Financial Times, skrifaði grein í byrjun vikunnar þar sem hann færir rök fyrir því að evrukrísan eigi enn eftir að versna til muna. Munchau bendir á hvað lönd evrusvæðisins þurfi að gera til að bregðast við vandanum. Hann heldur því fram að umfram allt þurfi Evrópuríki að hverfa samstundis frá aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum og sum þeirra verði að auka útgjöld til að verjast alvarlegri kreppu. Hann telur reyndar ekki víst að tillögur sínar dugi til og skipti líklega ekki máli því ESB muni hvort eð er ekki grípa til réttra ráðstafana. Kreppa muni því lenda á evrusvæðinu af fullum þunga og án varna. Þegar það gerist verði evrukrísan fyrst ljót.

Nafni og landi blaðamannsins, Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra Þýskalands, skrifaði grein í sama blað þar sem hann færði rök fyrir því að það eina sem gæti bjargað evrunni væru aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.

Hvor hefur rétt fyrir sér?

Vandinn felst í því að þeir nafnar hafa báðir mikið til síns máls. Skuldastaða Evrópuríkja og vandi evrunnar er svo umfangsmikill að nauðsynlegt er að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Efnahagsástandið er hins vegar svo veikt að niðurskurðurinn dýpkar kreppuna, dregur úr neyslu heima og útflutningi (þegar öll ríkin eru að spara samtímis) og minnkar þar með tekjur ríkjanna, tekjur sem þarf til að greiða niður skuldir.

Á sama tíma verður lánsfé stöðugt dýrara, veikari ríki þurfa að borga sífellt meira fyrir óhóflega lántöku og skuldabréf þeirra falla í verði. Evrópski seðlabankinn bregst við með því að kaupa ríkisskuldabréf í gríð og erg til að hækka verð bréfanna. Það er ekki í samræmi við lög og reglur Evrópusambandsins frekar en björgunarsjóðirnir, en látum það vera. Slíkt líkist því þegar fyrirtæki kaupa eigin hlutabréf til að halda verði þeirra uppi. Það getur reynst dýrt spaug eins og Íslendingar þekkja. Seðlabanki Evrópu safnar þannig bréfum sem aðrir vilja fyrir alla muni losna við. Þegar hann getur ekki lengur haldið uppi verðinu er viðbúið að hann sitji uppi með mun minni verðmæti en greitt var fyrir.

Heita kartaflan

Seðlabanki Evrópu bindur vonir við að ESB komi á laggirnar sjóði sem sérhæfir sig í að kaupa ríkisskuldir sem aðrir vilja ekki eiga. Það hefur gengið erfiðlega af ýmsum ástæðum og skiptir líklega ekki öllu máli því að í báðum tilvikum snúast viðskiptin um að færa skuldir frá þegnum eins lands til annars og tap frá fjármálafyrirtækjum til skattgreiðenda.

Bankar eru enn í vandræðum þrátt fyrir ríkisaðstoð og yfirfærslu bankataps á evrópska skattgreiðendur. Síðastliðinn mánudag flutti Josef Ackermann, forstjóri Deutsche Bank, ræðu sem skaut mörgum skelk í bringu. Hann sagði að margir evrópskir bankar myndu ekki lifa það af að þurfa að uppfæra verðmat á ríkisskuldum. Verði skuldir ríkja lækkaðar falla bankarnir og það yrði dýrt fyrir ríkin.

Sjálfhelda

Ástæðan fyrir þessari sjálfheldu er einföld. Evrópulönd skulda allt of mikið og skortir auðlindir og framleiðslugetu til að standa undir útgjöldum. Það breytist ekki með því að færa til pappíra. Með neyðarfundum og tilfæringum er e.t.v. hægt að fela vandann að einhverju leyti og fresta uppgjörinu en með hverri frestun eykst vandinn.

Alþjóðleg efnahagstengsl eru svo umfangsmikil að vandi Evrópu mun hafa mikil áhrif annars staðar eins og þegar hefur komið í ljós. Auk þess sitja mörg lönd utan Evrópu uppi með eigin vandamál en eru mörg hver betur í stakk búin til að ná sér aftur á strik en Evrópulöndin sem komin eru á sögulegt hnignunarskeið. Vonandi tekst að snúa þeirri þróun við en það verður ekki auðvelt.

Grímsstaðir á Fjöllum

Ísland stendur á margan hátt betur en flest Evrópulönd. Miklar auðlindir og náttúrugæði miðað við fólksfjölda, sterkir innviðir, framleiðsla verðmætra afurða og staðsetning landsins eru hlutir sem skipta sköpum. Við þurfum hins vegar að standa vörð um þau verðmæti en efla um leið viðskipti og önnur tengsl við þær þjóðir sem munu drífa hagvöxt 21. aldarinnar.

Áhugi kínversks manns á að kaupa stóra íslenska jörð er áminning um þetta tvennt. Sem betur fer getur farið vel saman að efla tengslin við fjarlægar þjóðir og standa vörð um hinar mikilvægu auðlindir sé rétt að verki staðið. Hinn mikli áhugi Kínverja á Íslandi hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla og hann kemur þeim ekki á óvart. Kínverjar gera sér grein fyrir hinum gríðarmiklu framtíðartækifærum landsins. Það er tímabært að Íslendingar fari að gera það líka.

Ráðstafanir

Skýr framtíðarsýn er nauðsynleg og áríðandi. Við þurfum að búa okkur undir langvarandi stöðnun eða samdrátt í Evrópu með því að koma af stað fjárfestingum á meðan kostur er, einkum fjárfestingu í útflutningsgreinum, mennta fleiri vísindamenn og verkfræðinga, standa vörð um auðlindir landsins og hagsmuni okkar á norðurslóðum, efla samstarf við bæði grannþjóðir og fjarlæg lönd og búa landið undir að verða miðstöð vöruflutninga og tengdrar framleiðslu. Svo væri gott að finna dálitla olíu.

Gott en ekki nauðsynlegt.