02/15/12

Hæstiréttur dæmir ríkisstjórn – enn á ný

Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Frjálsa fjárfestingarbankanum hefði ekki verið heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta. Það á eftir að koma í ljós hversu víðtæk áhrif þetta hefur á banka og fjármögnunarfyrirtæki.

Það er ekki óvarlegt áætla að heildartalan fari a.m.k. vel yfir 100 milljarða. Það jákvæða er að fjárhagsstaða heimila sem eru með gengistryggð lán mun batna þar sem þau munu væntanlega fá endurgreiðslur á ofgreiddum vöxtum. Hins vegar eykur þetta enn á misvægi milli þeirra annars vegar og svo hinna sem glíma við verðtryggð lán og hafa litla leiðréttingu fengið.

Á sínum tíma vöru Framsóknarmenn mjög við því að gengisbundnu lánin yrðu færð yfir í nýju bankana á meðan veruleg óvissa væri um lögmæti þeirra. Það var gert engu að síður og nú er því haldið fram, m.a. með skýrslu Hagfræðistofnunar, að afskriftasvigrúm bankanna hafi að mestu verið nýtt í tapið sem bankarnir urðu fyrir vegna gengisbundnu lánanna.

Continue reading

10/21/11

Plan B – tillögur Framsóknar í atvinnu- og efnahagsmálum

Vikan er búin að vera hlaðin skemmtilegum verkefnum. Eftir heimsóknir á góð kjördæmaþing Framsóknarfólks í Norð-Austur og Norð-Vestur kjördæmum um helgina byrjaði mánudagurinn á því að vefurinn www.planb.is var formlega opnaður á blaðamannafundi þingflokksins í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar.

Á þessum nýja vef getur fólk kynnt sér Plan B – tillögur okkar Framsóknarmanna í atvinnumálum, efnahagsmálum og sjávarútvegsmálum. Vefurinn er settur upp til að auðvelt sé að finna það sem fólk leitar að. Einnig eru þar stutt myndbönd, þar sem þingmennirnir segja stuttlega frá tillögunum, t.d. þetta hér:

Continue reading

10/3/11

Er eitthvað að marka stefnuræðu forsætisráðherra?

Í kvöld flytur Jóhanna Sigurðardóttir stefnuræðu sína. Flestir muna hvernig ástandið var á Austurvelli við sama tilefni fyrir ári síðan. Í ljósi fjöldamótmæla gat ríkisstjórnin ekki annað en brugðist við. Yfirlýsingar voru gefnar um að tekið yrði mynduglega á skuldum heimilanna. Skipuð var nefnd. Niðurstaðan var ekki almenn leiðrétting skulda heldur að búin yrðu til flókin, sértæk úrræði. Reynslan sýnir að fáir hafa getað nýtt sér úrræðin, þau hafa skilað litlu og að fólki er mismunað eftir því við hvaða banka eða lánastofnun það hefur viðskipti.

Hver verða skilaboð forsætisráðherra til þjóðarinnar í kvöld?
Það er því miður ekki flókið að spá fyrir um málflutning forsætisráðherra í kvöld. Hún mun tala um hversu hratt og vel hefur gengið að endurreisa íslenskt efnahagslíf og að á Íslandi hafi mælst næstmesti hagvöxtur OECD ríkja á 2. ársfjórðungi 2011. Að auki má búast við endurteknu efni; að ríkisstjórnin hafi lagt grunn að 7.000 störfum sem verði til „á næstu misserum“; að verðbólga hafi lækkað og að slakað hafi verið á heljargreipum verðtryggingarinnar með því að bjóða upp á óverðtryggð lán hjá bönkum og Íbúðalánasjóði; að 150 milljarðar hafi verið afskrifaðir af skuldum heimilanna og að „allir hafi fengið eitthvað“ eins hún orðaði það í Kastljósi. Að lokum er ekki ólíklegt að forsætisráðherra hreyki sér af því að árangur ríkisstjórnarinnar veki nú alþjóðlega athygli.

Continue reading

08/26/11

Lausn á skuldum heimilanna er forgangsmál

Nú í lok vikunnar kemur Alþingi saman á ný. Ég hef reyndar mælst til þess nokkrum sinnum í sumar að þingið yrði kallað saman til að ræða ýmis mál sem tæplega þoldu bið. Þeirra á meðal er ríkisskuldakrísa Evrópuríkjanna sem aðeins er spurning hvenær en ekki hvort mun hafa áhrif hér á landi. Mikil umræða hefur eðlilega skapast um Evrópumál í sumar vegna þess vanda sem nú steðjar að fjármálalífi ESB ríkjanna og skoðanir manna eru ákaflega mismunandi. Svo mismunandi að Framsókn hefur nú orðið að sjá á eftir Guðmundi Steingrímssyni.

Það er auðvitað leitt að missa góðan mann úr þingflokknum en við Guðmundur ræddum saman og hann fór vel yfir ástæður sínar. Það er augljóst að hann hefur tekið ákvörðun sína að vel athuguðu máli og þetta er því miður niðurstaða hans. Eins og hann bendir sjálfur á er eðlilegt í stjórnmálum að menn finni sér þann vettvang þar sem þeir telja sig best geta komið sínum málum áleiðis. Um leið og ég óska Guðmundi velfarnaðar í framhaldinu og þakka honum kærlega fyrir samstarfið vonast ég til að hann beiti sér áfram með okkur í þeim málum sem falla að skoðunum hans.

Við verðum að setja fólkið og heimilin í forgang

En Evrópumál og flokkadrættir vegna þeirra eru ekki það sem Íslendingar, innan Alþingis og utan, þurfa að leggja höfuðáherslu á nú á haustmánuðum. Skuldavandi heimilanna er orðinn slíkur að vart verður við ráðið lengur. Það hlýtur að vera forgangsverkefni okkar allra að leysa fólkið í landinu úr böndum húsnæðisskulda og atvinnuleysis.

Árið 2009 var því spáð að nú, tveimur árum seinna, yrði botni kreppunnar náð og að heimilin og fyrirtækin í landinu myndu geta greint ljósið við enda ganganna. Í dag er það öðru nær. Atvinnuleysi mælist enn rúmlega 6 prósent, næstum jafn mikið og í upphafi árs 2009. Engar afgerandi lausnir bjóðast á húsnæðisskuldum heimilanna og ekki hefur verið ráðist í neinar almennar aðgerðir til skuldaniðurfellingar, sem kæmu þeim best sem mest þurfa á þeim að halda. Sú leið sem ríkisstjórnin boðaði eftir fjöldamótmæli í október 2010, hin svokallaða 110% leið, hækkar nú að líkindum í 130% leið vegna efnahagslegrar óstjórnar og óþarfra vaxtahækkana sem ekki sér fyrir endann á.

„Eftir tvö ár verður botninum náð.“

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum 2009 bauð hún upp á að næstu tvö ár yrðu erfið en að þeim loknum yrði séð til lands, Tekið yrði á skuldavandanum, fjárhagur heimilanna myndi vænkast og atvinnulífið taka við sér. Í krafti þessa loforðs hefur fólkið í landinu þolað skattahækkanir og niðurskurð sem áttu að fjármagna erlend lán ríkisins og loka fjárlagagatinu. Þessi tvö ár eru liðin en gatið er enn risastórt. Þetta plan hefur ekki virkað. Nú í haust mun ríkisstjórnin samt aðeins bjóða heimilunum upp á meira af því sama. Meiri skattahækkanir. Meiri niðurskurður. Engin atvinnuuppbygging, engin fjárfesting og engin lausn á skuldavanda heimilanna.

Þeir sem gátu í tvö ár haldið rekstri heimilisins á floti með því að nýta ævisparnað sinn, með snemmbærri úttekt lífeyrissparnaðar eða með söfnun kreditkortaskulda eru nú þremur árum frá hruni komnir að enda vegarins. Það er ekkert eftir til að ná endum saman. Afborganir falla ógreiddar á gjalddaga, bankarnir ganga sífellt harðar fram í innheimtu þrátt fyrir fögur loforð um annað, daglegur rekstur heimilisins verður mjög erfiður og brátt ómögulegur. Fleiri og fleiri missa húsnæðið, fjárhagsvandinn legst sem mara á sambönd fólks og fjölskyldur flosna upp. Þetta má ekki halda svona áfram. Við sem vinnum í stjórnmálum verðum að átta okkur sameiginlega á því að heimilin þola ekki meira. Við verðum þora að viðurkenna að það er þörf á nýrri nálgun.

Verður hlustað á okkur í haust?

Framsókn lagði fyrir tveimur árum fram ítarlegar efnahagstillögur, þar á meðal tillögur um almenna skuldaniðurfellingu fyrir heimilin í landinu sem hefðu þá þegar getað snúið þessari þróun við. Á þær tillögur var ekki hlustað, reyndar voru þær barðar niður með offorsi af vinstri flokkunum. Skýrslan um endurreisn bankanna sem kom út í vor sýndi hins vegar að svigrúmið var til staðar en meðvituð ákvörðun var tekin um að láta kröfuhafa njóta þess í stað heimilanna.

Þetta má ekki gerast aftur. Framsókn mun á komandi þingi leggja krafta sína í að berjast fyrir aðgerðum í efnahagsmálum sem geta, verði á okkur hlustað í þetta sinn, snúið þróuninni við og gert fólki kleift að ná endum saman á ný. Við höfum þegar lagt fram á þingi ítarlegar tillögur um sókn í atvinnumálum, því heimilin munu ekki losna úr álögum skulda nema ráðist verði í markvissa atvinnuuppbyggingu. En sókn í atvinnumálum verður að fylgja stöðugleiki í efnahagsmálum svo hagur heimila og fyrirtækja nái að dafna og vaxa. Þetta tvennt er forsenda þess velferðarsamfélags sem við viljum og verðum að byggja upp á nýjan leik. Vinna, vöxtur, velferð. Það er leiðin út úr vandanum. Eina leiðin.

08/9/11

Við þurfum Plan B – Ekki meira af því sama

Vandi Íslands er skuldavandi og skortur á atvinnusköpun (fjárfestingu). Það verður ekki leyst með endalausum skattahækkunum sem bæta jafnt og þétt á skuldabyrðina og halda niðri fjárfestingu.

Undanfarin 2 ár hafa sýnt að tilraunir til að leysa vanda ríkissjóðs fyrst og fremst með skattahækkunum hafa haft neikvæð áhrif. Hærri skattar hafa aukið á vandann en ekki skilað auknum tekjum. Það er með ólíkindum að stjórnvöld skuli láta sér detta í hug, við þessar aðstæður, að hækka skatt á matvæli úr 7% í yfir 20%.

Með því að hækka skatta á neysluvörur er verið að auka á skuldavandann og gefa til kynna að eingöngu verðtryggðar eignir verði varðar. Þar með verður staða almennings enn verri en nú er og heimilin verða ekki í aðstöðu til að halda uppi eðlilegri neyslu, fyrirtæki segja þá upp fólki frekar en að ráða nýtt og frumkvöðlar í atvinnusköpun halda að sér höndum, landflóttinn eykst og keðjuverkandi samdráttur heldur áfram.

Í þensluástandi geta skattahækkanir verið eðlilegar og jafnvel æskilegar. Í kreppu eru skattahækkanir, svo ekki sé minnst á viðvarandi óvissu og sífellt meiri kerfisflækjur, til þess fallnar að dýpka kreppuna. Tveggja ára reynsla ætti að vera nægur tími til að minna á lögmál sem hafa verið þekkt í alla vega 80 ár.

Eina leiðin úr vandanum er atvinnusköpun, aðhaldssemi og forgangsröðun í ríkisfjármálum og langtímaáætlanir sem taka mið af heildaráhrifum af útgjöldum, sparnaði og lagasetningu ríkisins. Það er ekki hægt að leysa vandann með endalausum skammtímareddingum þar sem ríkið nær sér í fjármagn til skamms tíma með aðgerðum sem skerða tekjur þess til lengri tíma litið, sker niður í útgjöldum sem valda þeim mun meiri kostnaði eða tekjutapi til lengri tíma litið og fjárfestir ekki á hagkvæman hátt.

Stjórnvöld þurfa að setja fram trúverðuga áætlun til 5 og 10 ára þar sem tekið er mið af heildaráhrifum og langtímaáhrifum í fjármálum ríkisins, lögum breytt þannig að þau hvetji til fjárfestingar og atvinnusköpunnar í stað samdráttar og ráðist er í samræmdar og markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Með því móti má sýna fram á að langtímahorfur séu góðar á Íslandi. Það er þó lykilatriði að stjórnvöld gefi fyrirheit um að staðið verði við áætlunina til að skapa stöðugleika í stað þess að viðhalda varanlegri óvissu. Viðvarandi og vaxandi óvissa er fóðrið sem kreppur nærast á.

Með langtíma-/heildaráætlun, skuldbindingu um að staðið verði við áætlunina, aðgerðum til atvinnusköpunar  og aðgerðum í skuldamálum skapast aðstæður þar sem fyrirtæki þora að fjárfesta og ráða fólk, fólk sér framtíð í því að búa og starfa á Íslandi.

Tækifærin eru til staðar á Íslandi. Það sem vantar er trúverðug framtíðarsýn.