09/1/16

Selt undan flugvellinum

Nú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun

Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.

Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hafi verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.

Samkomulagið

Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.

Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suður-brautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.

Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.

Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.

Lokun neyðarbrautarinnar

Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestan átt eftir lokunina.

Brautin seld

Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.

Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.

Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.

Óheimil sala

Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrum varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.

Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka viðsnúning í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2016

05/23/14

Á aðeins einu ári

Í dag er liðið eitt ár frá því að ný ríkisstjórn hóf sókn í þágu lands og þjóðar eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu hennar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagar heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í almannaþágu. Á aðeins einu ári hafa orðið gríðarmiklar framfarir á fjölmörgum sviðum.

Hagþróun og atvinnumál

• 4.000 ný störf (heil ársverk) hafa orðið til frá því að ný ríkisstjórn tók við. Það eru að jafnaði 11 störf á dag eða 16 hvern virkan dag.

• Hagvöxtur tók mikinn kipp síðast liðið haust. Hinn aukni hagvöxtur seinni hluta ársins var langt umfram spár og með því mesta sem þekkist meðal iðnvæddra þjóða. Þess er nú vænst að hagvöxtur aukist enn á þessu ári og því næsta. Verðbólga er komin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í aðeins annað skipti í heilan áratug og í fyrsta skipti hefur verðbólga haldist undir viðmiðunarmörkum í nokkra mánuði í röð. Afleiðingin er aukinn kaupmáttur.

• Kaupmáttur hefur aukist meira á tímabilinu en nokkru sinni frá árinu 2007. Ætla má að kaupmáttur, það hvað fólk getur keypt fyrir launin sín, aukist nú hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.

• Atvinnuleysi fer enn minnkandi og er nú í kringum 4% á sama tíma og meðaltals atvinnuleysi á Evrusvæðinu er búið að ná nýjum hæðum í 12 prósentum.

• Ferðamönnum fjölgaði um 34% fyrstu 4 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Ný ríkisstjórn ákvað að hverfa frá áformum síðustu ríkisstjórnar um að hækka skatta á ferðaþjónustu. Áformin voru talin ótímabær því þau myndu draga úr vexti greinarinnar og skerða tekjur þeirra sem selja ferðamönnum vörur og þjónustu og þar með tekjur ríkisins. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru orðnar meiri en af sjávarútvegi.

• Fjárfesting hefur aukist, ekki hvað síst meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja. Byggingariðnaðurinn sem gengið hefur í gegnum miklar þrengingar er að taka við sér. Samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins nema þekkt verkefni, bara á sviði hótelbygginga í Reykjavík á næstu þremur árum um 45 milljörðum króna.

Aukin velferð

• Jöfnuður hefur aukist þrátt fyrir hraðan hagvöxt. Útlit er fyrir að Ísland haldi stöðu sinni sem það land Evrópu sem er með lægst hlutfall landsmanna undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Samkvæmt síðustu mælingu var hlutfallið 12,7% á Íslandi en meðaltalið í ESB var 25%. Hvað varðar jafna tekjudreifingu mælda með Gini-stuðlinum var Ísland komið í þriðja sæti árið 2013, einkum vegna hlutfallslegrar lækkunar hæstu launa en nú er útlit fyrir að við getum styrkt stöðu okkar með hækkun lægri- og meðallauna.

• Barnabætur hækkuðu úr 7,5 milljörðum í 10,2 milljarða króna milli ára. Það er þriðjungs aukning.

• Tekjuskattur lækkaði um 5 milljarða, mest hjá millitekjufólki.

• Framlög til velferðarmála hafa verið aukin til mikilla muna. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldriborgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða eða 11%. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei sett jafnmikið fjármagn til félagsmála og á árinu 2014.

• Framlög til heilbrigðismála voru aukin um 6,8 milljarða að raunvirði og ráðist í brýnar úrbætur á húsa- og tækjakosti Landsspítalans. Það var ekki gert með auknum lántökum heldur sparnaði annars staðar í ríkiskerfinu, einkum í ráðuneytum. Unnið er að undirbúningi uppbyggingar þjóðarsjúkrahúss og eflingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Með verkefninu „Betri heilbrigðisþjónusta“ er ætlunin að tryggja aðgang allra Íslendinga að heilsugæslulækni.

• Endurskoðun menntakerfisins hefur þegar leitt til þess að hægt var að hækka laun kennara í grunn- og framhaldsskólum umtalsvert.

• Þrátt fyrir þetta var skilað hallalausum fjárlögum í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Nýsköpun, uppbygging og byggðamál

• Ný byggðaáætlun mun jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

• Veiðigjaldinu var breytt til að hlífa minni og meðalstórum fyrirtækjum. Ljóst var að ef fylgt hefði verið gjaldtökuaðferðum fyrri ríkisstjórnar hefði mikill fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja um allt land komist í þrot og fótunum verið kippt undan byggð í mörgum. Um leið hefði aukin hagræðingarþörf valdið mikilli samþjöppun í greininni. Þrátt fyrir breytingarnar hefur sjávarútvegur aldrei skilað samfélaginu jafnmiklum tekjum og á síðasta ári og fjárfesting og vöruþróun hefur tekið við sér.

• Unnið hefur verið að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins með það að markmiði að hámarka tekjur samfélagsins af greininn um leið og rekstrarumhverfi er tryggt og grundvöllur sjávarbyggðanna er styrktur.

• Áhersla ríkissjórnarinnar á nýtingu tækifæra á norðurslóðum og gerð fríverslunarsamninga hefur þegar sannað gildi sitt. Eitt stærsta hafnafyrirtæki heims, Bremenports, hefur undirritað samning um rannsóknir í Finnafirði með það að markmiði að byggja þar nýja heimshöfn. Um allt norðanvert og austanvert landið er verið að undirbúa framkvæmdir til að nýta tækifæri komandi ára.

• Ráðist hefur verið í endurskoðun regluverks með það að markmiði að einfalda líf fólks, nýsköpun í atvinnulífinu og rekstur fyrirtækja.

• Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði 111 tillögum um hvernig spara mætti í ríkiskerfinu. Nú er unnið eftir þeim og öðrum hagræðingaráformum ríkisstjórnarinnar í öllum ráðuneytum.

• Samkeppnishæfni Íslands eykst nú hröðum skrefum. Í nýbirtri mælingu á samkeppnishæfni þjóða fór Ísland upp um 4 sæti.

• Rannsókna og nýsköpunarstarf mun stóreflast með nýsamþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og Vísinda- og tækniráðs. Þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu ríkisframlags til nýsköpunar og rannsókna (aukning upp á allt að 2,8 milljarða) og innleiðingu hvata fyrir atvinnulífið sem skila muni tvöfaldri þeirri upphæð til viðbótar. Með því kemst Ísland í hóp þeirra fáu ríkja sem verja yfir 3% af landsframleiðslu til vísinda og nýsköpunar.

Heimilin

• Fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru komin til framkvæmda. Búið er að ljúka öllum liðunum 10 í þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

• Sérfræðihópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað tillögum að því hvernig afnema megi verðtryggingu á nýjum neytendalánum og ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda áætluninni í framkvæmd.

• Skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur verið hrint í framkvæmd. Með því er komið til móts við fólk með stökkbreytt verðtryggð fasteignalán eftir fimm ára bið. Á síðasta kjörtímabili stóð til að skattleggja heimilin til að greiða skuldir gjaldþrota einkabanka. Nú er heimilunum hjálpað að takast á við skuldir sínar og á sama tíma greiða slitabú hinna föllnu banka loks skatt eins og eðlilegt er.

• Með skattleysi séreignasparnaðar gefst fólki tækifæri til að greiða lán sín niður enn meira. Þegar aðgerðirnar koma saman má gera ráð fyrir að fólk geti fært niður lán sín sem nemur allri verðbólgu umfram 2-3% á árunum í kringum hrun.

• Með tillögum að nýju húsnæðiskerfi er markmiðið að lækka húsnæðiskostnað heimilanna og auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Sérstök áhersla er lögð á að bæta stöðu leigjenda og húsnæðissamvinnufélaga, með bættri réttarstöðu, auknu framboði leiguhúsnæðis, skattalegum hvötum, hagkvæmari fjármögnun og þar með lægri leigu auk nýrra húsnæðisbóta sem komi í stað vaxtabóta og taki mið af tekjum en ekki búsetuformi til að auka jafnræði.

Sumar

Það er ákaflega ánægjulegt að geta sagt frá öllum þessum breytingum sem hafa orðið til batnaðar á síðustu tólf mánuðum. Þess má svo geta að bætt vinnubrögð í þinginu urðu til þess að stjórnarmeirihlutanum tókst að afgreiða óvenju mikinn fjölda mála á tilsettum tíma og aldrei hafa jafnmörg þingmannamál fengið afgreiðslu, þar á meðal mikill fjöldi stjórnarandstöðumála.

Við göngum því inn í sumarið ánægð með veturinn um leið og við búum okkur undir að gera enn betur á næsta ári og hlökkum til að fagna saman 70 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní. Ég óska landsmönnum öllum góðs og heilladrjúgs sumars.

 

 

12/31/13

Horfum bjartsýn til framtíðar

Áramót eru hrífandi tími, stund friðar með fjölskyldu og vinum þar sem tækifæri gefst til að líta yfir farinn veg, meta hvernig til hefur tekist, læra af mistökum jafnt sem sigrum, með þá ósk í brjósti að nýtt ár verði gæfuríkt.

Áramót gefa líka gott tækifæri til að velta því fyrir sér hvernig landsmálin hafa þróast og hvort hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur á vettvangi stjórnmálanna.

Það er og á að vera markmið stjórnmálamanna að vinna að því að veita þjóð sinni það öryggi og velferð sem allir þrá og þó að stjórnmálabarátta virðist oft illvíg þá er það engu að síður svo að flestir sem taka þátt í stjórnmálastarfi vinna að sameiginlegu markmiði. Því að auka hagsæld og hamingju þjóðarinnar.

Flestir geta verið sammála um að á Íslandi eigum við að stefna að því að reka heilbrigðiskerfi á við það sem best gerist í heiminum og að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Við viljum búa við menntakerfi sem við getum treyst til þess að veita börnum okkar, hverju og einu, menntun sem stenst samanburð við það sem best gerist í öðrum löndum. Öll viljum við búa við lagalegt öryggi þar sem réttur einstaklingsins er virtur án þess að skaða aðra og flest viljum við samfélag þar sem óskorað traust ríkir til löggæslu og dómstóla.

Margir velta því eðlilega fyrir sér hvers vegna mismunandi stjórnmálastefnur geti þá ekki lagfært það sem upp á vantar, án frekari umræðu, ef endamarkið er hið sama? Svo eru þeir til sem telja að litlu skipti hvaða stefna verður ofaná, engin þeirra sé til þess fallin að skila árangri. Slíkar vangaveltur eru eðlilegar en raunveruleikinn er engu að síður sá að þjóðfélag er flókið fyrirbæri þar sem óteljandi kraftar virka hver á annan. Fyrir vikið verða álitaefnin óteljandi líka.

Sagan sýnir hins vegar, svo ekki verður um villst, að það skiptir sköpum um velferð þjóða hvaða stjórnmálastefna ræður för. Öfgakennd stefna er iðulega boðuð með því að vísa til knýjandi þarfar til að ná góðum markmiðum. En pólitísk bókstafstrú hefur aldrei reynst vel til þess fallin að ná hinum góðu markmiðum. Þar reynast skynsemi og rökhyggja best. Stefna sem byggir jafnt og þétt upp þá innviði, áþreifanlega og óáþreifanlega, sem veita kröftum einstaklinganna og þjóðarinnar bestan farveg.

Stefna sem nýtir það afl sem liggur í framtakssemi og hugkvæmni einstaklinganna en einnig þá miklu verðmætasköpun sem leiðir af samvinnu þeirra og hámarkar með því ávinning samfélagsins alls. Samfélags þar sem öll hin ólíku störf skipta máli. Það er undirstaða framfara.

Þegar vandamálin sem samfélag stendur frammi fyrir eru óhefðbundin getur þurft að fara óhefðbundnar leiðir til að leysa þau og þegar vandinn er stór getur það kallað á róttækar lausnir. Í slíkum tilvikum getur hið róttæka verið hið rökrétta og skynsamlega.

Ný ríkisstjórn vinnur eftir þessu.

Fyrstu mánuðirnir eftir kosningar voru nýttir til að koma á stöðugleika og undirbúa skynsamlegar og rökréttar aðgerðir. Við erfiðar aðstæður í rekstri ríkisins hefur verið forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og annarra velferðarmála en um leið er unnið að því að skapa skilyrði sem geta af sér aukna verðmætasköpun, fleiri störf og betri kjör. Árangurinn er þegar farinn að koma í ljós þótt mikið verk sé enn óunnið. Á síðustu mánuðum ársins 2013 jókst hagvöxtur verulega, meðal annars með aukinni fjárfestingu sem mun skila sér í aukinni verðmætasköpun til framtíðar.

Um leið er ríkið hætt að safna skuldum svo að á næstu árum verður hægt að fjárfesta í auknum mæli á öllum þeim fjölmörgu sviðum sem gefa lífinu í þessu landi gildi.

Skuldafargið sem haldið hefur aftur af íslenskum heimilum og þar með samfélaginu öllu í mörg ár kallaði á umfangsmiklar aðgerðir. Í því tilviki var róttæk lausn skynsamleg og nauðsynleg.

Nú liggur fyrir að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður sem nemur öllum þeim verðbótum sem talist gátu ófyrirséðar á árunum í kringum bankahrunið. Auk þess munu skattaafsláttur og önnur úrræði nýtast til að létta enn frekar á skuldum heimilanna, skuldum sem hafa staðið efnahagslegum framförum fyrir þrifum.

Takist svo að auka kaupmátt launa samhliða aðgerðum til að draga úr skuldavandanum mun staða íslenskra heimila taka stakkaskiptum til hins betra. Við sjáum nú að full ástæða er til að ætla að sú geti orðið raunin.

Kjarasamningar sem voru undirritaðir í lok ársins voru hugsaðir sem grundvöllur stöðugleika svo að hægt yrði að auka kaupmátt og bæta lífskjör jafnt og þétt næstu árin. Það þurfa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að gera í sameiningu og í þeirri vinnu þarf að huga sérstaklega að kjörum þeirra lægstlaunuðu og því að millitekjuhópar njóti ávinningsins af betri tíð eftir þær miklu fórnir sem sá hópur var látinn færa á síðast liðnum árum.

Að þessu sinni gefa áramótin okkur Íslendingum tilefni til að vera bjartsýn.

Ísland er sannarlega land tækifæranna, hvort sem litið er til þróunarinnar á norðurslóðum, gríðarmikilla og verðmætra auðlinda eða sterkra innviða og samfélagsgerðar sem er til þess fallin að skapa verðmæti á nánast öllum sviðum.

Okkar bíður það verkefni að tryggja annars vegar að það takist að nýta tækifærin og hins vegar að afraksturinn gagnist samfélaginu öllu. Það ætti að vera okkur góð hvatning í þeim efnum að þetta tvennt fer jafnan vel saman. Þjóðskipulag sem stuðlar að jafnræði og almennri velferð er best til þess fallið að nýta tækifærin og skapa verðmætin sem standa undir velferðinni.

Við Íslendingar eigum að baki óvenjulega tíma. En eins og Sveinn Björnsson, forseti, sagði í innsetningarávarpi sínu árið 1945 þá er mannlífið sem betur fer svo „auðugt að tilbrigðum, að ekkert er til sem mætti nefna „venjulega tíma“. Ýmsir eru bölsýnir á það sem framundan er, aðrir bjartsýnir.“ Forsetinn benti svo á að við fáum ekki varðveitt trúna á land og þjóð nema nokkurrar bjartsýni gæti. Það að hafa trú á landi og þjóð er svo forsenda þess að bjartsýnin eigi rétt á sér.

Sá sem ekki hefur trú á sjálfum sé nær ekki árangri og það sama á við um samfélögin sem einstaklingarnir mynda. Þjóð verður að trúa á sjálfa sig og að hægt sé að gera hlutina öðruvísi og betur.

Við Íslendingar höfum fulla ástæðu til að hafa trú á landið og þjóðina og vera bjartsýn á framtíðina við áramótin sem nú ganga í garð.

Kæru landsmenn, ég óska ykkur öllum gleðilegs árs, farsældar og friðar á nýju ári.

03/14/12

Olía

Norðmenn ráða yfir gríðarmiklum olíu- og gasauðlindum. Engu að síður sáu Norðmenn ástæðu til að fagna í nóvember síðastliðnum þegar birtar voru niðurstöður olíu- og gasrannsókna á Jan Mayen hryggnum. Olíumálastofnun Noregs, sem kippir sér ekki upp við hvað sem er, gaf út tilkynningu um óvæntar og spennandi niðurstöður.  Fyrir nokkrum dögum upplýsti svo Orkustofnun að rannsóknir olíuleitarfélaganna TGS og VBPR hefðu staðfest að olíu væri að finna á Drekasvæðinu. Það eru góðar vonir um að olía eða gas séu þar í vinnanlegu magni.

Eins og Stöð 2 greindi frá á sínum tíma telur Terje Hagevang, helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen hrygginn, að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og finnast í Noregshafi. Norðmenn hafa þegar leigt borskip til að framkvæma rannsóknarboranir við Jan Mayen þarnæsta sumar en samkvæmt rannsóknum Sagex olíufélagsins frá 2006 er megnið af þeim svæðum sem líklegust eru til að geyma olíu- og gaslindir innan íslenskrar lögsögu.

Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. En ef þetta gefur Íslendingum ekki tilefni til að vera bjartsýnir er slíkt tilefni vandfundið.

Continue reading

01/20/12

Landsdómur

Eftir atkvæðagreiðslu á Alþingi var höfðað mál fyrir landsdómi á hendur einum ráðherra, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Sú niðurstaða var í samræmi við vilja einungis 2 af 63 þingmönnum. Niðurstaðan var því annað hvort tilviljanakennd eða þaulskipulögð af hálfu þingmanna sem greiddu atkvæði sitt á hvað svo að niðurstaðan yrði sú að aðeins pólitískur andstæðingur þeirra yrði ákærður. Meirihluti þingmannanefndar sem skipuð var til að meta viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lagði til að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Enginn nefndarmanna lagði til að Geir H. Haarde yrði einn ákærður.

Í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag fór Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, ágætlega yfir að ákvörðun um málsókn mætti ekki ráðast af tilviljun eða einhverju öðru en því að líkur standi til sakfellingar fyrir lögbrot þar sem eitt er látið yfir alla ganga. Í sama blaði birtist grein eftir Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, þar sem hann færir rök fyrir því að það hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu um landsdómsmálið hefði breytt eðli málsins. Það hefði tekið á sig „afskræmda flokkspólitíska mynd”. Ég er sammála mati prófessorsins og ráðherrans.

Continue reading