07/19/12

Ríkisfjármálin: Ríkisstjórnin setur Evrópumet í skekkju.

Nú hefur komið í ljós að halli á rekstri ríkisins árið 2011 var tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir í nýlegri áætlun. Ath! Hér er ekki um að ræða muninn á fjárlögum og raunveruleikanum heldur muninn á því sem áætlað var eftir árið 2011 og raunveruleikanum.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 átti hallinn á rekstri ríkissjóðs að vera 36,4 milljarðar. Eftir árið komst fjármálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að hallinn hefði í raun verið 10 milljörðum hærri, eða 46,4 milljarðar. En nú hefur komið í ljós að hallinn var 89,4 milljarðar, semsagt 63 milljörðum meiri en kynnt var í fjárlögum. Það er 173% umfram áætlun. Það hlýtur að vera Evrópumet í skekkju í rekstri ríkis á síðasta ári.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin kynnir fjárlög og svo áætlun sem reynist vera algjörlega út úr kortinu. Það virðist vera orðin regla frekar en undantekning.

Gert var ráð fyrir 87,4 milljarða halla á fjárlögum ársins 2010. Þegar fjárlögin 2011 voru kynnt upplýsti fjármálaráðherra um að hallinn 2010 yrði líklega ekki nema 74,5 milljarðar (vegna þess að ríkið reiknaði sér hagnað af svo kölluðum Avens-samningi). Áætlunin var svo aftur kominn upp í 82 milljarða skömmu síðar og þegar ríkisreikningur birtist reyndist raunverulegur halli ársins 2010 vera 123,3 milljarðar!

 

Continue reading

06/4/12

Pöntuð heimsendaspá um skuldaleiðréttingu. Muna menn heimsendaspárnar um Icesave?

Nú hefur ríkisstjórnin látið skrifa fyrir sig enn eina skýrsluna um skuldaleiðréttingu og enn á ný á sömu forsendum. Til að vera viss um að fá sömu niðurstöðu og áður voru m.a. sömu aðilar og skiluðu sams konar skýrslu fyrir nokkrum mánuðum fengnir í verkið.

Enn sem fyrr er einkum litið á aðra hlið málsins og ekkert mat lagt á hvað það kostar samfélagið að ráðast EKKI í aðgerðir vegna skuldavandans. Jafnframt er í meginniðurstöðum gert ráð fyrir að allt myndi innheimtast upp í topp þótt skuldir yrðu ekki lækkaðar og gert ráð fyrir að ríkið tæki allan kostnaðinn á sig.

Þess er að vísu getið í skýrslunni að eins og sakir standi sé ólíklegt að allt myndi innheimtast og því sé kostnaðurinn ofáætlaður. Það er hins vegar ekki gert meira með þá staðreynd og hennar hefur hvergi verið getið í fréttum.

Continue reading

05/7/12

Kostnaðurinn af skaðlegri ríkisstjórn

Þekkt er úr sögunni að röng viðbrögð við efnahagskrísu valda oft meira efnahagstjóni en krísan sjálf. Ýmsir bentu Íslendingum á þessa hættu fljótlega eftir fall bankanna.

Ég benti nýverið á að stefna ríkisstjórnarinnar og viðbrögð hennar við falli bankanna hefðu valdið samfélaginu meira tjóni en bankahrunið sjálft. Það varð til þess að blogglúðrasveit og netdólgar ríkisstjórnarflokkanna hrukku af hjörunum. Annar eins fúkyrðaflaumur hefur líklega ekki komið úr þeirri átt frá því að ég tók upp á því að tjá mig um mikilvægi þess að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu, snemma árs 2009.

Það staðfestir að maður hafi hitt naglann á höfuðið í pólitískri gagnrýni þegar andstæðingarnir eiga ekki önnur svör en að ryðja úr sér persónulegum svívirðingum. Einhverjir hættu sér þó út í tölfræði og töldu að fráleitt væri að ætla að ríkisstjórnin hefði valdið jafnmiklum skaða og 8.000 milljarða tapi fjármálakerfisins af efnahagshruninu.

Eftir á að hyggja hefði ég átt að búast við því að stjórnarliðar hefðu ekki síður áhyggjur af tapi Deutsche Bank og annarra erlendra kröfuhafa en tapi íslensks almennings. Öll stefna ríkisstjórnarinnar hefur gefið það til kynna. Það er því rétt að árétta að þegar ég segi að ríkisstjórnin hafi valdið meira tjóni en bankahrunið þá er ég að tala um áhrifin á íslenskt samfélag.

Continue reading

02/15/12

Hæstiréttur dæmir ríkisstjórn – enn á ný

Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Frjálsa fjárfestingarbankanum hefði ekki verið heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta. Það á eftir að koma í ljós hversu víðtæk áhrif þetta hefur á banka og fjármögnunarfyrirtæki.

Það er ekki óvarlegt áætla að heildartalan fari a.m.k. vel yfir 100 milljarða. Það jákvæða er að fjárhagsstaða heimila sem eru með gengistryggð lán mun batna þar sem þau munu væntanlega fá endurgreiðslur á ofgreiddum vöxtum. Hins vegar eykur þetta enn á misvægi milli þeirra annars vegar og svo hinna sem glíma við verðtryggð lán og hafa litla leiðréttingu fengið.

Á sínum tíma vöru Framsóknarmenn mjög við því að gengisbundnu lánin yrðu færð yfir í nýju bankana á meðan veruleg óvissa væri um lögmæti þeirra. Það var gert engu að síður og nú er því haldið fram, m.a. með skýrslu Hagfræðistofnunar, að afskriftasvigrúm bankanna hafi að mestu verið nýtt í tapið sem bankarnir urðu fyrir vegna gengisbundnu lánanna.

Continue reading

10/3/11

Er eitthvað að marka stefnuræðu forsætisráðherra?

Í kvöld flytur Jóhanna Sigurðardóttir stefnuræðu sína. Flestir muna hvernig ástandið var á Austurvelli við sama tilefni fyrir ári síðan. Í ljósi fjöldamótmæla gat ríkisstjórnin ekki annað en brugðist við. Yfirlýsingar voru gefnar um að tekið yrði mynduglega á skuldum heimilanna. Skipuð var nefnd. Niðurstaðan var ekki almenn leiðrétting skulda heldur að búin yrðu til flókin, sértæk úrræði. Reynslan sýnir að fáir hafa getað nýtt sér úrræðin, þau hafa skilað litlu og að fólki er mismunað eftir því við hvaða banka eða lánastofnun það hefur viðskipti.

Hver verða skilaboð forsætisráðherra til þjóðarinnar í kvöld?
Það er því miður ekki flókið að spá fyrir um málflutning forsætisráðherra í kvöld. Hún mun tala um hversu hratt og vel hefur gengið að endurreisa íslenskt efnahagslíf og að á Íslandi hafi mælst næstmesti hagvöxtur OECD ríkja á 2. ársfjórðungi 2011. Að auki má búast við endurteknu efni; að ríkisstjórnin hafi lagt grunn að 7.000 störfum sem verði til „á næstu misserum“; að verðbólga hafi lækkað og að slakað hafi verið á heljargreipum verðtryggingarinnar með því að bjóða upp á óverðtryggð lán hjá bönkum og Íbúðalánasjóði; að 150 milljarðar hafi verið afskrifaðir af skuldum heimilanna og að „allir hafi fengið eitthvað“ eins hún orðaði það í Kastljósi. Að lokum er ekki ólíklegt að forsætisráðherra hreyki sér af því að árangur ríkisstjórnarinnar veki nú alþjóðlega athygli.

Continue reading