03/7/13

Samráð víkur fyrir ofstopa og ósannindum öfgamanna

Nú á allra síðustu dögum þingsins fyrir kosningar eru forystumenn stjórnarflokkanna farnir að tala um mikilvægi samráðs og sátta. Vonandi er sá vilji einlægur. Hann kemur hins vegar að litlum notum ef aðrir þingmenn stjórnarliðsins reyna á sama tíma hvað þeir geta til að efna til illdeilna.

Til að bregðast við ákallinu um samstöðu lagði þingflokkur framsóknarmanna fram tillögu sem ætlað var að miðla málum, tryggja að framhald yrði á endurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili og nýta þá fáu daga sem eftir eru af þingstörfum til að ná loksins ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign inn í stjórnarskrána.

Vandinn og lausnin

Nýtt frumvarp þarf að fara í gegnum þrjár umræður í þinginu og til umfjöllunar í nefnd á milli umræðna. Nefndirnar leita svo álits hjá sérfræðingum og öðrum þeim sem málið varðar. Þegar mál eru umdeild tekur þetta langan tíma. Það segir sig því sjálft að ef menn ætla að klára stór mál á fáeinum dögum þurfa þau að vera tiltölulega óumdeild og vel unnin.

Af þeim sökum lögðum við til að notast yrði við tillögu Auðlindanefndarinnar svo kölluðu að auðlindaákvæði. Auðlindanefndin var þverpólitísk nefnd skipuð fulltrúum flokkanna og sérfræðingum. Við lögðum tillögu nefndarinnar fram óbreytta og bættum við hana einni setningu til að tryggja að vald yfir auðlindunum flyttist ekki úr landi.

Öllu snúið á haus

Nokkrir þingmenn Vinstri grænna brugðust við tillögunni með því að snúa innihaldi hennar á haus, skrökva til um hvað í tillögunni fælist og ráðast svo af ótrúlegum ofstopa á eigin ósannindi.

Látið var eins og orðalagið væri uppfinning framsóknarmanna og að í tillögunni fælist einhvers konar einkavæðing náttúruauðlinda. Því var m.a. haldið fram að tillagan fæli það í sér að nýting auðlinda  skapaði eignarrétt á þeim. Þetta eru ekki aðeins ósannindi heldur var áhrifum ákvæðisins gjörsamlega snúið á haus.

Sannleikurinn

Í tillögunni segir meðal annars:

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af

hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar

á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin

eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið

í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Það er beinlínis tekið fram að ólíkt því sem þau vinstri grænu héldu fram skapar nýtingin EKKI eignarrétt. Þegar búið er greiða gjald fyrir heimild til að nýta auðlind nýtur hins vegar  heimildin sem greitt var fyrir verndar en þó aðeins sem óbein eignarréttindi. Jafnframt er áréttað að heimildin sé tímabundin og henni megi breyta.

Áréttað er að heimildin njóti verndar m.a. til að hámarka þær tekjur sem þjóðin getur haft af auðlindinni enda vilja þeir sem hafa áhuga á að kaupa nýtingarrétt varla greiða hátt gjald ef heimildin sem þeir greiða fyrir nýtur engrar verndar.

Óbein eignarréttindi vegna heimildarinnar eru sambærileg því að þegar einhver leigir íbúð eða hús nýtur viðkomandi ákveðinna réttinda. Það myndu varla margir fást til að borga leigu fyrirfram ef heimild þeirra til að búa í húsinu nyti engrar verndar.

Hvort ætli menn séu reiðubúnir að borga meira fyrir að veiða tonn af fiski ef a) réttur þeirra til að veiða fiskin sem greitt hefur verið fyrir nýtur verndar eða b) heimildin nýtur engrar verndar.

Semsagt, tilgangurinn með ákvæðinu er að hámarka það sem samfélagið fær fyrir auðlindirnar.

Það að tala sérstaklega um að heimildin njóti óbeinna eignarréttinda en ekki eiginlegra eignarréttinda er hins vegar íþyngjandi fyrir þann sem greiðir fyrir nýtingarréttinn frekar en hitt. Ef það væri ekki tekið sérstaklega fram gætu einhverjir litið svo á að heimildin nyti beins eignarréttar. Hugtakið er útskýrt í bók Þorgeirs Örlygssonar, Kaflar úr eignarrétti I.

Sigmundur Ingi Sigurðsson tók skilgreiningu Þorgeirs saman í BA ritgerð sinni  (feitletrun mín):

„Óbein eignarréttindi – takmarkanir beins eignarréttar

Þegar rætt er um takmörkuð eignarréttindi er átt við að rétthafi njóti eingöngu tiltekinna og afmarkaðra eignarheimilda en ekki sömu heimilda og eigandi hins beina eignarréttar. Sá, sem hefur takmörkuð réttindi, hefur því hlutdeild í víðtækari rétti annars manns, þ.e. beinum eignarrétti eignandans. Óbeinan eignarrétt er hægt að skilgreina með jákvæðum hætti gagnvart eiganda eignar þar sem takmörkuð eignarréttindi fela aðeins í sér heimildir til tiltekinna og afmarkaðra umráða eða ráðstafana.“

Niðurstaðan

Hver er þá niðurstaðan um orðalagið, sem fulltrúar Vinstri grænna hafa notað til að ráðast af óbilgirni á framsóknarmenn, reyna að rægja þá og sverta og grafa undan tilraun þeirra til að miðla málum?  Niðurstaðan er sú að orðalagið er þess ætlað að hámarka hag þjóðarinnar og árétta að eignarrétturinn haldist ávallt hjá henni.

Hér var um að ræða málefnalega tillögu, byggða á þverpólitísku samstarfi þar sem sérfræðingar leituðust við að finna bestu leiðina til að verja rétt almennings. Þegar viðbrögðin við slíkri tillögu eru þau að ráðast með lygum og ofstopa að þeim sem leggja hana fram bendir það ekki til þess að mikið hafi verið að marka tal hinna sömu um samvinnu og ný og betri vinnubrögð.

Það er slæmt ef þingstörfum á að ljúka með orðhengilshætti, innihaldslausum frösum og tilraunum til að sverta pólitíska andstæðinga. Vonandi er þetta ekki til marks um þá pólitík sem Vinstri græn ætla að reka undir nýrri forystu.

12/14/12

Olía

Það er ánægjulegt að sjá að forsetinn skuli vera farinn að láta til sín taka í olíumálum fyrst ríkisstjórnin hefur vanrækt þau að mestu allt kjörtímabilið. Endurbirti til gamans grein sem ég skrifaði um málið á sínum tíma:

Norðmenn ráða yfir gríðarmiklum olíu- og gasauðlindum. Engu að síður sáu Norðmenn ástæðu til að fagna í nóvember síðastliðnum þegar birtar voru niðurstöður olíu- og gasrannsókna á Jan Mayen hryggnum. Olíumálastofnun Noregs, sem kippir sér ekki upp við hvað sem er, gaf út tilkynningu um óvæntar og spennandi niðurstöður.  Fyrir nokkrum dögum upplýsti svo Orkustofnun að rannsóknir olíuleitarfélaganna TGS og VBPR hefðu staðfest að olíu væri að finna á Drekasvæðinu. Það eru góðar vonir um að olía eða gas séu þar í vinnanlegu magni.

Eins og Stöð 2 greindi frá á sínum tíma telur Terje Hagevang, helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen hrygginn, að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og finnast í Noregshafi. Norðmenn hafa þegar leigt borskip til að framkvæma rannsóknarboranir við Jan Mayen þarnæsta sumar en samkvæmt rannsóknum Sagex olíufélagsins frá 2006 er megnið af þeim svæðum sem líklegust eru til að geyma olíu- og gaslindir innan íslenskrar lögsögu.

Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. En ef þetta gefur Íslendingum ekki tilefni til að vera bjartsýnir er slíkt tilefni vandfundið.

Aðstæður

Margt hefur breyst frá því að fyrst kviknuðu vonir um að olía og gas kynnu að leynast á Drekasvæðinu. Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega. Nú er því hafin nýting á olíulindum sem áður töldust ekki hagkvæmar. Tækniframfarir á undanförnum árum hafa auk þess gert olíuvinnslu á miklu dýpi mun vænlegri en áður.

Samkvæmt útboðslýsingu Orkustofnunar vegna olíuleitar á Drekasvæðinu er hafdýpi yfir áhugaverðum leitarsvæðum yfirleitt á bilinu 1.000 til 1.500 metrar (Sagex 2006). Slíkt dýpi er ekki vandamál. Það þyrfti að nota fljótandi borpall en botnfastir borpallar teljast hvort eð er ekki hagkvæmir ef dýpi fer mikið yfir 120 metra. Fljótandi borpallar eru því algengir. Þeir hafa auk þess þann kost að vera færanlegir. Fimmta kynslóð færanlegra flotpalla, sem varð til árið 1998, nýtist til borunar á yfir 2.500 metra dýpi og sjötta kynslóð er hönnuð fyrir meira en 3.000 metra dýpi. Borskip geta svo borað á allt að 3.700 metra dýpi.

Hafdýpi segir auk þess ekki alla söguna. Við samanburð á borholum er litið til þess hversu langt er niður að lindinni. Í því sambandi er dýpið á Drekasvæðinu minna en víða annars staðar.

Og þótt veður geti verið válind suður af Jan Mayen eru aðstæður víða miklum mun verri. Á Norðursjó er veðurfar mjög erfitt. Raunar er ölduhæð á Drekasvæðinu almennt mun minni en við Noreg og á Mexíkóflóa ganga reglulega yfir gríðarlega öflugir fellibyljir. Þar eru yfir 4.000 borpallar.

Hvenær?

Norðmenn boruðu fyrst eftir olíu sumarið 1966 án árangurs. Sumarið 1969 fannst svo risaolíulind sem hlaut nafnið Ekofisk. 1971 var farið að dæla olíu beint í skip og tveimur árum síðar, þegar búið var að koma upp olíugeymi, skilaði lindin stórum hluta gjaldeyristekna landsins.

Frá 1969 hafa orðið gríðarlegar framfarir við leit og vinnslu. Jarðlög eru kortlögð með tvívíðum, þrívíðum og fjórvíðum hljóðbylgjumælingum. Nú er hægt að leigja borpalla á borð við Eirík rauða og Leif Eiríksson sem sigla um allan heim og gata hafsbotninn á allt að 3.000 metra dýpi. Hinn víðförli Leifur hefur á undanförnum árum m.a. borað við Noreg, Angóla, Tyrkland og Grænland. E.t.v. er tímabært að Leifur skili sér heim til Íslands.

Þótt fyrr hefði verið

Rannsóknir TGS og VBPR, sem getið var um í upphafi, voru unnar að frumkvæði fyrirtækjanna sjálfra en vísindamennirnir voru á leið til Grænlands og fengu leyfi til að kanna Drekann í leiðinni. Orkustofnun bendir á að hinar jákvæðu niðurstöður berist seint fyrir útboð sérleyfa sem nú stendur yfir og lýkur 2. apríl.

Það er áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki hafa undirbúið útboðið með því að láta vinna rannsóknir í tæka tíð. Fyrir tveimur árum fór ég í fundaferð um landið og benti á mikilvægi þess að ráðast í slíkar rannsóknir sem fyrst. Hvernig sem útboðið á Drekasvæðinu fer er mikilvægt að Orkustofnun fái öflugan stuðning og hvatningu stjórnvalda vegna olíuleitar.

Ríkisolíufélag

Stofnun ríkisolíufélags hefði ýmsa kosti. Halldór Þorkelsson sérfræðingur hjá PWC hefur bent á að stofnun slíks félags sé til þess fallin að laða að fjárfesta en jafnframt er æskilegt að byggja upp þekkingu á olíumálum í landinu. Slík þekking gæti orðið mjög verðmæt jafnvel þótt við yrðum óheppin með Drekasvæðið, t.d. ef af vinnslu yrði við Grænland og Færeyjar (eða annars staðar við Ísland).

Hjá Orkustofnun og í iðnaðarráðuneytinu var á sínum tíma hugað að stofnun ríkisolíufélags og fyrir fáeinum árum samþykktu fulltrúar allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi, nema Vg, heimild til stofnunar slíks félags samhliða áformum um fyrsta Drekaútboðið. Æskilegt væri að útvíkka þá heimild enda var aðeins gert ráð fyrir félagi til að halda utan um vinnsluleyfi.

Ráðstafanir

Nauðsynlegt er að tryggja að þjóðin öll njóti góðs af því ef olía og gas finnast í íslenskri lögsögu. Ríkisolíufélag er liður í því. En einnig væri skynsamlegt að undirbúa hvernig farið yrði með hugsanlegan ávinning af olíu- og gasvinnslu. Það er kostur að setja slíkar reglur án þess þrýstings sem getur myndast á síðari stigum. Þar mætti einnig líta til Noregs þ.a. byggður verði upp sjóður sem háður yrði takmörkunum til að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist til að eyða óhóflega og skapa þenslu. Þó ætti að sjálfsögðu að nýta ávinninginn til að bæta kjör landsmanna. Greiða undirstöðustéttum opinberra starfsmanna almennileg laun o.s.frv.

Áhrif

Okkur liggur á. Ef það finnast vinnanlegar olíu- eða gaslindir í íslenskri lögsögu hefði það samdægurs mikil áhrif á hag landsmanna. Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Það leyfir strax meiri útgjöld en ella, gerir Íbúðalánasjóði kleift að veita óverðtryggð lán á lágum vöxtum og leysa skuldavandann. Hægt yrði að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar.

Norðursjávarolía og gas bjargaði á sínum tíma efnahag Bretlands og gerði Noreg að einu ríkasta landi heims. Smæð þjóðarinnar er kostur því að brot af þeim kolefnisauðlindum sem grannþjóðir okkar hafa yfir að ráða gerir sama gagn fyrir Íslendinga.

Í því efnahagslega gjörningaveðri sem mun ríða yfir heiminn á næstu árum myndi slík viðbót við þær auðlindir sem Íslendingar eiga nú þegar tryggja velferð til framtíðar.

Verum skynsöm og varfærin en leyfum okkur líka að vera bjartsýn. Það er fullt tilefni til þess.

11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

02/9/11
41796_133519320397_9851_n

Fólkið fer og fyrirtækin líka.

Ísland hefur ótrúleg tækifæri þrátt fyrir tímabundnu erfiðleika sem við erum í núna. Við þurfum ekki annað en að líta á þau grundvallaratriði að við eigum líklega meiri auðlindir á mann heldur en nokkur önnur þjóð, innviðir ríkisins eru mjög sterkir, við höfum mikla framleiðslugetu og þjóðin er mjög vel menntuð.

En það er ekki nóg að hafa þetta allt til staðar. Við verðum að búa til eðlilegt fyrirkomulag sem hvetur til þess að það verði til verðmæti til úr þessu. Ef það er gert þá þurfa Íslendingar ekki að kvíða framtíðinni.

Okkar vandamál í dag er að það er verið að fara í öfuga átt á nánast öllum sviðum. Skattkerfið hvetur ekki til vinnu heldur letur og fólkið flýr úr landinu því að fyrirtækjunum eru ekki skapaðar aðstæður eða hvati til að veita þeim atvinnu. Sífelldar skattahækkanir og skattabreytingar ríkisstjórnarinnar vinna beint gegn heimilunum og fyrirtækjum.

Tekjuskattur lögaðila hefur verið hækkaður um þriðjung, úr 15% í 20%. Tryggingagjald var hækkað úr rúmum 5% upp í hátt í 9%. Fjármagnstekjuskattur einstaklinga var tvöfaldaður, úr 10% í 20%. Þrepaskipting tekjuskatts var tekin upp að nýju og skatthlutfall einstaklinga miðað við hæsta þrep hækkað úr 37,3% í 46,2%. Eignarskattur var tekinn upp að nýju, virðisaukaskattur, sem var hár fyrir, var hækkaður upp í 25,5% – er kominn yfir fjórðung.

Svo bætast ofan á þetta ítrekaðar hækkanir á bensíngjaldi, áfengisgjaldi, tóbaksgjaldi, vörugjöldum o.fl. sem leggjast beint á heimilin í landinu. Afleiðingin er að fólk hefur sífellt minna fé milli handanna til að kaupa sér sífellt dýrari vörur og þjónustu. Þetta er stórhættulegt því að þegar hækkanirnar fara yfir ákveðin mörk dregur úr umsvifum í efnahagslífinu einmitt þegar við þurfum að auka þau.

Staðan er því miður augljóslega þessi: Það er ekki verið að nýta þau tækifæri sem liggja fyrir fótum okkar til að skapa hér verðmæti, heldur er verið að fara í þveröfuga átt. Öllum hvötum sem ríkið gæti veitt atvinnulífinu og heimilunum er snúið á haus í skattastefnu þessarar ríkisstjórnar. Og afleiðingin er sú, sem þegar er staðreynd, að fyrirtækin fara, fólkið fer og innviðirnir bresta.