(Við)snúningurinn

Það var búið að setja saman og hrinda í framkvæmd áætlun um haftalosun sem fól m.a. í sér að kröfuhafar bankanna skiluðu hundruðum milljarða í ríkissjóð. Samhliða því og í framhaldinu stóð til að ráðast í endurskipulagningu fjármálakerfisins. Haftalosunarferlið bæði bjó til það tækifæri og kallaði á að það yrði nýtt.

Þegar ég svo steig til hliðar sem forsætisráðherra á meðan mál væru að skýrast gekk það gegn öllu því sem ég taldi rétt og sanngjarnt en ég gerði það, eins og ég lýsti á sínum tíma, til þess að ríkisstjórnin gæti einbeitt sér að því að klára þá mikilvægu vinnu sem eftir var við haftalosunina og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Það gerði ég í trausti þess að þeir sem við tóku stæðu við sitt og ókláruð mál ríkisstjórnarinnar yrðu leidd til lykta.
Framkvæmdahópurinn hafði skilað sínu með glæsibrag og haftalosunarvinnan kláraðist en lítið gerðist af því sem pólitíkin þurfti að klára í framhaldinu eins og ég hef bent á alloft undanfarið ár.

Leikið lausum hala
Nú eru stjórnvöld að missa atburðarásina úr höndunum og vogunarsjóðir gera það sem þeim þykir best, leika lausum hala. Þeir eru nú að selja sjálfum sér Arion banka í tilraun til að auka enn ávinning sinn af þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland lenti í. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun munu þessir aðilar þá eiga bent og óbeint um 2/3 hluta bankans.
Auðvitað er ekki hægt að setja út á að fjárfestar hagnist á sanngjörnum viðskiptum. Fullvalda ríki getur hins vegar ekki sætt sig við að slíkir aðilar nái sínu fram með því að skipta sér af stjórnmálum og reyna eftir ýmsum leiðum að þvinga fram niðurstöðu sem hentar þeim.

Planið
Með stöðugleikaframlögunum þurftu vogunarsjóðirnir að fallast á að afhenda ýmsar eignir. Með því tóku þeir þátt í að skapa aðstæður svo losa mætti höft. Íslandsbanki var afhentur ríkinu í heild og samið um að ef Arion banki yrði seldur fengi ríkið megnið af söluandvirðinu. Því hærra sem verðið yrði þeim mun hærra yrði hlutfall ríkisins af hagnaðinum.

Hærra verð fól þannig í sér tvöfaldan ávinning fyrir ríkið. Þannig höfðu eigendur bankans þó engu að síður hag af því að fara vel með hann og hvata til að selja hann á sem hæstu verði. Til öryggis var svo sett inn trygging fyrir því að bankinn yrði ekki seldur of ódýrt. Hún var sú að ef verðið yrði lægra en sem næmi 80% af eigin fé bankans (0,8 á krónu eiginfjár) ætti ríkið forkaupsrétt. Ef bankinn yrði enn óseldur árið 2018 gat ríkið svo leyst hann til sín

Þannig voru hagsmunir ríkisins tryggðir hvernig sem hlutirnir kæmi til með að velkjast og sama hvort það finndust kaupendur og hverjir þeir yrðu …svo framarlega sem vogunarsjóðirnir seldu ekki sjálfum sér bankann.

Að selja sjálfum sér banka
Slíkt var óraunhæft á sínum tíma. slitabúin gátu ekki selt bankana nema með velvild stjórnvalda og reglur um eignarhald voru eitt af stóru málunum sem leysa átti úr við endurskipulagningu fjármálakerfisins. -Vinnu sem svo stöðvaðist með þeim afleiðingum sem við horfum nú upp á.

Ýmsum þykir verðið sem greitt er fyrir Arion banka lágt og það vekur athygli að verðið er aðeins 0,01 yfir því verði sem myndi virkja forkaupsrétt ríkisins. Ef þau 87% í Arion banka sem ekki eru í eigu ríkisins verða seld á sem nemur 0,81 krónu á hverja krónu eigin fjár koma rúmir 100 milljarðar í hlut ríkisins. Skuld upp á 84 milljarða verður gerð upp og í ofanálag fær ríkið 16,8 milljarða vegna hagnaðar af sölunni.

Ef hins vegar hefði verið selt á verðinu 1,2 kæmu 152,7 milljarðar í hlut ríkisins og miðað við gengið 1,5, væru það 194 milljarðar. Ef við teljum 20% álag á eigið fé eðlilegt verð (1,2) fengi ríkið því um 52 milljörðum meira í sinn hlut en það fær fyrir það verð sem vogunarsjóðirnir styðjast við þegar þeir selja sjálfum sér bankann. Þeir geta svo selt hann aftur á hærra verði eða leyst hann upp án þess að láta ríkið hafa sinn skerf.

Fleira kann að búa að baki þessari sölu sem kemur í beinu framhaldi af samningi um kaup á aflandskrónum og losun hafta en það er auðvelt að sjá hvernig aðeins þetta atriði getur munað eins og einum spítala fyrir ríkissjóð Íslands.

One comment

Comments are closed.