Upphlaup vegna forseta

Furðulegt hvað sumir þingmenn láta það alltaf fara í taugarnar á sér þegar forsetinn heldur uppi vörnum fyrir Ísland. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar var ósátt við gagnrýnina á flokksbróður sinn, Gordon Brown, og vill fá nýtt ákvæði í stjórnarskrá til að þagga niður í forsetanum. 
Formaður utanríkismálanefndar sakar hann um að segja ósatt um áhrif EFTA-dómstólsins. En þegar forsetinn talaði um að dómurinn yrði ekki bindandi var hann að svara spurningum um mögulegt fjárhagstjón og það er rétt að dómurinn mun ekki fela í sér tilteknar skaðabætur.

Ástæðan fyrir því að Ólafur Ragnar hefur tekið að sér að verja málstað Íslands er sú að ríkisstjórnin hefur vanrækt það hlutverk sitt. 
Nú er hvað eftir annað vitnað í fráleitt mat AGS á hugsanlegum áhrifum dómsins og lánshæfismatsfyrirtækin byggja á því í mati sínu. En hvaðan fékk AGS upplýsingarnar?: Frá íslenskum stjórnvöldum, þeim hinum sömu og gagnrýna Ólaf Ragnar þegar hann bendir á staðreyndir.