Um starf og stefnu ríkisstjórnarinnar

Smellið hér til að horfa á ræðuna.

Virðulegi forseti.

Ég óska frú forseta og þingmönnum öllum gleðilegs árs. Umræðuefnið hér er starf og stefna ríkisstjórnarinnar og því er óhjákvæmilegt að fara yfir störf þessarar ríkisstjórnar og þá stefnu sem hún hefur fylgt. Þar er af svo mörgu að taka að ég þurfti að skrifa þessa ræðu í excel og ég vona að virðulegur forseti afsaki þótt ég nái ekki að fara yfir öll atriðin. Það gefst vonandi tækifæri til þess síðar.

Það sem einkennir hins vegar þessa ríkisstjórn, ef maður fer yfir listann sem ég hef sett saman í tilefni af þessari umræðu, er hve allt virðist byggja á nánast nokkurs konar öfugmælagríni.

Ríkisstjórnin kallar sig norræna velferðarstjórn en nú þegar menn tala um þessa ríkisstjórn sem norrænu velferðarstjórnina er það iðulega í gríni, enda afraksturinn verið allt annars eðlis. Leggja átti áherslu á velferð, lýðræði, gagnsæi, jafnrétti, öll þessi góðu orð, en allt hefur þetta meira og minna snúist upp í andhverfu sína. Hvað gagnsæi varðar hugsa ég að leyndarhyggja hafi aldrei áður, a.m.k. ekki á undanförnum árum og áratugum, verið jafnrík hjá stjórnvöldum.

Hvað eftir annað, í hverri viku, rekum við okkur á það, þingmenn, að fá ekki upplýsingar um grundvallarmál. Enn er beðið eftir upplýsingum um fjölmörg atriði, jafnvel mikilvægustu atriðin sem eru til umræðu í stjórnmálunum, svo sem rekstur bankanna og fjármálakerfisins, en alltaf eru fundnar leiðir til að halda upplýsingum frá bæði þingmönnum og almenningi.

Svo bætast alltaf við ný óljós áhyggjuefni, m.a. síendurteknar ráðstafanir hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, landbúnaðarráðherra, efnahagsráðherra, viðskiptaráðherra og verðandi iðnaðarráðherra sem hefur á undanförnum árum hvað eftir annað gripið inn í rekstur fjármálafyrirtækja án þess að taka málið nokkurn tímann til umræðu í þinginu og beitt fyrir sig neyðarlögunum í því efni, enda þótt í þeim komi fram að þau beri að endurskoða fyrir árslok 2009. Það hefur ekki verið gert enn, en hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hefur hins vegar haldið áfram að nýta sér lögin til að halda þessum mikilvægu málum úr umræðu á Alþingi.

Hvað varðar velferðina þekkjum við stærðirnar í þeirri umræðu, atvinnuleysið, landflóttann og allt þetta sem hæstv. ráðherrar komu reyndar inn á áðan. Því miður hefur reynslan sýnt að þessar fullyrðingar hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, eins og einfaldast er að kalla hann, hafa ekki staðist til lengri tíma litið.

Það er ekki langt síðan hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að það væri ekkert óvenjumikill fólksflótti frá landinu. Nánast sama dag, eða daginn eftir, birti Hagstofan upplýsingar um að það hefði ekki verið jafnmikill fólksflótti frá landinu í 100 ár og aðeins á tímum fólksflutninganna til Vesturheims hefðu menn séð sambærilegar tölur.

Vandræðaganginn endalausa í skuldamálum heimilanna hef ég ekki tíma til að fara yfir hér. Ég mun gera það í sérstakri umræðu. Ég vil þó benda á að nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan hæstv. forsætisráðherra veitti viðtöku áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna um að ráðast í aðgerðir í skuldamálum heimilanna og ráðast gegn verðtryggingunni, verðtryggingunni sem hæstv. núverandi forsætisráðherra taldi mesta forgangsmál stjórnmálanna áratugum saman, allt þar til hún varð sjálf forsætisráðherra og komst í aðstöðu til að gera eitthvað í málinu.

Annað gott orð sem ríkisstjórnin kenndi sig við var jafnrétti. Hæstv. forsætisráðherra afrekaði það hins vegar að vera dæmd fyrir brot á jafnréttislögum og viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við þeirri niðurstöðu voru ekki til þess að bæta málið. Ráðningarmál hæstv. forsætisráðherra eru reyndar kapítuli út af fyrir sig eins og sjá má af stöðu mála í Seðlabankanum núna þar sem seðlabankastjóri telur að hæstv. forsætisráðherra hafi lofað sér undantekningu frá sérstakri reglu um það að enginn mætti hafa hærri laun en forsætisráðherrann sjálfur og er nú kominn í mál við eigin banka til að knýja á um þá launauppbót sem hann telur hæstv. forsætisráðherra hafa lofað sér.

Í lýðræðismálunum höfum við séð ýmislegt skrautlegt. Ríkisstjórnin var dæmd í Hæstarétti fyrir að hafa staðið að ólöglegum kosningum. Viðbrögðin við því voru að gera sem minnst úr niðurstöðu Hæstaréttar, rétt eins og viðbrögðin við kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslur vegna Icesave voru þau að gera sem minnst úr henni, halda sig heima í fyrra skiptið, gera svo aftur tilraun til að koma málinu í gegn og verða aftur felld í þjóðaratkvæðagreiðslu en sitja áfram sem fastast eins og ekkert hefði í skorist.

Hér hefur aðeins verið rædd sú tilhneiging ríkisstjórnarinnar að svíkja loforð. Aðilar vinnumarkaðarins, bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ, hafa margbent á þetta en stjórnarandstaðan þekkir það líka að jafnvel þótt gert sé hátíðlegt samkomulag við þinglok um ákveðin mál við ríkisstjórnina er það fljótt að gleymast, jafnvel þó að gert hafi verið skriflegt samkomulag.

Hvað eftir annað sjáum við líka að ríkisstjórnin tekur ákvarðanir á mjög hæpnum forsendum, til að mynda hvað varðar fjárlög. Aftur og aftur eru birtar efnahagsáætlanir sem byggja jafnvel á framkvæmdum sem ríkisstjórnin berst síðan sjálf gegn. Ég nefni sem dæmi álver í Helguvík og á Bakka. Úrslitaatriði í þessum spám sem ríkisstjórnin beitir sér síðan í raun og veru gegn, og svo hart beitir hún sér gegn atvinnumálum oft og tíðum að einn hæstv. ráðherra, hæstv. umhverfisráðherra, hefur verið dæmd í Hæstarétti og svaraði því þá til að pólitísk stefna hennar væri mikilvægari en lögin. Ég umorða þetta aðeins en merkingin var sú sama.

Fjárfesting er enn í svo gott sem sögulegu lágmarki. Eini samanburðurinn þar sem hægt er að finna minni fjárfestingu er líka frá tíð þessarar ríkisstjórnar og breytingin er minni háttar, enda hefur stefna ríkisstjórnarinnar að flestu leyti verið nánast eins og hönnuð til þess að halda niðri fjárfestingu. Við höfum séð líklega 170, eða rúmlega það, breytingar á skattalögum, aðallega að sjálfsögðu til hækkunar og til þess að flækja lögin.

Svo er óvissan slík, óvissa sem stöðugt er viðhaldið og verið að bæta í, að Ísland er komið á lista yfir lönd sem fjárfestar þurfa sérstaklega að óttast vegna pólitískrar óvissu. Við erum komin í flokk með Egyptalandi, Rússlandi, löndum Suður-Ameríku og ýmsum Afríkuríkjum hvað þetta varðar. Enda eru jafnvel undirstöðugreinarnar settar í fullkomið uppnám og haldið í uppnámi. Ég nefni þar sjávarútveginn. Sett var á fót sérstök sáttanefnd svokölluð, hún skilaði niðurstöðu og var komin vel á veg með að ná sögulegri sátt í því efni en þá var þeirri vinnu hent í ruslið. Aftur og aftur höfum við séð ótrúleg atriði hvað þetta varðar, síðast eða þarsíðast með frumvarpi sem fékk ekki eina einustu jákvæða umsögn og hæstv. utanríkisráðherra líkti við umferðarslys.

Svo er það staða ríkisstjórnarinnar sem slíkrar. Það er mikilvægt að hafa hugfast að staða ríkisstjórnarinnar og óvissa um hana er ekki einkamál hæstv. forsætisráðherra. Það að viðhalda stöðugri óvissu um skipan ríkisstjórnarinnar, menn vita ekki einu sinn hvort hæstv. fjármálaráðherra verður í embætti út þetta kjörtímabil eða ekki, er ekki til þess fallið að skapa þann stöðugleika sem skortir hér í landinu, hvað þá það að setja út úr ríkisstjórninni þá ráðherra sem helst hafa sýnt einhverja tilburði til samvinnu við stjórnarandstöðuna við úrlausn erfiðra viðfangsefna.Þar á ég við hv. alþingismann Árna Pál Árnason.

Nú, eða þá að reka menn úr ríkisstjórn fyrir það eitt að fylgja stefnu eigin flokks, eins og á við um hv. alþingismann Jón Bjarnason. Enda hefur sjálfur utanríkisráðherrann lýst því yfir að það þurfi að verða verulegar breytingar, miklu róttækari breytingar en þetta, sjálfur hæstv. forsætisráðherra þurfi að víkja. Og ekki nóg með það, heldur þurfi Samfylkingin að koma sér upp nýrri stefnu, fara í hugmyndafræðilega endurnýjun eins og mér heyrðist hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra kalla eftir hér áðan.

Ég er þó sammála hæstv. ráðherrum um að tækifærin á Íslandi séu gríðarlega mikil. Ef rétt er haldið á málum má nýta þau tækifæri hratt og vel, en til þess þurfum við breytta stefnu og breytta ríkisstjórn.