Spurning dagsins

Hvað þýðir orðið lýðveldi? Þetta er spurning sem ætti varla að þurfa að spyrja en nú, 75 árum eftir að Ísland varð lýðveldi, er tilefni til að rifja upp svarið.

Einn af kostum íslenskunnar er að orðin skýra sig oft sjálf. Þannig er lýðveldi stjórnkerfi þar sem lýðurinn, þ.e. almenningur, hefur völdin. En er sú raunin á Íslandi nú 75 árum eftir að lýðveldið var stofnað?

Tilgangur sjálfstæðis

Baráttan fyrir fullveldi Íslands og svo lýðveldisstofnun var frá upphafi nátengd hugsjóninni um lýðræði, þ.e. að almenningur í landinu fengi völd yfir eigin málum. Sjálfstæðisbaráttan snerist ekki um að í stað erlends konungs kæmi íslenskur konungur eða að í stað þess að embættismenn í kanselíinu í Kaupmannahöfn stjórnuðu málefnum landsins yrðu það embættismenn í Reykjavík. Sjálfstæðisbaráttan snerist ekki heldur um að koma á upplýstu einveldi eða sérfræðingaveldi.

Sjálfstæðisbaráttan byggðist á trúnni á þá róttæku og merkilegu hugmynd að almenningur væri best til þess fallinn að stjórna eigin samfélögum og að hver þjóð ætti rétt á að stjórna sér sjálf. Þetta fól í sér breytingu frá því sem nærri 100% jarðarbúa höfðu kynnst frá upphafi siðmenningar. En þetta virkaði.

Ekkert stjórnarfar hefur reynst eins farsælt og lýðræði og ekkert fyrirkomulag eins vel til þess fallið að verja friðinn eins og það að leyfa þjóðum að stjórna sér sjálfar. Engin lýðræðisríki hafa nokkurn tíma farið í stríð hvert við annað.

Að gefa það sem aðrir eiga

Nú fjarar hins vegar undan lýðræði víða um lönd og þar með talið í landinu sem fagnar 75 ára lýðveldisafmæli í dag. Ástæðan er einkum sú að stjórnmálamenn gefa frá sér sífellt meiri völd og við tekur aukið kerfisræði þar sem ókjörnum fulltrúum er ætlað að stjórna málum.

Gallinn er sá að með þessu eru stjórnmálamenn að gefa það sem þeir eiga ekki. Í lýðveldi eru völdin eign lýðsins sem veitir stjórnmálamönnum aðeins umboð til að fara með þau um tíma.

Faglegar ákvarðanir

Yfirfærsla valds til embættismanna, sérfræðinga, stofnana o.s.frv. er jafnan rökstudd með því að þannig verði ákvarðanirnar „faglegri“.

Þetta endurómar rök þeirra sem fyrr á öldum leituðust við að skýra hvers vegna hin róttæka hugmynd um lýðræði væri varasöm. Að þeirra mati var hagsmunum almennings best borgið með því að menn sem væru sérfræðingar í að stjórna og hefðu betri þekkingu en almúginn héldu um valdataumana.

Hinn „upplýsti einvaldur“ Jósep II Habsborgarakeisari útskýrði þetta með orðunum. „Allt fyrir fólkið en ekkert frá fólkinu. Hinir vel upplýstu sérfræðingar og stjórnendur hins Heilaga rómverska keisaradæmis áttu þannig að vinna að umbótum fyrir almenning án þess að almenningur skemmdi fyrir með því að taka illa upplýstar ákvarðanir. Jósep II beitti sér fyrir ýmsum framfaramálum en mörg þeirra voru stöðvuð af aðalsmönnum sem töldu þau ganga gegn hagsmunum sínum. Þeir höfðu völd sem þeir þurftu ekki að sækja til kjósenda.

Óttinn við að vera umdeildur

Stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum eru jafnan umdeildir og því auðvelt skotmark. Einfaldast er því fyrir stjórnmálamenn að skora sjálfsmörk. Tala þannig að þeir séu faglegir fremur en pólitískir. „Pólitísk ákvörðun“ er nú nánast orðið skammaryrði á meðan „fagleg ákvörðun“ þykir ákaflega jákvæð. Ákvörðun tekin með vísan til þeirra loforða sem kjósendum voru gefin fær þannig neikvæðara yfirbragð en ákvörðun tekin af þeim sem kjósendur hafa ekkert vald yfir.

Valdaafsal stjórnmálamanna nútímans ræðst hins vegar ekki aðeins af hugmyndinni um að embættismenn og sérfræðingar séu betur til þess fallnir að stjórna en fulltrúar almennings. Ótti stjórnmálamanna við að stjórna ýtir líka mjög undir þessa þróun. Þ.e. hræðslan við að taka ákvörðun sem ekki muni ganga upp eða orki tvímælis og kalli á gagnrýni. Þá er betra að hafa skjól í því að segjast aðeins vera að framfylgja „faglegri niðurstöðu“. Reynist ákvarðanirnar illa er þá alltaf hægt að benda á að faglegum ferlum hafi verið fylgt. Þannig beri í raun enginn ábyrgð á afleiðingunum.

Áhrifin

Ein af afleiðingum tilfærslunnar frá lýðræði til kerfisræðis er sú að pólitísk átök snúast síður um rökræðu um pólitísk álitaefni. Þau eru öll leyst af fagmönnunum. Þess í stað fara pólitísku átökin að snúast fyrst og fremst um ímynd einstaklinga og flokka og verða fyrir vikið illgjarnari og leiðinlegri.

Tilfærsla valdsins birtist ágætlega þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum eftir kosningar og kynnti þingmálaskrá sína. Megnið af málunum sem hin nýja ríkisstjórn lagði fram voru mál frá síðustu ríkisstjórn.

Of sammála?

Margir virðast telja að stjórnmálamenn geti aldrei komið sér saman um neitt. Í raun er vandinn miklu frekar á hinn veginn. Langflest mál sem eru samþykkt í þinginu eru samþykkt án mótatkvæða og flest með öllum greiddum atkvæðum.

Mál sem eru umdeilanleg eða vanbúin og þyrfti að skoða betur eru afgreidd af því að það telst óviðeigandi að vera á móti þeim.

Ímyndarpólitík samtímans veldur því að heiti máls getur skipt meiru en innihaldið. Frumvarpið getur verið stórgallað, þeir sem verða fyrir mestum áhrifum af því kunna að hafa sent góðar ábendingar um að nauðsynlegt sé að laga það. En ef fyrirsögn málsins og yfirlýstur tilgangur hljómar vel getur það eitt að spyrja spurninga leitt til persónulegra árása á þann sem það gerir. Samanber ímyndað dæmi: „Ætlar þessi kona virkilega ekki að styðja „frumvarp um aukið réttlæti, hagsæld og virðingu? það er dæmigert fyrir hana“.

Tilmæli frá kanselíinu

Kröfur um hvernig mönnum beri að greiða atkvæði verða hins vegar ekki bara til með hópþrýstingi ímyndarstjórnmálanna. Þannig er því nú haldið fram að því miður þurfi Alþingi að fara gegn vilja kjósenda vegna þess að erlendir embættismenn ætlist til þess og ekki borgi sig að styggja þá.

Svona eiga stjórnmál ekki að ganga fyrir sig, svona á lýðveldi ekki að virka.

Langflestir stjórnmálamenn eru í stjórnmálum vegna þess að einhvern tímann trúðu þeir á stefnu og vildu berjast fyrir henni. Loforðin sem stjórnmálamenn gefa og ákvarðanirnar sem þeir taka geta verið góðar eða slæmar. En það er þeirra að taka ákvarðanirnar og bera ábyrgð á þeim og mæta afleiðingunum í kosningum.

Veigri stjórnmálamenn sér við að nýta valdið sem kjósendur fela þeim, gefi þeir það frá sér í auknum mæli, munu kjósendur með réttu velta því fyrir sér hvort það skipti einhverju máli hverja þeir kjósi. Niðurstaðan verði alltaf sú sama.

Verkaskipting í lýðveldi

Embættismenn og sérfræðingar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í lýðræðisríki. Þeir skipta sköpum eigi stjórnarfar að vera farsælt. Hlutverk þeirra er meðal annars að veita stjórnmálamönnum bestu fáanlegu upplýsingar og aðstoða þá við að framkvæma það sem er ákveðið. Það er hins vegar ekki hlutverk þeirra að taka ákvarðanir. Það er starfið sem stjórnmálamenn hafa ráðið sig í og því verða þeir að sinna fyrir vinnuveitanda sinn, almenning í landinu.

Ég óska Íslendingum til hamingju með 75 ára lýðveldisafmæli og þann stórkostlega árangur sem náðst hefur í krafti sjálfstæðis og lýðræðis á Íslandi. Megi Lýðveldið Ísland áfram standa undir nafni.

 

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2019