Samráð víkur fyrir ofstopa og ósannindum öfgamanna

Nú á allra síðustu dögum þingsins fyrir kosningar eru forystumenn stjórnarflokkanna farnir að tala um mikilvægi samráðs og sátta. Vonandi er sá vilji einlægur. Hann kemur hins vegar að litlum notum ef aðrir þingmenn stjórnarliðsins reyna á sama tíma hvað þeir geta til að efna til illdeilna.

Til að bregðast við ákallinu um samstöðu lagði þingflokkur framsóknarmanna fram tillögu sem ætlað var að miðla málum, tryggja að framhald yrði á endurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili og nýta þá fáu daga sem eftir eru af þingstörfum til að ná loksins ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareign inn í stjórnarskrána.

Vandinn og lausnin

Nýtt frumvarp þarf að fara í gegnum þrjár umræður í þinginu og til umfjöllunar í nefnd á milli umræðna. Nefndirnar leita svo álits hjá sérfræðingum og öðrum þeim sem málið varðar. Þegar mál eru umdeild tekur þetta langan tíma. Það segir sig því sjálft að ef menn ætla að klára stór mál á fáeinum dögum þurfa þau að vera tiltölulega óumdeild og vel unnin.

Af þeim sökum lögðum við til að notast yrði við tillögu Auðlindanefndarinnar svo kölluðu að auðlindaákvæði. Auðlindanefndin var þverpólitísk nefnd skipuð fulltrúum flokkanna og sérfræðingum. Við lögðum tillögu nefndarinnar fram óbreytta og bættum við hana einni setningu til að tryggja að vald yfir auðlindunum flyttist ekki úr landi.

Öllu snúið á haus

Nokkrir þingmenn Vinstri grænna brugðust við tillögunni með því að snúa innihaldi hennar á haus, skrökva til um hvað í tillögunni fælist og ráðast svo af ótrúlegum ofstopa á eigin ósannindi.

Látið var eins og orðalagið væri uppfinning framsóknarmanna og að í tillögunni fælist einhvers konar einkavæðing náttúruauðlinda. Því var m.a. haldið fram að tillagan fæli það í sér að nýting auðlinda  skapaði eignarrétt á þeim. Þetta eru ekki aðeins ósannindi heldur var áhrifum ákvæðisins gjörsamlega snúið á haus.

Sannleikurinn

Í tillögunni segir meðal annars:

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af

hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar

á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin

eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið

í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Það er beinlínis tekið fram að ólíkt því sem þau vinstri grænu héldu fram skapar nýtingin EKKI eignarrétt. Þegar búið er greiða gjald fyrir heimild til að nýta auðlind nýtur hins vegar  heimildin sem greitt var fyrir verndar en þó aðeins sem óbein eignarréttindi. Jafnframt er áréttað að heimildin sé tímabundin og henni megi breyta.

Áréttað er að heimildin njóti verndar m.a. til að hámarka þær tekjur sem þjóðin getur haft af auðlindinni enda vilja þeir sem hafa áhuga á að kaupa nýtingarrétt varla greiða hátt gjald ef heimildin sem þeir greiða fyrir nýtur engrar verndar.

Óbein eignarréttindi vegna heimildarinnar eru sambærileg því að þegar einhver leigir íbúð eða hús nýtur viðkomandi ákveðinna réttinda. Það myndu varla margir fást til að borga leigu fyrirfram ef heimild þeirra til að búa í húsinu nyti engrar verndar.

Hvort ætli menn séu reiðubúnir að borga meira fyrir að veiða tonn af fiski ef a) réttur þeirra til að veiða fiskin sem greitt hefur verið fyrir nýtur verndar eða b) heimildin nýtur engrar verndar.

Semsagt, tilgangurinn með ákvæðinu er að hámarka það sem samfélagið fær fyrir auðlindirnar.

Það að tala sérstaklega um að heimildin njóti óbeinna eignarréttinda en ekki eiginlegra eignarréttinda er hins vegar íþyngjandi fyrir þann sem greiðir fyrir nýtingarréttinn frekar en hitt. Ef það væri ekki tekið sérstaklega fram gætu einhverjir litið svo á að heimildin nyti beins eignarréttar. Hugtakið er útskýrt í bók Þorgeirs Örlygssonar, Kaflar úr eignarrétti I.

Sigmundur Ingi Sigurðsson tók skilgreiningu Þorgeirs saman í BA ritgerð sinni  (feitletrun mín):

„Óbein eignarréttindi – takmarkanir beins eignarréttar

Þegar rætt er um takmörkuð eignarréttindi er átt við að rétthafi njóti eingöngu tiltekinna og afmarkaðra eignarheimilda en ekki sömu heimilda og eigandi hins beina eignarréttar. Sá, sem hefur takmörkuð réttindi, hefur því hlutdeild í víðtækari rétti annars manns, þ.e. beinum eignarrétti eignandans. Óbeinan eignarrétt er hægt að skilgreina með jákvæðum hætti gagnvart eiganda eignar þar sem takmörkuð eignarréttindi fela aðeins í sér heimildir til tiltekinna og afmarkaðra umráða eða ráðstafana.“

Niðurstaðan

Hver er þá niðurstaðan um orðalagið, sem fulltrúar Vinstri grænna hafa notað til að ráðast af óbilgirni á framsóknarmenn, reyna að rægja þá og sverta og grafa undan tilraun þeirra til að miðla málum?  Niðurstaðan er sú að orðalagið er þess ætlað að hámarka hag þjóðarinnar og árétta að eignarrétturinn haldist ávallt hjá henni.

Hér var um að ræða málefnalega tillögu, byggða á þverpólitísku samstarfi þar sem sérfræðingar leituðust við að finna bestu leiðina til að verja rétt almennings. Þegar viðbrögðin við slíkri tillögu eru þau að ráðast með lygum og ofstopa að þeim sem leggja hana fram bendir það ekki til þess að mikið hafi verið að marka tal hinna sömu um samvinnu og ný og betri vinnubrögð.

Það er slæmt ef þingstörfum á að ljúka með orðhengilshætti, innihaldslausum frösum og tilraunum til að sverta pólitíska andstæðinga. Vonandi er þetta ekki til marks um þá pólitík sem Vinstri græn ætla að reka undir nýrri forystu.