Ófyndið skop á kostnað þingkonu

Það var ánægjulegt að sjá að skopteiknari Morgunblaðsins hefði beðið Siv Friðleifsdóttur afsökunar á teikningunni sem birtist í helgarblaðinu. Eins og Landssamband framsóknarkvenna benti á verða menn að gæta þess að fara ekki yfir ákveðin mörk í pólitískri umræðu, jafnvel í gríni.

Yfirlýsing LFK:

Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir algjörri vanþóknun á skopmyndateikningu þá er birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 16. apríl síðastliðinn þar sem Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknar var teiknuð sem vændiskona. Stjórnin telur teiknarann og Morgunblaðið hafa farið langt yfir velsæmismörk og vega með afar ósmekklegum hætti að þingkonunni.

Stjórnin fer jafnframt fram á það við ritstjórn Morgunblaðsins sem og teiknarann, Helga Sigurðsson, að biðja þingkonuna tafarlaust og opinberlega afsökunar á alvarlegu athæfi sínu.

Vændi er grafalvarlegt samfélagslegt vandamál sem eykst í kreppu vegna slæmrar stöðu kvenna og er alls ekkert grín.