Hólaræðan

Það er mér mikill heiður að fá að halda ræðu á þessari merku hátíð á þessum mikla sögustað. Saga Hóla er samtvinnuð sögu landsins, sögu kirkjunnar, stjórnmála, efnahagslífs og fræða. Sú saga heldur áfram að verða til og endurspeglast meðal annars í Hólahátíð.

Á síðasta áratug tuttugustu aldar, eftir lok kalda stríðsins, ræddu fræðimenn hins vegar hvort mannkynssögunni væri lokið. Ekki með heimsendi heldur með því að samfélagsleg þróun hefði náð hinu eðlilega, jafnvel óhjákvæmilega, endamarki þróunarinnar. Francis Fukuyama, einn þekktasti fræðimaður heims á sviði stjórnmála og hagfræði skrifaði árið 1992:

„Það sem við erum hugsanlega að verða vitni að er ekki aðeins endalok kalda stríðsins, eða það að ákveðið tímabil sögunnar eftir seinni heimsstyrjöld sé nú liðið heldur lok mannkynssögunnar sem slíkrar: Það er; lokapunktur hugmyndafræðilegrar þróunar mannkyns og staðfesting þess að vestrænt frjálslynt lýðræði sé orðið hið endanlega fyrirkomulag mannlegs stjórnarfars“.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem kenningin um endalok sögulegrar þróunar var sett fram. Aðrir höfðu áður viðrað svipaðar hugmyndir hver á sinn hátt, til dæmis Thomas More á 16.öld, Georg Friedrich Hegel á 18. öld og Karl Marx á þeirri nítjándu.

Á þeim áratugunum framfara sem liðnir eru frá seinni heimsstyrjöld, og sérstaklega eftir lok kalda stríðsins, varð sú tilfinning ráðandi á Vesturlöndum að stöðugleikinn sem ríkt hefur í samfélögum Norður Ameríku og Vestur Evrópu sé nánast sjálfgefinn. Hann sé afleiðing línulegrar þróunar. Sú hugmynd að hlutir geti farið verulega úrskeiðis, innviðir samfélagsins geti brostið eða grunngildi þess umturnast hefur verið fjarlæg. Það hefur virst óhugsandi að hættulegar pólitískar öfgar gætu náð fótfestu á ný eða að vaxandi velferð gæti breyst í örbirgð.

Svo mikil var trúin á að Vesturlönd væru komin á æðra stig þróunar að margir töldu orðið óþarft að velta fyrir sér þeim hugmyndum sem lágu til grundvallar samfélagsgerðinni.

Og hagþróunin var talin komin á það stig að ekki væri lengur þörf á að framleiða áþreifanlegar vörur. Það væri nóg að stjórna markaðnum og stunda þjónustustarfsemi.

En þessa dagana er mikið umrót í heiminum. Efnahagslega er komið að skuldadögum og Bandaríkin, en þó sérstaklega þjóðir Evrópusambandsins, horfa fram á fall kerfis sem aldrei var sjálfbært. Á Íslandi birtist okkur dálítið sýnishorn af slíku hruni þótt það hafi ekki verið eins og það sem menn horfa nú fram á í Evrópu þar sem ríkin sjálf hafa verið lögð að veði í veðmáli sem virðist tapað. Framleiðslugeta Evrópu hefur fallið á meðan hún eykst annars staðar og ekki eru framleidd næg verðmæti til að standa undir þeim velferðarkerfum sem byggð hafa verið upp. Í ofanálag þarf svo að greiða fyrir þau lífsgæði sem tekin voru að láni á undanförnum áratugum.

Aðgerðir stjórnvalda vegna þessarar stöðu hafa mætt mikilli mótspyrnu, mótmælum og jafnvel óeirðum víða í Evrópu. Ljóst er að það mun ganga á ýmsu næstu árin.

Þegar efnahagslegar ógöngur riðu yfir Ísland varð það þjóðinni mikið áfall. Eðlilega fylgdi mikil reiði. Skaðinn af efnahagshruninu var umtalsverður og margir urðu fyrir verulegu tjóni. Hér ætla ég ekki að ræða hvað hefði átt að gera öðruvísi í efnahagsmálum. Ég ætla að ræða stærri skaða eða meiri hættu. Hættu sem reyndar tengist þróun efnahagsmála en birtist þó ekki augljóslega í tölum á blaði. Það er þróun íslensks þjóðfélags og þeirra grunngilda sem við höfum byggt samfélag okkar á.

Margt hafði þróast á óæskilegan hátt á tímum efnahagsbólunnar. Ákveðinn tíðarandi hafði tekið völdin. En eftir efnahagshrunið höfum við færst úr einum öfgum í aðrar. Annar tíðarandi hefur tekið völdin og hann er ekki góður stjórnandi. Hann er óvæginn og hættulegur. Hann stuðlar að, og þrífst á, tortryggni, andúð, heift, rógburði og gremju og hann vegur að grunnstoðum samfélagsins.

Öfgar og frávik frá grundvallarreglum sem áður voru taldar ófrávíkjanlegar eru réttlætt út frá ástandinu. Ástandið hefur verið notað til að réttlæta hegðun sem annars væri ekki ásættanlegt -hvort sem það er að grýta opinberar byggingar, ráðast að heimilum fólks eða beita samborgarana ofbeldi. Ofbeldið fer reyndar að mestu leyti fram í ræðu og riti. Sumir virðast telja að sér sé leyfilegt að segja hvað sem er óháð sannleiksgildi og án tillits til almenns velsæmis og réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum með vísan til efnahagsþróunar.

Þegar menn greinir á um ólíkar leiðir við lausn á miklum vanda er eðlilegt að þeir takist á og umræðan geti orðið hörð á köflum. En það er eðlismunur, ekki stigsmunur, á hörðum deilum um pólitíska stefnu eða persónulegu níði og galdraofsóknum.

Í stað uppbyggilegrar umræðu um hvernig megi leysa vandamál, lágmarka viðbótartjón og bæta það tjón sem þegar hefur orðið eins og kostur er hafa sumir séð sér hag í því að kynda undir hinn hættulega tíðaranda til að réttlæta eigin stöðu og gjörðir. Það hefur meðal annars verið ýtt undir þekkt fyrirbæri sem á íslensku má kalla fórnarlambsmenningu. Hún byggist ekki á því að bæta stöðu þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni eða standa höllum fæti heldur að nýta sér stöðu þeirra til að réttlæta árásir á aðra.

Og oft á tíðum eru það einmitt þeir sem telja sig helstu varðmenn sannleikans sem eru mestu öfgamennirnir. Þannig eru öfgar notaðar til að réttlæta aðrar öfgar.

Sagan um flísina í auga bróðurins kemur oft upp í hugann þessa dagana. Það er ekki þar með sagt að við eigum að umbera öfgar. Þvert á móti það á að ráðast gegn þeim og kveða þær niður en mótvægið við öfgar er ekki öfgar í aðra átt. Mótvægið við öfgar er rökhyggja og meðalhóf.

Rökhyggja og rökræða hafa reyndar lengi átt undir högg að sækja. Ég hafði fylgst vel með stjórnmálum áður en ég hóf þátttöku í pólitísku starfi en þrátt fyrir það hefur það verið mér nokkuð áfall að uppgötva að hversu litlu leyti stjórnmálaumræða snýst um rökræðu. Í stað rökræðunnar ræður orðræðan. Innihaldslausir frasar sem eru til þess ætlaðir að tala inn í tíðarandann. Þetta birtist nú meðal annars í því að heilu stéttirnar eru uppnefndar með hætti sem ekki hefur tíðkast síðan á millistríðsárunum.

En jafnframt með því að hver tekur sömu frasana eða tískuorðin upp eftir öðrum. Í fyrra var til dæmis mjög í tísku að nota orðið auðmýkt. Það er gott orð en var iðulega notað af þeim sem ætluðust til að aðrir sýndu sér eða skoðunum sínum, hinum réttu skoðunum, meiri auðmýkt. Þannig töluðu þeir stundum mest um auðmýkt sem áttu hana síst til.

Þessu til viðbótar, og þessu tengt, virðist umræða um stjórnmál oft snúast um að reyna að koma höggi á fólk með hjálp tíðarandans. Búa til samsæriskenningar eða tengja menn við eitthvað eða einhverja sem ekki eru í náðinni. Við þá iðju láta menn sannleikann ekki trufla sig. Það nægir að setja fram kenninguna og treysta á að aðrir hafi hana eftir. Þá berst sagan úr mörgum áttum og hlýtur þar af leiðandi að vera sönn eða að minnsta kosti að nægja til að skapa efa og ýta undir tortryggni.

Þetta hefur stundum virkað. Þannig hefur maður heyrt talað um að þessi eða hinn þurfi að víkja vegna ásakana. Þótt það sé ekki endilega víst að þær séu sannar sé umræðan sem slík svo skaðleg. Þannig eru völdin tekin af rökræðunni og færð orðræðunni. Stundum hvarflar að mér að orðræði hafi leyst lýðræði af hólmi.

Oft er talað um eftirlitshlutverk fjölmiðla. Fjölmiðlar eigi að veita aðhald. Eitt mikilvægasta hlutverk þeirra er að veita tíðarandanum aðhald. En því miður sýnir sagan að fjölmiðlar eru oft uppteknari af því að elta tíðarandann eða að magna hann upp en að halda aftur af honum. Hér er þó mjög mikilvægt að taka fram að allir fjölmiðlar og fjölmiðlamenn eru ekki undir sömu sök seldir. Á þeim er mikill munur.

Það sama á því miður oft við um okkur stjórnmálamenn, og allt helst þetta auðvitað í hendur, stjórnmálin og umræða um þau. Stjórnmálamenn eiga að fylgja stefnu en leiða umræðuna en oft er því öfugt farið. Það ríkir sterk tilhneiging til að elta umræðuna, hinn margumrædda tíðaranda, og aðlaga stefnuna að honum.

Ég óttast líka að það sama kunni jafnvel að eiga við um einhverja presta. Það fer illa á því að prestar hagi sér eins og pólitíkusar og takist á opinberlega. Stjórnmálamenn vinna þó við að vera ósammála, það er tilgangur lýðræðisins að þeir séu fulltrúar ólíkra sjónarmiða þótt niðurstaðan verði oft á tíðum að nást með málamiðlunum. Fyrir vikið verða stjórnmálamenn alltaf umdeildir og líklega taldir upp til hópa vonlausir. Kirkjan á hins vegar að skapa festu óháð dægursveiflum. Það hefur hún oft gert bæði hér á landi og erlendis. En það getur verið að kirkjuna skorti sjálfstraust eftir að hafa á margan hátt verið í vörn um langa hríð. Sú er ekki bara raunin á Íslandi heldur um allan heim.

Þegar kristni og kirkjan birtast í erlendum reifurum, sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum er það gjarnan í tengslum við eitthvað vafasamt, fáfræði og fordóma, afturhaldssama óbilgjarna presta eða hvers konar misbeitingu. Um leið er litið framhjá því að boðskapur trúarinnar er lykilatriði í þróun samfélags okkar og að boðskapurinn um kærleika er nauðsynlegur hornsteinn samfélagsins. Kirkjunnar þjónar þurfa að vera óhræddir við að minna á mikilvægi kristins siðferðis í samfélagi okkar og verjast í sameiningu rangtúlkunum, staðalímyndum og fordómum í sinn garð og félaga sinna.

Þegar kirkjan fór með veraldlegt vald kom fyrir að illa væri með það farið en gleymum því ekki að um aldir rak kirkjan velferðarkerfið, fátækrahjálpina, byggði upp menntastofnanirnar og heilbrigðisþjónustuna og barðist fyrir hlutum sem gengu gegn hagsmunum valdakerfisins og fjármagnsins. Kirkjan lagði í raun grunninn að heilbrigðis- og menntakerfi Vesturlanda.

Það kemur fyrir að þeir Vestur Evrópumenn sem telja sig hina þróuðustu af öllum Vesturlandabúum vísi til trúaðra Bandaríkjamanna á yfirlætisfullan hátt og dragi upp þá mynd að kristin áhrif í bandarískum stjórnmálum tengist öll ofstækisfullum öfgamönnum. Það þykir helst fréttnæmt ef einhver furðufugl segir eitthvað bjánalegt og vísar um leið í trúarbrögð. Það fellur vel að þeirri mynd sem tíðarandinn vill draga upp af trúarbrögðum. Fáeinir rugludallar fá þannig ómælda athygli á meðan menn kjósa að gleyma því að bandarískt samfélag sækir að miklu leyti styrk sinn og fjölmörgu kosti í boðskap trúarinnar.

Forystumenn framsækni og frjálslyndis í báðum stóru stjórnmálaflokkum Bandaríkjanna byggðu baráttu sína á kristnu uppeldi og þeirri sannfæringu að þeim bæri að berjast fyrir hagsmunum allra samborgara sinna. Abraham Lincoln, Theodore Roosvelt, Woodrow Wilson og Franklin Roosvelt lærðu ungir að það væri skylda þeirra sem kristinna manna að hjálpa þeim sem stæðu verr en þeir sjálfir.

Allir þekktustu háskólar Bandaríkjanna voru stofnaðir af trúarhreyfingum. Kalvinistar stofnuðu til dæmis Harvard, Yale og Prinston. Það sama átti við í Bretlandi og víðast hvar í Evrópu.

Kirkjan í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar hafði oft forystu í baráttunni gegn þrælahaldi í andstöðu við gríðarlega efnahagslega og pólitíska hagsmuni.

Svíþjóð hefur verið nefnt trúlausasta land heims en þarlendir félagsfræðingar benda á að ekki sé hægt að skilja sænskt samfélag nema átta sig á því að öll uppbygging samfélagsins, hugmyndir Svía um rétt og rangt, velferðarkerfið, stofnanirnar, félagsstarfið, jafnvel iðnaðurinn, eigi sér rætur í lúthersku kirkjunni.

Það sama á við á Íslandi. Síðustu áratugi hafa áhrif ólíkra trúarbragða aukist mjög og boðskapur þeirra hefur auðgað og bætt samfélag okkar. En boðskapur kristinnar trúar um samfélag jafningja hefur haft áhrif á þróun þjóðfélagsins í meira en þúsund ár.

Nú telja sumir að Vesturlönd þurfi ekki lengur á trúnni að halda. Að það samfélag sem hún átti þátt í að byggja upp sé orðið sjálfgefið, afleiðing óhjákvæmilegrar þróunar. En þegar á það reynir er leitast við að fylla í hina miklu eyðu, ekki með því að leita aftur í grunninn og ræða mikilvægi siðferðis og þá ábyrgð sem það leggur okkur á herðar, heldur með tækjum samtímans og með valdi.

Hið alsjáandi auga er leyst af hólmi af eftirlitsmyndavélum, í stað þess eftirlits sem samviskan á að veita er bætt við auknu opinberu eftirliti og kristilegt uppeld má víkja fyrir sífellt nákvæmari leiðarvísi frá yfirvöldum, lögum um allt sem er bannað og allt sem er leyft.

En á hverju eiga þær reglur að byggjast? Byggjast þær allar á því að frá náttúrunnar hendi þekkjum við allan mun á réttu og röngu? Skynsemi er vissulega meðfædd í flestum tilvikum en henni til viðbótar eru áhrif trúarinnar orðin svo sterk í gildismati okkar að þau virðast meðfædd. Undirliggjandi er trúin og grunnur alls er sú sannfæring að allir menn séu skapaðir jafnir, jafnir í merkingunni jafnréttháir. En sú trú er allt annað en sjálfgefin. Hún gengur í raun gegn hinni náttúrulegu skipan.

Boðskapurinn um að allir séu skapaðir jafnir er í raun ótrúlega byltingarkenndur og hlýtur að byggjast á því að maðurinn sé annað og meira en hold og blóð. Þeirri trú að maðurinn hafi sál.

Í náttúrunni, þar sem hinir lífrænu þættir ráða byggist réttur á erfðum, líkamlegum styrk, getunni til að beita valdi og kænsku. Þar ræður náttúrurétturinn og þar eru svo sannarlega ekki allir fæddir jafnir. Þar gildir ekki ,,allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri fyrir yður það skulið þér og þeim gjöra”. Þvert á móti, þar gildir ,,gerðu það sem þú kemst upp með til að tryggja sem best hagsmuni þína”.

-Þar gildir lögmál frumskógarins.

Boðskapurinn um jafnræði er auðvitað til í fleiri trúarbrögðum en kristni en hann byggir á trú, trúnni á að maðurinn sé eitthvað meira en hinar lífrænu frumur sem hann er samsettur úr.

Hvað sem líður rangtúlkunum og misnotkun trúarbragða er trú sem hefur þessa reglu að leiðarljósi óhjákvæmilega boðskapur umburðarlyndis og jafnréttis.

Þegar þessum grundvelli er kippt burtu fer allt hitt með. Þá er samfélagssáttmálinn byggður á sandi.

Í einu af grundvallarritum heimspekinnar, Leviathan frá 1651, lýsir höfundurinn Tómas Hobbes lífinu í hinu náttúrulega ástandi sem stríði allra gegn öllum þar sem allir eiga rétt á öllum hlutum. Í einni þekktustu tilvitnun bókmenntasögunnar lýsir Hobbes lífi mannsins í hinu náttúrulega ástandi:

„Við þær aðstæður á sér ekki stað nein iðn eða framtakssemi því ávinningurinn af slíku er óviss, og þar af leiðandi enginn landbúnaður, engar samgöngur eða notkun varnings sem flytja þarf yfir höf, engin nytsamleg uppbygging, engin tæki til að flytja eða fjarlægja þunga hluti, engin þekking á yfirborði jarðkringlunnar, ekkert tímaskyn, engar listir, engin sendibréf, ekkert samfélag og það versta af öllu, stöðugur ótti og hættan á ofbeldisfullum dauðdaga; og líf mannsins einmannalegt, fátæklegt, andstyggilegt, dýrslegt og stutt.“

Slík tilvera virðist okkur nú fjarlæg. En hún er ekki óhugsandi. Í síðustu viku horfði heimsbyggðin upp á það þegar hópar fólks í einu þróaðasta og efnaðasta ríki heims fóru um götur stórborga með ofbeldi, eyðileggingu, gripdeildum og morðtilraunum. Fólkið taldi sig eiga rétt á að taka þá hluti sem það ásældist og sumir veigruðu sér ekki við að brenna heimili samborgaranna til grunna. Þetta fólk taldi sig ekki bundið af samfélagssáttmálanum eða því siðferði sem hann byggist á.

Í Bretlandi og víðar hefur gleymst að aðild að samfélagssáttmálanum er ekki meðfædd eða sjálfgefin. Það ríkti sú trú að allt slíkt kæmi af sjálfu sér og ekki þyrfti að huga að því sérstaklega að standa vörð um svo sjálfsagðan hlut.

Það er líklega lítil hætta á langtíma-upplausnarástandi eða stjórnleysi. Yfirleitt tekur einhvers konar vald stjórnina. En það skiptir öllu máli á hvaða grunni valdið og þar með þjóðskipulagið er byggt.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að samfélagssáttmálinn sem við höfum komið á hér á landi og annarsstaðar er ekki sjálfgefinn. Hann þarf að verja.

Réttarríkinu er ætlað að verja samfélagssáttmálann. Það er byggt á ákveðnum grunngildum, hlutum sem við teljum almenn sannindi út frá því siðferði sem okkur hefur verið innrætt.

Við teljum þessa hluti sjálfsagða og algilda.

En dramb er falli næst. Þegar menn fara að álíta hluti sjálfgefna eiga þeir á hættu að missa þá. Þegar harðnar á dalnum sjáum við hversu viðkvæmir þeir eru í raun. Þá getur skapast ástand sem sumir telja að megi nota til að hverfa frá grunngildunum. Bara dálítið í fyrstu, svona í samræmi við tilefnið, en þegar fyrstu skrefin eru stigin er hætta á að næstu skref fylgi á eftir.

Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að því á Íslandi að vegið hafi verið að öllum grunnstoðum réttarríkisins:

Sakleysi uns sekt er sönnuð, jafnræði fyrir lögum, þrískiptingu ríkisvalds, friðhelgi einkalíf, eignarréttinum, gagnsæi í athöfnum hins opinbera, skýrleika í lagasetningu, vernd gagnvart misbeitingu laga, stöðugleika löggjafar, áreiðanleika í aðgerðum stjórnvalda og banni við afturvirkni laga, reglum um meðalhóf í aðgerðum yfirvalda, og einkaleyfi hins opinbera á valdbeitingu.

Frá þessum reglum má ekki víkja sama þótt reiði eða aðrir þættir tíðarandans æski þess. Þær eru einmitt settar til að vera vörn í slíkum sveiflum. Frávik má ekki afsaka með því að aðstæður kalli á það. Þannig hefur það alltaf verið þegar vikið hefur verið frá grundvallarréttindum, það er alltaf réttlætt með því að aðstæður krefjist þess í þágu heildarhagsmuna.

Réttarríkið er byggt á stjórnarskrá sem innheldur grundvallarreglurnar.

Þessa dagana er mikið rætt um að breyta stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Eflaust mun stjórnarskráin taka nokkrum breytingum á næstu árum en í því efni er mikilvægt að fara varlega og gæta þess að allar breytingar sem gerðar verða séu til bóta. Við þá vinnu getur verið gagnlegt að líta til reynslu og stjórnskipunarlaga annarra þjóða.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp nokkrar greinar úr erlendri stjórnarskrá og velta í framhaldinu fyrir mér hvort við getum eitthvað lært af því dæmi eða öðrum.

Mannréttindakaflinn byrjar á því að útlista að allir eigi rétt á vinnu, það er öllum er tryggður rétturinn til atvinnu og greiðslu fyrir vinnuframlag í samræmi við magn og gæði vinnunnar. Það skal tryggt með því að haga stjórn efnahagsmála þannig að ekki skapist hætta á efnahagskrísu.

-Þetta er áhugavert: stjórnarskráin leggur stjórnmálamönnum þá skyldu á herðar að þeir reki ríkið á þann hátt að komið sé algerlega í veg fyrir hættuna á efnahagskrísu.

Jafnframt er rétturinn til hvíldar og afþreyingar tryggður m.a. með því að vinnudagurinn skuli almennt takmarkast við 7 vinnustundir og allir eigi rétt á launuðu orlofi.

Næst er farið ítarlega yfir rétt á framfærslu vegna veikinda eða örorku, almannatryggingar, heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og rétt allra til endurgjaldslausrar menntunar.

Ég gríp niður í miðjan kaflann þar sem kemur að jafnræði þegnanna:

Konum skal tryggt jafnrétti á við karla á öllum sviðum efnahagslífs, menningarlífs, félagslífs og stjórnmála. Framfylgni þessa réttar skal tryggð með því að tryggja konum jafnan rétt til vinnu, launa, hvíldar og afþreyingar, almannatrygginga og menntunar og með því að ríkið verji hag móður og barns með fæðingarorlofi á fullum launum og umfangsmiklu neti fæðingarheimila, ungbarnagæslu og leikskóla.

Jafn réttur allra þegna landsins óháð uppruna eða kynþætti á öllum sviðum þjóðlífsins, efnahagslega, stjórnarfarslega, menningarlega, félagslega og stjórnmálalega er ófrávíkjanleg regla. Allar beinar eða óbeinar takmarkanir á þessum rétti og öll umræða um bein eða óbein forréttindi á grundvelli kynþáttar eða uppruna sem og stuðningur við útilokun, hatur, fordómar eða fyrirlitning  á grundvelli kynþáttar eru refsiverð að lögum.

Í samræmi við almannahag og til að styrkja stjórnkerfið er þegnum ríkisins tryggt með lögum:

a.            Málfrelsi

b.            Prentfrelsi

c.            Rétturinn til að koma saman m.a. til að halda samkomur

d.            Rétturinn til standa fyrir fjöldafundum og mótmælum

Þessi borgaralegu réttindi skulu tryggð með því að veita launþegum og samtökum þeirra aðgang að prentvélum og pappír, aðgang að opinberum byggingum, fjölmiðlunaraðstöðu og aðrar efnislegar þarfir til að uppfylla þessi réttindi.

Næst er farið nákvæmlega yfir að tryggja skuli algjört félagafrelsi og loks:

Þegnum ríkisins er tryggð friðhelgi einkalífs. Engan má handtaka nema samkvæmt úrskurði dómstóls eða með leyfi fulltrúa dómsvaldsins.

Borgurum er tryggð friðhelgi heimilis og persónuvernd og trúnaður um samskipti við aðra.

Þetta voru nokkrar greinar úr stjórnarskrá Sóvíetríkjanna. Hún var samþykkt árið 1936. Á sama tíma og mesta morðæðið rann á Stalín og upp hófst tímabil sem kallað var hreinsanirnar miklu. Milljónir manna voru drepnar og fangelsaðar án dóms og laga, heilu þjóðflokkarnir voru gerðir útlægir, njósnað var um daglegt líf og samskipti almennings og milljónir manna brottnumdar af heimilum sínum.

Árið 1977, um það leyti sem Bresnev var að herða tökin og innleiða nýja harðlínustefnu, m.a. til að bregðast við gríðarlegum efnahagsþrengingum, var samþykkt ný stjórnarskrá þar sem enn var aukið á rétt borgaranna m.a. varðandi jafnræði fyrir lögum og með ýmsum velferðarákvæðum, fullu atvinnufrelsi, ýmsum vörnum gegn hvers konar misbeitingu valds, frelsi á sviði mennta, vísinda og lista og áherslu á umhverfisvernd.

Ég nefni þetta dæmi til að undirstrika að stjórnarskrá verður að vera meira en orð á blaði. Hún verður að endurspegla sannfæringu, þá sannfæringu þjóðarinnar og stjórnvalda að hún sé til þess ætluð að standa vörð um það sem er rétt og gott -og svo verður að fara eftir henni. Stjórnarskráin ein og sér veitir ekki vernd nema að baki henni búi samfélagssáttmáli sem á sér djúpar og sameiginlegar rætur.

Stjórnarskrá á ekki að vera pólitísk, hægri eða vinstrisinnuð. Hún er lýsing á þeim reglum sem við erum almennt sammála um hvort sem við erum til hægri eða vinstri eða á miðjunni. Þess vegna hefur iðulega verið leitast við að gera allar breytingar á stjórnarskrá landsins í sátt enda nær hún ekki tilgangi sínum ef ekki er samkomulag um að virða hana.

Margir, ég þar á meðal, töldu að það mætti nota það tækifæri sem gafst með efnahagshruninu til að bæta ýmsa þætti samfélagsins og taka allt til skoðunar, þar með talið stjórnarskrána. Reynslan hefur hins vegar sýnt að það andrúmsloft sem myndaðist í samfélaginu á undanförnum þremur árum hefur ekki skapað bestu aðstæðurnar til að skrifa nýja stjórnarskrá.

Stjórnlagaráð, hópur sem ráðinn var til að skrifa drög að frumvarpi um stjórnarskrá hefur nú skilað niðurstöðum sínum. Í þeim tillögum er margt gott að finna en þó finnst mér þær bera um of mark þess samtíma sem þær eru unnar í, skrifaðar fyrir ríkjandi umræðu og undir áhrifum hennar. Þær eru um of barn síns tíma en það er einmitt það sem stjórnarskrá á ekki að vera. Stjórnarskrá þarf að vera sígild.

Stjórnarskrá á ekki að vera eins og kosningabæklingur stjórnmálaflokks. Stjórnarskrá á að innihalda grunnreglur lýðræðis, ekki grunnstef orðræðis. Hún verður að vera byggð á meginreglum, algildum og framfylgjanlegum.

Það er þó full ástæða til að nýta tillögur Stjórnlagaráðsins í umræðu um stjórnarskrána auk vinnu Stjórnarskrárnefndar og aðrar ábendingar.

Auk þess að standa vörð um réttarríkið og ná sátt um stjórnarskrá þurfum við að ná sátt um að við búum í samfélagi sem samanstendur af ólíkum hópum sem hver um sig gegnir mikilvægu hlutverki. Við verðum að láta af baráttu ólíkra hópa og viðurkenna að samfélag er samvinnuverkefni.

Við höfum hráefnið og uppskriftina til að endurreisa samfélag velferðar fyrir alla.  Staða Íslands og framtíðarmöguleikar eru á margan hátt betri en flestra annarra landa. Við þurfum bara að læra að meta það sem máli skiptir, temja okkur náungakærleika og nærgætni í átökunum um leiðir og koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur.

Flutt að Hólum í Hjaltadal þann 14. ágúst 2011.

One comment

Comments are closed.