Færri lán, fleiri Ögmunda

Íslenska efnahagshrunið (og reyndar heimskreppan líka) kom í kjölfar mikilla blekkinga og var að miklu leyti afleiðing blekkinga. Krafan um upplýsta umræðu og upplýsingagjöf hefur eðlilega verið mikil í kjölfarið. Það eru því sérstök vonbrigði að ríkisstjórnin skuli nú leggja allt kapp á að viðhalda blekkingum. Það á sérstaklega við um þróun efnahagsmála og ekki hvað síst gjaldmiðilsmálin, en fátt er þjóðinni meira áhyggjuefni.

Fyrst var það…

Lengi var því haldið fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri lausn gjaldmiðilsvandans. Heil kosningabarátta eins flokks gekk út á það. Aðrir reyndu að benda á að hvað sem liði kostum og göllum aðildarumsóknar mundi hún ekki leysa gjaldmiðilsvandann sem við stöndum frammi fyrir núna. -Hann þyrfti að leysa sérstaklega enda tæki upptaka evru tekur mörg ár og fullnustu skilyrða.
Þá var fullyrt að það eitt að sækja um aðild mundi styrkja gengið vegna þess aukna trúverðugleika og trausts sem því fylgdi. Á þessu var klifað mörghundruð sinnum bæði fyrir og eftir kosningar.
Auðvitað var þetta tóm vitleysa eins og hófsamir fylgjendur aðildarumsóknar jafnt sem andstæðingar reyndu að benda á (og fengu bágt fyrir).

Aðildarumsókn var samþykkt og gengið hreyfðist ekki (í framhaldinu hefur það reyndar heldur gefið eftir).

Nú er það…

Nú halda viðskiptaráðherra og fleiri stjórnarliðar því fram að við eigum að samþykkja mörghundruð milljarða króna skuldbindingu í erlendri mynt til að fá aukinn trúverðugleika. Þá muni gengið styrkjast. Fáránleiki þess að halda því fram að styrkja megi gengið með stórkostlegri erlendri skuldsetningu má vera flestum ljós. Það ætti ekki að þurfa Hagfræðistofnun háskólans til að benda á það.

Nokkrir stjórnarliðar taka þó engum rökum en bæta þess í stað í áróðurinn. Nú leggja ráðherrar kapp á að selja þjóðinni þá sögu að með því að samþykkja Icesave-samningana, og taka á okkur gífurlegar erlendar skuldbindingar umfram skyldu, endurreisum við ímynd og trúverðugleika þjóðarinnar að því marki að hagvöxtur slái hér öll met og útflutningstekjur verði til úr engu þannig að gjaldeyrisafgangur verði ár eftir ár fjórfalt meiri en nokkru sinni í sögu landsins. -Þannig verði okkur kleift að greiða lánin (reyndar með því að ríkið nái á einhvern óskilgreindan hátt öllum gjaldeyrinum til sín og þjóðin herði sultarólina).

Þetta dýrasta almannatengslaundur mannkynssögunnar á að vinna með samþykkt samninga sem erlendir fjölmiðlar og almenningur hafa engan áhuga á (nema e.t.v. til að rifja upp hversu mikið tapaðist á Íslandi og fæst ekki bætt auk áframhaldandi umræðu um skuldavanda þjóðarinnar).

Gjaldeyrisvaraforðinn

Og jú, svo er það gjaldeyrisvaraforðinn. Viðskiptaráðherra heldur því fram að við verðum að samþykkja Icesave hvað sem líður réttlæti og kostnaði fyrir samfélagið vegna þess að einungis þannig fáum við lán til að bæta í gjaldeyrisvaraforðann. Með stækkun hans komi trúverðugleikinn og sterkara gengi.

Því er iðulega haldið fram að ekki standi til að eyða peningunum en að það eitt að hafa forðann auki trúverðugleikann og styrki gengið. Nokkrir kunnir hagfræðingar hafa bent á fáránleika þess að koma sér upp gjaldeyrisvaraforða sem ekki sé hægt að nota.
Raunverulegur gjaldeyrisforði verður ekki myndaður með lánsfé.

Þetta snýst þó ekki bara um varnir gegn spákaupmönnum. Ef ekki er raunveruleg innistæða fyrir gjaldmiðlinum þá selja menn hann (og gengið lækkar) ekki í spákaupmennsku heldur vegna þess að gjaldmiðillinn er ávísun á verðmæti sem ekki eru til staðar. Sé ríkið að kaupa sinn eigin innistæðulausa gjaldmiðil fyrir erlenda mynt er það í raun að niðurgreiða eigin gjaldmiðil og gera sölu hans hagstæða.

Aðalatriðið er að ekki er í raun hægt að styrkja gengið til lengri tíma litið með lánsfé.
Það ættu íslenskir stjórnmálamenn að vita manna best. Það var einmitt óhóflegt innstreymi erlends lánsfjár sem hélt uppi óeðlilega háu verði íslensku krónunnar árum saman (niðurgreiddi krónur). Niðurstaðan gat aðeins orðið á einn veg. Hrun gjaldmiðilsins.

Til að útskýra þetta má líkja gjaldmiðli við hlutabréf í viðkomandi landi. Ef undirliggjandi verðmæti (sem gjaldmiðillinn er mælikvarði á) aukast eykst verðmæti gjaldmiðilsins. Á sama hátt og hlutabréf eiga að hækka ef verðmæti fyrirtækisins sem þau eru mælikvarði á eykst. Ef undirliggjandi verðmæti minnka lækkar gengið gjaldmiðilsins eða hlutabréfanna. Verðmætið hverrar krónu (hlutabréfs) getur líka minnkað ef prentað er meira af peningum (gefin út fleiri hlutabréf) án þess að verðmæti aukist.

Það er ekki hægt að halda uppi gengi gjaldmiðils (til lengri tíma) með því að taka erlend lán til að kaupa upp gjaldmiðilinn rétt eins og fyrirtæki geta ekki (til lengri tíma) haldið uppi gengi hlutabréfa sinna með því að taka lán og kaupa hlut í sjálfum sér.

Að eyða gjaldeyrisforða í að halda uppi eigin gjaldmiðli er stórhættulegur leikur sem miklu stærri lönd en Ísland hafa farið flatt á. Eina skynsamlega leiðin til að styrkja gjaldmiðil er að auka verðmætasköpun og afgang af milliríkjaviðskiptum. Íslendingar hafa stórkostlegt tækifæri til þess svo framarlega sem ríkið tekur ekki á sig gífurlegar erlendar skuldir.

Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar

Ögmundur Jónasson lýsti því yfir í hámarki hins skuldsetta góðæris að hann vildi frekar að bankarnir, stolt þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, færu úr landi en að við breyttum samfélagsgildum okkar. Er fólk búið að gleyma því háði og spotti sem Ögmundur mátti þola fyrir vikið? Ögmundur fékk mikla gagnrýni m.a. í sömu fjölmiðlum og fluttu síðar Icesaveboðskap ríkisstjórnarinnar gagnrýnislaust. Öfugt við marga stjórnarliða sem hafa hvað eftir annað haldið fram hlutum sem ekki stóðust skoðun hefur Ögmundur unnið sér inn trúverðugleika.

Ögmundur stóð á sannfæringu sinni. En sannfæring dugar ekki ein og sér, allra síst ef hún breytist í sjálfsblekkingu. Það dugar ekki að setja undir sig hausinn og neita að hlusta á rök. Sannfæringin verður að byggjast á skynsamlegu mati og því að geta tekið rökum og endurmetið stöðuna. Það gerði Ögmundur þá og það gerir hann einnig núna og talar fyrir því að aðrir geri slíkt hið sama. Hann talar fyrir því að stjórnmálaflokkar vinni saman að lausn á því stóra sameiginlega hagsmunamáli sem það að koma þjóðinni úr Icesave-ógöngunum er.

Stjórnarandstaðan á að taka heilshugar þátt í tilraun að ná sameiginlegri niðurstöðu svo að fulltrúar þjóðarinnar geti beitt samtakamættinum til að verja hagsmuni Íslendinga. Sú sameiginlega niðurstaða verður þó að taka mið af gagnrýninni hugsun Ögmundar fremur en sýndarmennsku eins og málamyndafyrirvörum.

Ögmundur Jónasson hefur verið rödd skynsemi og nauðsynlegrar gagnrýni varðandi Icesave og IMF. Hann hefur sagt sannleikann á meðan aðrir beita blekkingum. Hann sýnir líka í verki vilja til að gera það sem stjórnin hét að gera, en hefur ekki staðið við, að auka samráð og styrkja þingræðið. Gangi það eftir mun það nýtast við lausn þeirra mála sem við stöndum nú frammi fyrir og þeirra sem í hönd fara.

Stjórnin má ekki leyfa sér að gera þetta mál að spurningu um framtíð ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan og fjölmiðlar mega heldur ekki að drepa málum á dreif með því skilgreina það sem klofning í ríkisstjórninni. Það er miklu frekar verið að skapa möguleikann á sameiginlegri niðurstöðu og upphefð þingræðis en klofning.
Ögmundur Jónasson styrkir því ríkisstjórnina fremur en að veikja hana.
Ríkisstjórnin þarf fleiri Ögmunda.