Endurreisn Íslands

Á undanförnum árum dró verulega úr trú minni á að  stjórnmál væru vettvangur þar sem hægt sé að láta gott af sér leiða. Á sama tíma og stjórnmálamenn virtust gefast upp fyrir markaðsöflunum einkenndist fas þeirra af sífellt meira dramblæti. Bæði leikreglur lýðræðisins og ráðleggingar fræðimanna voru virtar að vettugi, oftar en ekki með hroka og mannorðsmeiðingum fremur en málefnalegri umræðu. Þannig afsöluðu stjórnmálamenn sér þeim tækjum sem lýðkjörin stjórnvöld hafa til að sníða af vankanta markaðarins og til að tryggja velferð almennings.

Þessi þróun var aðeins ein af birtingarmyndum nýfrjálshyggjunnar sem gegnsýrði þjófélagið. Utan stjórnmálanna birtist nýfrjálshyggjan í skammsýni og óhóflegri efnis- og einstaklingshyggju. Gildi eins og samstaða og félagsleg ábyrgð viku fyrir ásælni. Því var jafnvel haldið fram að við ættum enga heimtingu á að krefja fyrirtæki um ábyrgð gagnvart samfélaginu. Það mátti einfaldlega ekki raska virkni markaðarins í þágu samfélagslegra gilda og markmiða. Græðgin var sögð góð og félagslegt réttlætti naut ekki forgangs í óheftu markaðshagkerfi.

Afleiðingarnar ættu að vera öllum ljósar. Hagkerfið var þanið til hins ítrasta, drifið áfram af hömlulausri skuldasöfnun. Til skamms tíma barst lítill hópur manna mikið á. Þeir voru hafðir upp til skýjanna fyrir einstaklingsframtak, útsjónarsemi og frumkvæði. Staðreyndin er hinsvegar sú að íslenska ríkið bjó þessum einstaklingum þau tækifæri sem þeir misnotuðu, og gerði það í umboði íslensku þjóðarinnar. Þegar bólan sprakk kom líka í ljós að ábyrgðin á gjörðum þessara manna féll á almenning. Þegar tækifæri einstaklinga koma frá fólkinu og þegar fólkið ber ábyrgð á gjörðum einstaklinga, þá á fólkið heimtingu á að einstaklingar sýni samfélagslega ábyrgð og að samfélagið njóti góðs af framtaksemi þeirra.

Hrun bankakerfisins breytti öllum forsendum íslenskrar þjóðmálaumræðu og afhjúpaði djúpstæða siðferðis- og stjórnmálakreppu. Sú staða sem nú er uppi kallar á að við endurskoðum grundvallar-hugmyndir okkar og endurreisum samfélagið á grunni nýrra hugmynda sem hefja raunverulegt mannleg og félagsleg gildi til vegs í stað ásælni og eigingirni. Virkni markaðarins hefur ekki forgang umfram velferð fólksins.

Því miður miða aðgerðir ríkisstjórnar fyrst og fremst að því að lappa uppá það kerfi sem beið gjaldþrot í byrjun síðastliðins októbermánaðar. Á meðan þrengja skuldir þjóðarbúsins, niðurskurður hins opinbera, veik staða krónunnar, hávaxtastefnan, verðbólgan, og vaxandi atvinnuleysi mjög að kjörum almennings og margir standa frammi fyrir að missa heimili sín og afkomu. Þessu fylgja vaxandi félagsleg vandamál sem geta sett mark sitt á Íslenskt samfélag um ókomna tíð. Kostnaðurinn af skammsýni ríkisstjórnarinnar er ekki aðeins mældur í krónum heldur einnig í öllum afleiðingum sem hún hefur fyrir líf fólksins í landinu.

Í desember skoraði hópur Framsóknarmanna á mig að gefa kost á mér til formennsku í Framsóknarflokknum. Áskorunin kom mér á óvart þar sem ég hef ekki verið virkur þátttakandi í stjórnmálum, hafandi ýmist búið erlendis eða starfað við fjölmiðla síðast liðinn áratug. Þetta töldu þeir sem til mín leituðu til kosta við núverandi aðstæður. Í því felst ekki vantraust á þeim sem fyrir eru heldur vilji til að sýna með ótvíræðum hætti að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til að vera leiðandi í stórtækum breytingum og endurbótum í samfélaginu.

Eftir að hafa ráðfært mig við fjölda flokksmanna ákvað ég að gefa kost á mér. Ákvörðunin byggði á því að í Framsóknarflokknum væri fjöldi fólks sem deildi þeirri skoðun minni að róttækrar endurnýjunar væri þörf í íslenskum stjórnmálum og að flokkurinn þyrfti að hverfa aftur að þeim grunngildum sem hann byggist á.

Framsóknarflokkurinn getur endurheimt frumkvæðið í íslenskum stjórnmálum með því að setja félagslegt réttlæti, samvinnu og samstöðu aftur á oddinn. Með því getur flokkurinn leitt þá hugmyndafræðilegu endurnýjun sem nú er þörf í íslensku samfélagi. Nýfrjálshyggjan hefur gengið sér til húðar og Íslands þarf á nýrri framtíðarsýn að halda. Það er kominn tími til að ábyrgð, hófsemd og skynsemi leysi ásælni, dramb, og kreddufestu af hólmi.