Björgunarsjóður evruríkja stækkaður?

Fregnir herma að til standi að stækka björgunarsjóð evruríkja (sem reyndar hefur enn ekki verið samþykktur) úr 440 milljörðum evra í 2.000 milljarða evra. Hugmyndin er sú að þannig sé hægt að leyfa Grikklandi að fara í þrot og nota peningana til að bjarga bönkum evrulandanna frá því að fylgja á eftir.

Fjármálaráðherra Þýskalands andmælir þessu enda á hann enn eftir að fá þýska þingið til að fallast á 440 milljarða sjóðinn. Íbúar Þýskalands og annarra evrulanda eru ekki hressir með áframhaldandi framlög í björgunarsjóði til að bjarga bönkum og skuldsettum ríkjum. Skyldi engan undra. Ef Ísland væri hluti af evrusvæðinu þyrftum við líklega að standa undir 0,1% af sjóðnum (landsframleiðsla Íslands er rúmlega 0,1% af landsframleiðslu evrusvæðisins). 0,1% af 2.000 milljörðum evra eru 2 milljarðar evra.

Miðað við gengi Seðlabankans eru það um 320 milljarðar evra og ef við segjum að raunverulegt gengi eða aflandsgengi evru sé um 200 kr. þyrftu Íslendingar að ábyrgjast um 400 milljarða kr. hlutdeild í sjóðnum. Það nálgast það að vera þreföld útgjöld ríkisins til heilbrigðis- og velferðarmála. Þetta eru meira en milljón krónur á hvert mannsbarn.

Svo má velta fyrir sér hvernig hefði farið ef við hefðum verið orðin hluti af evrusvæðinu þegar bankakrísan hófst. Varla þarf að efast um að þá hefði ríkið verið látið dæla erlendu lánsfé inn í bankana á sama hátt og á Írlandi. Ef það hefði gerst væri Ísland jafngjaldþrota og Grikkland.