Um Eurovision, Bakú og skipulagsmál

Sem áhugamaður um fyrrum Sóvíetríkin, Eurovision, skipulagsmál, fréttaflutning og umræðu byggða á staðreyndum kemst ég ekki hjá því að fjalla aðeins um stóra Eurovisionmálið í Bakú.

Fyrst nokkrar staðreyndir:

Eurovision-höllin (Kristalshöllin) í Bakú var byggð á auðri landfyllingu. Það er því augljóslega ekki rétt sem fram kom í frétt BBC, sem varð upphafið að umræðunni á Íslandi, að verið sé að rífa hús í miðbæ Bakú til að rýma fyrir höllinni. Nú þegar eru aðeins rúmir þrír mánuðir í keppnina er höllin enda langt komin. Hún er hönnuð af þýskum arkitektum og byggð af austurrískum og svissneskum verktökum.

Landfyllingin er ekki í miðborginni heldur í Baílovo-hverfinu skammt suður af miðbænum. Baílovo var áður sjálfstæður hafnarbær. Þar var, og er, flotastöð og höfnin liggur á milli byggingarsvæðisins og miðbæjarins.

Sjá loftmynd HÉR og teikningu HÉR.
Á loftmyndinni er byggingarsvæði hallarinnar sýnt með grænni pílu vestur af stóra hvíta flekknum. Hvíti flekkurinn er svo kallað Þjóðfánatorg en þar var hæsta fánastöng í heimi (162 m) þar til Tatsjíkar ákváðu að skjóta Aserum ref fyrir rass og fengu sama risafánastangaframleiðanda til að reisa 165 m fánastöng.

Það er því ekki verið að rífa nein hús í miðbænum til að rýma til fyrir Eurovisionhöllinni. Hins vegar hafa miklar framkvæmdir verið í Bakú undanfarin ár og stefnt er að því að sem mestu verði lokið fyrir keppnina.

Samkvæmt frétt BBC fá eigendur fasteigna sem teknar eru eignarnámi vegna einhverra framkvæmda sem sagðar voru tengjast Eurovision greiddar sem nemur rúmum 230.000 kr. á fermeter í skaðabætur . Samkvæmt Numbero tölfræðivefnum var meðalverð fasteigna í miðborg Bakú (febrúar 2012) um 275.000 krónur (en verðið er á bilinu 153.000-480.000 kr.). Meðalverð utan miðborgarinnar er 96.000 kr.

Með því að benda á þetta er ekki lítið gert úr mannréttindabrotum í Aserbaídsjan. Auk þess er að sjálfsögðu mjög alvarlegt ef fólk er hrakið af heimilum sínum með ofbeldi eða ógnunum. Ég veit ekki hvort stjórnvöld í Aserbaídsjan standa að slíku. Sé sú raunin er rétt að berjast gegn því á alþjóðavettvangi eins og öðrum mannréttindabrotum.

Því miður er hins vegar algengt í sumum borgum Austur Evrópu, þar sem fasteignaverð hefur hækkað mikið, að fólk sé hrakið burt af heimilum sínum með svikum eða ofbeldi. Það eru hins vegar yfirleitt glæpagengi en ekki stjórnvöld sem koma þar við sögu (þótt vissulega eigi það að vera skylda stjórnvalda að vernda fólk fyrir slíku).

Í Bakú og Moskvu og mörgum borgum Austur Evrópu hafa á undanförnum árum og áratugum verið byggðar hræðilega ljótar póstmódernískar byggingar þar sem lítið tillit er tekið til sögu eða umhverfis en mikill munur er á því hversu vel borgir standa vörð um menningarverðmæti og mannvænlegt skipulag.

Það er gríðarlega mikilvægt að skipulagsmálum sé stýrt þannig að það skapi hvata til að varðveita og bæta fallegt og sögulegt umhverfi en ekki öfugt. Ótal dæmi eru um það á Vesturlöndum, ekki síður en í Austur Evrópu, að þensla á fasteignamarkaði og óheppileg stefna í skipulagsmálum skapi hættulega hvata sem leiða jafnvel til þess að fólk neyðist til að selja heimili sín til niðurrifs.

Það er t.d. afleitt hvernig farið hefur verið með Skuggahverfið í Reykjavík, fyrst með skipulaginu frá 1983 og svo með gríðarlegum niðurrifs og byggingaráformum uppúr aldamótum sem urðu til þess að íbúar sem gert höfðu upp hús í hverfinu hröktust burt.

Enn sér ekki fyrir endann á slíkri óheillaþróun í Skuggahverfinu og víða í miðbæ Reykjavíkur. Víða býr fólk við óvissu um nánasta umhverfi sitt og í grennd við hús sem látin eru drabbast niður og eyðileggjast vegna óskynsamlegrar stefnu í skipulagsmálum.