Sérstaðan blæs lífi í miðbæinn

Áður en lengra er haldið langar mig að þakka þeim sem sendu mér hvatningarorð vegna greinar sem ég birti í gær um stöðu skipulagsmála í Reykjavík. Greinina birti ég vegna þess að ég ef verulegar áhyggjur af þróun mála og þá er gott að heyra að margir deila þeim áhyggjum og vilji sjá breytingar. Vonandi líta borgaryfirvöld á skrifin sem uppbyggilega gagnrýni í stað þess að hrökkva í varnarstöðu.

Einhvers staðar sá ég haft eftir borgarstjóra að ekki væri langt síðan miðborginni hefði verið spáð “dauða”. Merkja mátti af orðum borgarstjórans að fyrir vikið ættu menn að gleðjast yfir hinni miklu ásókn í að byggja og fjölga fermetrum í miðbænum.

Það er rétt að fyrir ekki svo mörgum árum voru sumir svartsýnir á framtíð miðbæjarins og það var einmitt á grundvelli þeirrar svartsýni sem ráðist var í skipulag sem gerði ráð fyrir gríðarmiklu niðurrifi og stórum nýbyggingum í staðinn. Fullyrt var að miðbæinn skorti fyrst og fremst stórt verslunarrými til að geta keppt við verslunarmiðstöðvarnar og annað verslunarhúsnæði í öðrum borgarhlutum og nágrannasveitarfélögum.

Á þeim tíma benti ég á að miðbærinn gæti aldrei keppt við Smáralind eða Kringluna í fjölda bílastæða eða fermetrum stórverslana, hvað þá veðurfari. Miðbærinn þyrfti að keppa á eigin forsendum, ekki með því að reyna að verða aðeins meira eins og verslunarmiðstöðvarnar heldur með því að nýta og efla eigin styrkleika. Hann ætti að byggja aðdráttarafl sitt á sérstöðu sinni og auka hana til að verða betri útgáfa af sjálfum sér en ekki draga úr henni til að verða lakari útgáfa af einhverju öðru.

Reynslan hefur svo sýnt að það líf sem færst hefur í miðbæinn stafar einmitt af sérstöðu hans. Ferðamenn flykkjast í gamla bæinn, fólk vill búa þar, ekki vegna þess að þar hafi verið reistar stórar verslanir eða skrifstofuhúsnæði heldur vegna hinnar sögulegu byggðar, vegna þess að “karakterinn” hefur varðveist. Með öðrum orðum, miðbærinn í Reykjavík bjargaðist frá “dauða” – ekki vegna áforma um stórfellt niðurrif og uppbyggingu heldur vegna þess að þau áform urðu ekki að veruleika.

Mýtan um að það þyrfti fyrst og fremst stærra verslunarrými afsannaðist. Eins og ég benti á á sínum tíma er eðli gamals miðbæjar slíkt að hann ætti að sérhæfa sig í smærri sérverslunum, í því lægju styrkleikar hans. Hvernig fór svo með stærsta og nútímalegasta verslunarrýmið í miðbænum? Helstu dæmin eru verslun 17 og hið nýbyggða, stóra, verslunar- og íbúðarhús á svo kölluðum Stjörnubíósreit, auk stórs og “nútímalegs rýmis á Laugaveg 7, þar sem áður voru söluskrifstofur Flugleiða.

IMG_3617

Allt stóð þetta mikla og nútímalega verslunarrými autt mánuðum ef ekki árum saman þar til því var skipt upp í minni rými. Í Flugleiðahúsinu varð eitt stórt rými að fjórum minni og sömu sögu var að segja af stærstu framkvæmdinni til að bjarga miðbænum frá “dauða”, Stjörnubíóshúsinu, því var skipt upp í fjórar minni verslanir.

Svo getur það gerst þegar miðbær fer að virka sem skyldi, og ásókn í hæfilega stórt verslunarrými eykst, að verlsanirnar verði of einsleitar og reynt sé að bola burt gamalgrónum búðum sem þraukað hafa í gegn um þykkt og þunnt. Þá er það lúxusvandamál borgarstjórnenda að leysa úr slíku. Það er hins vegar vandamál engu að síður, sem ekki má líta framhjá.