Ræða mín við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra 3. október 2011

Virðulegur forseti, góðir Íslendingar.

Fyrir ári síðan stóðu, eins og nú, þúsundir manna á Austurvelli og mótmæltu á meðan forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Þá hafði ríkisstjórnin lýst því yfir að hún væri búin að gera allt sem til stæði að gera til að bregðast við vanda heimilanna.

En eftir mótmælin ákvað forsætisráðherra að skipa nefnd. Nefndin fundaði vikum saman í Þjóðmenningarhúsinu. Niðurstaðan var að gera nánast ekkert umfram það sem fjármálafyrirtækin höfðu þegar lagt drög að sjálf. Þau gengu í raun lengra að eigin frumkvæði en stjórnvöld höfðu ætlast til.

Við þingsetningu í fyrradag afhentu fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna forsætisráðherra undirskriftir 34 þúsund Íslendinga sem sem krefjast leiðréttingar á lánum heimilanna. Forsætisráðherra sagðist þá ætla að skoða málið og vilja komast að hinu rétta varðandi svigrúm bankanna. Komast að hinu rétta?

Veit forsætisráðherra ekki hvert svigrúm bankanna er? Eftir þrjú ár, eftir alla fundina í Þjóðmenningarhúsinu? Var það ekki þessi ríkisstjórn sem ákvað hvernig lánin yrðu yfirfærð? Hverjir ættu að vita betur hvert svigrúm bankanna er en ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem stofnaði þá?

Þegar framsóknarmenn bentu á þá möguleika sem voru á að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu í febrúar 2009 taldi forsætisráðherra ekkert svigrúm til þess og reiknaði hverja krónu sem kostnað fyrir ríkið. Samt var þá ekki búið að ákveða afskriftahlutfall lánanna.

Skýrsla fjármálaráðuneytisins um endurreisn bankanna sýnir að tekin var meðvituð ákvörðun um að afskrifa minna en tilefni var til og það voru ekki heimilin heldur erlendir kröfuhafar sem nutu ávaxtanna. Það svigrúm sem hefði átt að nýta til að færa niður skuldir heimilanna er nú þess í stað fært sem milljarða hagnaður í bókum bankanna og fer að lokum út úr þeim sem arður til erlendra vogunarsjóða.

Í stað almennrar skuldaleiðréttingar kaus ríkisstjórnin að búa til flókin sértæk úrræði sem hafa einfaldlega ekki virkað. Aðeins lítill hluti þeirra sem sótt hafa aðstoð til umboðsmanns skuldara hefur fengið lausn sinna mála. 110% leiðin er strax orðin að að minnsta kosti 130% leið vegna verðbólgu og vaxtahækkana og fjármálafyrirtæki forðast að beita sértækri skuldaaðlögun því að hún er of flókin í framkvæmd.

Fólkið sem stendur hér fyrir utan Alþingishúsið þarf almenna skuldaleiðréttingu, ekki sértækar bankaflækjur og tilsjónarmenn. Það verður að gefa fólki tækifæri á að vinna sig út úr skuldavandanum. Sé það ekki gert tapa allir.

Það verður líka að snúa við þeirri neikvæðu keðjuverkun sem heldur atvinnulífi á Íslandi í frosti.

Forsætisráðherra segist nú enn einu sinni ætla að búa til sjöþúsund störf. Í kosningaauglýsingum vorið 2009 sagðist Samfylkingin þegar vera búin að leggja grunn að 6000 nýjum störfum á næstu mánuðum. Hvenær koma næstu mánuðir á eftir apríl 2009? Enn hefur ekkert til þessara starfa spurst annað en endurteknar yfirlýsingar forsætisráðherra. Stundum eru störfin 2000, stundum 4000 en oftast 7000 og nú er bætt um betur því lofað er og öðru eins til viðbótar. 14.000 störf, væntanlega á næstu mánuðum, hvenær sem þeir koma.

En í stað þess að störfum fjölgi heldur fólk áfram að yfirgefa landið í leit að vinnu.

Og það eru ekki aðeins áformin um atvinnusköpun sem ekki hafa gengið eftir. Spár um hagvöxt standast ekki en þá er brugðist við með því að gera ráð fyrir enn meiri hagvexti í framtíðinni. Í sumar spáði forsætisráðherra 4-5% hagvexti á næsta ári. Nú stefnir í að hann verði um eitt og hálft prósent.

Jöfnuði í ríkisfjármálum er frestað hvað eftir annað og svo leyfir forsætisráðherra sér að bera afkomu ríkissjóðs nú saman við árið 2008, árið sem kostnaðurinn af hruni fjármálakerfisins féll á ríkið. Slíkur samanburður er ekkert annað en fölsun.

En þetta þyrfti ekki að vera svona. Eftir snarpa niðursveiflu fylgir yfirleitt tímabil fjárfestingar og hagvaxtar. Undanfarin ár hefur Ísland á margan hátt verið kjörlendi fyrir nýja fjárfestingu. Hér er mikið af hæfu vinnuafli, gjaldmiðillinn er lágt skráður, innviðir eru sterkir, auðlindir miklar og staðsetning landsins að verða kostur frekar en galli.

Enda hafa menn undirbúið tugi atvinnuskapandi verkefna með bæði innlendri og erlendri fjárfestingu. En ekkert verður úr því stjórnvöld standa í vegi fyrir allri fjárfestingu ýmist beint eða með stefnu, m.a. í skattamálum, sem hefur nú komið Íslandi á lista yfir lönd þar sem veruleg pólitísk áhætta fylgir fjárfestingum. Ísland er nú sett í flokk með Rússlandi, Egyptalandi og löndum Suður Ameríku í mati á pólitískri áhættu. Það er ekki að undra að fjárfesting sé í sögulegu lágmarki.

Eins og forsætisráðherra hefur sjálfur bent á hafa erlendir hagfræðingar, jafnvel nóbelsverðlaunahagfræðingar haldið því fram að Ísland hafi komist betur frá efnahagshruninu en önnur lönd. Þar vísa þeir þó fyrst og fremst í tvennt.

Annars vegar að Íslendingar skuli ekki hafa dælt fjármagni í gjaldþrota bankakerfi og hins vegar að sjálfstæður gjaldmiðill hafi gert Íslendingum mun betur kleift að bregðast við áfallinu en til að mynda Grikkjum, Portúgölum og Írum.

En hvað gera stjórnvöld með þetta tvennt? Alefli hefur verið beitt við að færa tap einkabanka yfir á almenning eftir að þeir voru komnir í þrot og í stað þess að nýta kostina við krónuna, sem vissulega hefur sína galla, er komið í veg fyrir að sú fjárfesting sem kostir hennar hefðu átt að skapa nái fram að ganga.

Við það bætist að Seðlabankastjóri ríkisstjórnarinnar og efnahagsráðherrar lýsa því yfir að gjaldmiðill landsins sé ónýtur og hér verði höft um fyrirsjáanlega framtíð.

Fjármálaráðherra flækir skattkerfið, breytir sköttum og hækkar þá hundrað sinnum og segist vera rétt að byrja.

Forsætisráðherra flytur þjóðnýtingarræður sem Vladimir Lenin hefði talið sig fullsæmdan af.

Fyrir vikið höfum við ekki nýtt þau tækifæri sem spruttu upp eftir hrun. Áhuginn er til staðar en alls staðar rekast menn á pólitíska veggi.

Virðulegur forseti.

Hverra er kreppan sem við erum að fást við í dag?

Er það kreppa ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks þar sem núverandi forsætisráðherra var í sérstökum aðalráðherrahópi um efnahagsmál?

Ríkisstjórnar sem jók ríkisútgjöld meira en dæmi eru um í Íslandssögunni í hápunkti þenslunnar og brást ekki við hættuástandi sem blasti við, eins og frægt er orðið í níu bindum?

Er það kreppa ríkisstjórnanna þar á undan, eins og sumir vilja halda fram, vegna þess að þær komu ekki í veg fyrir að bankar nýttu sér gallaðar reglur evrópska efnahagssvæðisins til að byggja spilaborgir?

Eða er þetta löngu orðin kreppa ríkisstjórnar sem hefur staðið í vegi fyrir þeim tækifærum sem blasað hafa við en þess í stað lagt kapp á að tryggja vald sitt og innleiða pólitíska öfgastefnu sem hvergi hefur virkað?

Þegar síðustu þrjú ár eru skoðuð blasir svarið við. Hvað sem líður mistökum fyrri ára og áratuga og ýmsum réttmætum ábendingum um hvað betur hefði mátt fara og eigi betur að fara í framtíðinni, er sú staða sem samfélagið er í nákvæmlega núna afrakstur þessarar ríkisstjórnar. Hrunið var afleiðing af misnotkun gallaðrar frjálshyggju en núna erum við stödd í sósíalistakreppu.

Núverandi ástand er skapað af núverandi valdhöfum og er á ábyrgð þeirra. Það er afleiðing af skaðlegri efnahagsstefnu og aðgerðaleysi.

Ríkisstjórnin er hins vegar ekki reiðubúin til að taka ábyrgð á eigin gjörðum. Þess í stað reynir hún að láta umræðuna snúast um ábyrgð og stöðu Alþingis enda þótt minnihlutinn á þingi hafi ekkert að gera með þá stefnu sem hér er rekin.

Ég frábið mér að ríkisstjórnin reyni að gera þingmenn alla ábyrga fyrir misheppnaðri stefnu sinni og draga Alþingi niður með sér. Eða minnist þess einhver að þegar Jóhanna Sigurðardóttir var í stjórnarandstöðu og gagnrýndi aðgerðir stjórnvalda hafi hún talað um að ábyrgðin væri þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar?

Það að ætla að gera alla ábyrga fyrir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin knýr fram með góðu eða illu er óboðlegur og ólýðræðislegur málflutningur.

Framsókn hefur frá upphafi boðað allt aðra stefnu, sem hefur með tíð og tíma sannað gildi sitt. Við höfum síðastliðin tvö ár lagt fram fjölmargar tillögur til lausna. En þær hafa verið slegnar út af borðinu eða svæfðar í nefndum.

Nú ber svo við að forsætisráðherra, sem haldið hefur lengstu ræðu í 1081 árs sögu Alþingis og fjármálaráðherra sem er hefur líklega slegið öll met í samanlögðum ræðutíma kveinka sér undan því að þingmenn stjórnarandstöðu tali of mikið í nokkrum málum.

Hvað er átt við? Áttum við að tala minna um Icesave svo að hægt væri að þvinga í gegn samning sem hefði stóraukið skuldir ríkisins og kostað 40 milljarða á ári bara í vexti í erlendum gjaldeyri sem ekki er til?

Áttum við að tala minna um sjávarútvegsfrumvörpin sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegn án þess að hafa lagt mat á efnahagsleg áhrif þeirra, frumvörp sem fengu ekki eina einustu jákvæða umsögn?

Áttum við að tala minna um gjaldeyrishöftin svo ríkisstjórnin gæti innleitt Austur-þýska fimm ára áætlun í gjaldeyrismálum?

Áttum við að tala minna um tilraun forsætisráðherra til að færa sér aukin völd, frumvarp sem formaður þingmannanefndarinnar um rannsóknarskýrsluna sagði ganga þvert gegn þeim stjórnkerfisumbótum sem þar var stefnt að og ráðherra í ríkisstjórninni sagði fela í sér harða valdbeitingu?

Við hvað er átt? Staðreyndin er sú að nánast öll mál ríkisstjórnarinnar fara í gegnum þingið mótatkvæðalaust. Á sama tíma fást frumvörp og tillögur stjórnarandstöðuflokkanna varla ræddar, sama hversu skynsamlegt innihald þeirra er.

Jóhanna Sigurðardóttir kvartaði sáran yfir því á árum áður að Davíð Oddsson notaði Alþingi sem afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Það er kaldhæðnislegt að Jóhanna hefur nú sjálf fullkomnað afgreiðslukerfið.

Virðulegi forseti.

Nú þegar ríkisstjórnin stendur frammi fyrir afleiðingum þess sem hún hefur gert og ekki gert heyrist æ oftar spurningin: “Telja menn að staðan væri eitthvað betri ef aðrir væru við völd?” Svarið við þeirri spurningu er einfalt og stutt.

Svarið er já!

Já, staðan gæti verið miklu betri. Ef tillögum Framsóknar hefði verið fylgt undanfarin þrjú ár væri staðan allt önnur og miklu miklu betri. Og við getum sýnt fram á það.

Þá hefði samfélagið ekki tapað hundruðum milljarða að óþörfu við stofnun nýju bankanna. Skuldamál heimila og fyrirtækja væru komin í betra horf, almenningur og atvinnurekendur vissu hvar þeir stæðu, gætu gert áætlanir og væru byrjaðir að vinna sig úr þeim vanda sem eftir stæði.

Tugur fjárfestingaverkefna hefðu ekki glatast vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Fyrirtæki gætu fjárfest og ráðið fólk til starfa. Fólk þyrfti ekki að flytja til útlanda frá vinum og ættingjum til að fá vinnu við hæfi.

Í tvö og hálft ár væri búið að vinna að losun gjaldeyrishafta með aðferðum sem framsóknarmenn lögðu til í byrjun árs 2009 en eru fyrst nú að komast til framkvæmda og þá aðeins að litlu leyti.

Plan ríkisstjórnarinnar er búið að fá sinn reynslutíma. Það er fyrir löngu orðið ljóst að það plan virkar ekki. Það er því ekki seinna vænna að fara að ræða plan B. Tækifærin eru óþrjótandi en því lengur sem við bíðum þeim mun erfiðara verður að nýta þau.

Góðir Íslendingar.

Við okkur blasa bæði ógnir og ómæld tækifæri.

En ógnin er smávægileg samanborið við þau gífurlegu tækifæri sem standa Íslandi til boða nú og í framtíðinni. Það eina sem við þurfum að gera er að nýta tækifærin. Byggja upp í stað þess að brjóta niður.

Til þess þurfum við stjórnvöld sem gæta hagsmuna landsins. Við þurfum stjórnvöld sem efla með íslensku þjóðinni kjark og von. Stjórnvöld sem veita stöðugleika og hafa skýra sýn á framtíðina. Stjórnvöld sem taka á skuldavandanum og hafa að leiðarljósi að byggja upp atvinnulíf og velferðarsamfélag á Íslandi á ný. Okkur tókst það á undraskömmum tíma á tuttugustu öldinni og okkur mun takast það aftur.

Það er engin ástæða til að Íslendingar geti ekki nú, eins og áður, fyllst bjartsýni og von. Viljinn er allt sem þarf. Og í raun eigum við að hafa meira en von. Við eigum að hafa trú. Óbilandi trú á bjarta framtíð Íslands.