Pöntuð heimsendaspá um skuldaleiðréttingu. Muna menn heimsendaspárnar um Icesave?

Nú hefur ríkisstjórnin látið skrifa fyrir sig enn eina skýrsluna um skuldaleiðréttingu og enn á ný á sömu forsendum. Til að vera viss um að fá sömu niðurstöðu og áður voru m.a. sömu aðilar og skiluðu sams konar skýrslu fyrir nokkrum mánuðum fengnir í verkið.

Enn sem fyrr er einkum litið á aðra hlið málsins og ekkert mat lagt á hvað það kostar samfélagið að ráðast EKKI í aðgerðir vegna skuldavandans. Jafnframt er í meginniðurstöðum gert ráð fyrir að allt myndi innheimtast upp í topp þótt skuldir yrðu ekki lækkaðar og gert ráð fyrir að ríkið tæki allan kostnaðinn á sig.

Þess er að vísu getið í skýrslunni að eins og sakir standi sé ólíklegt að allt myndi innheimtast og því sé kostnaðurinn ofáætlaður. Það er hins vegar ekki gert meira með þá staðreynd og hennar hefur hvergi verið getið í fréttum.

Það er einfaldlega talað um að kostnaðurinn við 20% niðurfærslu lána nemi á bilinu 172 milljörðum króna (ef 70% kostnaðar lendir á ríkinu) að 250 milljörðum (ef allt lendir á ríkinu) og litið fram hjá því að þessar tölur séu sagðar ofmat í skýrslunni sjálfri. Hvað varðar efnahagsleg áhrif er lítið hugað að efnahagslegum ávinningi.

Þess í stað er áhersla lögð á að lýsa þeim efnahagslegu hörmungum sem skýrsluhöfundar telja að yfir landið myndu ganga ef ráðist yrði í niðurfærslu lána. Þeir fara út í alls konar fabúleringar út frá eigin forsendum: Skattar myndu hækka, ríkið tæki gríðarlega há lán til áratuga og vaxtagreiðslurnar myndu sliga það, lánshæfismat kæmi til með að lækka og vaxtaálag að hækka.

Þjónusta hins opinbera við almenning drægist saman. Vextir myndu hækka, það dregur úr áhuga á húsbyggingum og öðrum fjárfestingum, bankar draga úr útlánum og um leið eykst óábyrg lántaka fólks! Verðbólguþrýstingur gæti leitt til þess að Seðlabankinn hækkaði vexti enn frekar. Ungir og gamlir verða fyrir mestu skakkaföllunum og jafnvel komandi kynslóðir sem greiða munu skuldina með hærri sköttum og minni þjónustu hins opinbera.

Önnur eins hörmungaspá hefur ekki sést frá því verið var að deila um Icesave-samningana, en þá var því reyndar haldið fram að hörmungarnar myndu dynja á þjóðinni ef hún féllist EKKI á að auka skuldir ríkissjóðs stórkostlega. Reyndar er sú ýkta skuldaaukning ríkisins sem skýrsluhöfundar telja að gæti leitt að niðurfærslu lána miklu minni en það sem lent hefði á ríkinu með samþykki Icesavesamningsins, hvað sem líður góðum endurheimtum þrotabús Landsbankans.

Gert var ráð fyrir að ríkið tæki um 700-800 milljarða króna að láni og greiddi af því um 40 milljarða í vexti á ári í erlendri mynt. Munurinn var auk þess sá að niðurfærsla á skuldum heimilanna fæli ekki í sér beina færslu fjármagns úr landinu. Fjármagnið rynni til íslenskra fjölskyldna og myndi veltast áfram í hagkerfinu. Icesave-greiðslurnar hefðu hins vegar farið úr landi í erlendri mynt (sem auk þess var ekki til). Áhrifin af því hefðu eingöngu verið neikvæð og miklu meiri en af niðurfærslu lána.

Það er því vægast sagt kaldhæðni í því fólgin að sama fólk og barðist fyrir því að íslenskur almenningur tæki á sig tap Landsbankans skuli nú óttast efnahagsleg ragnarök ef skuldir heimilanna verða færðar niður. Það er ekki þar með sagt að það sé röng niðurstaða að niðurfærsla lána sé orðin miklu dýrari en hún var og sé jafnvel orðin óframkvæmanleg. En það er þá fyrst og fremst staðfesting þess hversu gífurlega kostnaðarsöm afglöp ríkisstjórnarinnar voru þegar nýju bankarnir voru stofnaðir án þess að taka á skuldamálum heimilanna.

Miðað við niðurstöður skýrslunnar er stærð gjafar ríkisstjórnarinnar til kröfuhafa bankanna, á kostnað heimilanna, slík að ef annað eins yrði gert aftur myndi það skerða lífskjör og lífsgæði í landinu um áratuga skeið, hugsanlega um alla framtíð.

Menn geta þá velt því fyrir sér hversu mikil áhrfi það hefði haft til góðs að taka almennilega á skuldamálunum á meðan tækifæri var til. Tækifæri sem var ekki aðeins sanngjarnt heldur líka framkvæmanlegt og rökrétt.

Skýrsla fjármálaráðherra um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána er enn ein staðfesting þess hversu dýr ríkisstjórnin er orðin samfélaginu.