Kvalir amerískra hvala

Það kom á daginn að sumum fannst ekki við hæfi að kalla Bandaríkjamenn mestu hvalveiðiþjóð heims (og sjá ekkert að því að þeir amist við takmörkuðum hvalveiðum Íslendinga). Þeim finnst ekki við hæfi að telja með hvali sem veiddir eru af frumbyggjum. Þau 2.760 tonn sem Bandaríkjamenn veiddu árið 2012 teljast þannig léttvægari en 260 tonn Íslendinga, enda Íslendingar einhverra hluta vegna ekki taldir frumbyggjar. Þetta eru þó bara hinar „formlegu veiðar“. Jafnframt er litið framhjá þeim hvalveiðum þar sem hræjunum er hent fremur en að verka þau og nýta.

Höfrungar eiga það til að elta túnfiskstorfur. Þetta hafa Bandaríkjamenn nýtt sér um áratugaskeið og veitt ógrynni höfrunga í von um að túnfiskur slæddist með. Á seinni hluta tuttugustu aldar voru 6 til 7 milljónir höfrunga drepnir í vestanverðu Kyrrahafi. Til samanburðar nam öll atvinnuhvalveiði allra þjóða alla tuttugustu öldina um 2 milljónum dýra, eða innan við þriðjungi „brottkastsins“ í túnfiskveiðinni. Eins og nærri má geta hrundi höfrungastofninn í Kyrrahafi og nú hefur dregið mjög úr slíkum veiðum. Sé litið til fjölda dýra eru þó árlega margfalt fleiri höfrungar drepnir á þennan hátt en nemur hvalveiðum Norðmanna, svo ekki sé minnst á Íslendinga.

Þá er þó ekki allt upp talið. Náttúruverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa undanfarin ár safnað undirskriftum gegn því að þarlend yfirvöld veiti bandaríska hernum „kvóta“ til að sprengja og  höfrunga og önnur dýr af ættbálki hvala. Á þessu ári mun sjóherinn hefja nýjar tilraunir með neðansjávarsprengjur og önnur hergögn. Tilraunirnar munu standa til 2019. Bandaríski sjóherinn áætlar að 341 hvalur drepist, 13.306 særist alvarlega, 3,75 milljónir hljóti minniháttar tjón á borð við tímabundið heyrnarleysi og í 27,7 milljónum tilvika geti tilraunirnar truflað atferli dýranna.

Íslendingar munu meta hvort rétt sé að veiða hval út frá hagsmunum landsins. Þar verður tekið mið af sjálfbærni, efnahagslegum forsendum og áhrifum á aðrar atvinnugreinar, t.a.m. hvalaskoðun. Afstaðan mun hins vegar ekki ráðast af umvöndunum þeirra sem telja að aðrar reglur eigi að gilda um okkur en þá sjálfa.