Hver skuldar hverjum hvað?

Lögmennirnir Þorsteinn Einarsson og Þórhallur H. Þorvaldsson sendu þingmönnum bréf og skrifuðu grein í Morgunblaðið til að vekja athygli á möguleikanum á því að skuldajafnað yrði gagnvart breska ríkinu vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum (sem þá var orðinn íslenskur ríkisbanki) og íslenska ríkinu. Þeir bættust þar með í hóp fólks sem hefur séð sig knúið til að koma stjórnvöldum til aðstoðar vegna þess hvernig haldið hefur verið á málinu. Það er með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki hafa kallað færustu sérfræðinga heims  til aðstoðar (margir þeirra hafa boðið fram aðstoð) í ljósi þess að um er að ræða hagsmuni sem nema allt að 1.000 milljörðum króna (1.000.000.000.000kr.). Aðeins vextir sem lenda að óbreyttu á Íslendingum nema a.m.k. 100 milljónum á dag.

Nú þegar búið er að ákveða að fara fyrirvaraleiðina, sem enn er að miklu leyti óljós, ekki hvað síst varðandi gildi lagalegu fyrirvaranna og þ.m. þá efnahagslegu líka, hefur Alþingi ekki beðið einn einasta sérfræðing í enskum lögum (eða bara einhvern enskan lögmann) svo mikið sem að lesa fyrirvarana yfir og gefa álit. Það er þrátt fyrir að ensk lög eigi að gilda um samninginn og allur ágreiningur um hann skuli leystur fyrir enskum dómstólum.

Í desember á síðasta ári reyndi InDefence-hópurinn að vekja athygli stjórnvalda á því að ekki mætti líta fram hjá beitingu hryðjuverkalaganna, eignafrystingu og yfirtöku Kaupþings Singer & Friedlander í tengslum við Icesave deiluna. Nokkrir þingmenn, einkum Samfylkingar, tóku því þá afar illa og sögðu að alls ekki mætti blanda þessum málum saman. Raunar var þáverandi ríkisstjórn ótrúlega treg til að grípa til varna vegna hryðjuverkalaganna. Flestir stjórnarþingmenn þorðu ekki einu sinni að gagnrýna hryðjuverkalagaárásina fyrr en löngu seinna þegar álit kom frá breska þinginu sjálfu þess efnis að beiting laganna hefði verið óásættanleg.

Mikið var á sínum tíma reynt að fá stjórnvöld til að höfða mál vegna beitingar hryðjuverkalaganna, síðast með blaðamannafundi InDefence áður en málshöfðunarfresturinn rann út og fundum með þingmönnum síðla kvölds í þinghúsinu skömmu áður en fresturinn rann út.
Það eitt að höfða mál vegna hryðjuverkalaganna hefði styrkt stöðu Íslendinga rétt eins og kröfuhafar íslensku bankanna hafa stefnt íslenska ríkinu til að styrkja samningsstöðu sína.
Enn eru þó aðrar leiðir færar eins og Þorsteinn og Þórhallur benda á og að sjálfsögðu ber að skoða þessi mál í samhengi.

Eignir sem nú tilheyra Gamla Landsbankanum voru metnar á 3.431 milljarð þann 14.11.08. Nú eru þær metnar á 1.100 milljarða (í báðum tilvikum er reiknað með skuldabréfi frá Nýja Landsbankanum upp á 284 milljarða en það skiptir ekki máli)*. Ef miðað er við að 75% af því innheimtist eins og gert er við mat á Icesave-samningunum eru það 825 milljarðar. Í fjármálakrísunni hefur sannast að það hefur gríðarleg áhrif á verðmæti eigna hver er skráður eigandi. Þekkt er að eignir íslenskra fyrirtæka eru lægra metnar fyrir það eitt að tilheyra íslenskum fyrirtækjum. Hvaða áhrif ætli það hafi á verðmæti eigna fyrirtækis þegar það er skráð opinberlega á lista með hryðjuverkasamtökum, Al Kaída, Talíbönum, ógnarstjórninni í Súdan, Norður Kóreu osfrv? Óumdeilt er að áhrifin voru gífurleg. Svo ekki sé minnst á áhrifin af því að eignir bankans voru frystar mánuðum saman svo að ekki var hægt að gera ráðstafanir til að búa um þær eða koma þeim í skjól á meðan eignabruninn var sem mestur á fjármálamörkuðum.

Ef við erum sæmilega varfærin og gefum okkur að verðmæti eignanna hefði t.d. rýrnað 20% minna hefðu þær ekki verið frystar og hryðjuverkastimpill settur á bankann er munurinn 466 milljarðar ((3.431-1.100 x 0,2)) eða 521 milljarður m.v. 75% endurheimtuáætlun stjórnvalda. Þá eru ekki tekin með í reikninginn áhrifin á eignir Nýja Landsbankans eða annarra íslenskra banka og fyrirtækja eða beint tjón Seðlabankans og íslenska ríkisins. Ekki eru heldur tekin með í reikninginn áhrifin af yfirtöku Kaupþings Singer & Friedlander eða Heritable Bank, en tölur úr þrotabúi þess banka virðast benda til að hann hafi alls ekki verið gjaldþrota.

Ljóst er að tjónið nemur mörghundruð milljörðum.
Spurningin er hver skuldar hverjum hvað?

*Ath. Hér er ekki tekið tillit til skuldajöfnunar en reikna má með því að skuldajafnað verði að einhverju leyti og eignaverðsrýrnun hafi eitthvað minni áhrif af þeim sökum.