Framtíðartækifæri Íslands og verkefni næstu ríkisstjórnar.

Ræða mín við eldhúsdagsumræður á Alþingi 29. 5. 2012:

Frú forseti, góðir landsmenn.

Nú við lokaumræður þingsins hefur ríkisstjórnin ekki enn lokið vinnslu forgangsmála sinna. – Mála sem varða undirstöðu – atvinnugreinar landsins og þá verðmætasköpunar sem á að standa undir lífskjörum í landinu. Þegar tillögur ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum birtust loks mörgum mánuðum á eftir áætlun voru þær þess eðlis að þær hefðu valdið stórtjóni fyrir allan almenning í landinu.

Það er mat flestra, ef ekki allra, sem lagt hafa faglegt mat á tillögurnar. Það sama á við um fleiri tillögur ríkisstjórnarinnar sem enn eru óunnar í nefnd nú þegar þingstörfum á að vera að ljúka. Það mun því þurfa að gera verulegar breytingar á mörgum málum og ljóst að ef á að gera það almennilega væri afar óábyrgt að reyna að keyra málin í gegn á þessu þingi.

Þrennt hefur haldið landinu á floti efnahagslega eftir bankahrunið. Í fyrsta lagi það að almenningur var ekki gerður ábyrgur fyrir skuldum einkabanka. Í öðru lagi aukinn útflutningur og hagvöxtur sem varð til með lækkun gjaldmiðilsins og í þriðja lagi sterkir innviðir sem byggðir voru upp á undanförnum áratugum.

Allir þessir þættir, sem helst hafa nýst Íslendingum á undanförnum árum, hafa orðið skotmörk ríkisstjórnarinnar. Reynt var að færa tap bankanna yfir á almenning, ráðherrar vega hvað eftir annað að gjaldmiðli eigin lands og stöðugt er höggvið í innviðina sem tryggt hafa verðmætasköpun og velferð. Um leið var kastað á glæ tækifærum til að vinda ofan af áhrifum gengisfallsins á skuldsett heimili og nýta innviðina til að skapa þau útflutningsverðmæti sem við þurfum á að halda.

Næsta ríkisstjórn, hverjir sem hana skipa, mun þurfa að snúa þessari þróun við og nýta hin óþrjótandi tækifæri Íslands til að byggja upp raunverulega velferð á nýjan leik. Það verður erfitt verkefni en hér eru allar forsendur til að það verði árangursríkt.

Næsta ríkisstjórn þarf að koma til móts við skuldsett heimili og gera fólki kleift að vinna sig út úr vandanum í stað þess að skapa engöngu neikvæða hvata; aðstæður þar sem ekki er komið til móts við fólk nema það sé komið í þrot. Í skuldamálum heimilanna hafa gríðarleg tækifæri og hundruð milljarða farið forgörðum. Það mun því þurfa nýjar leiðir til að vinna á vandanum. Það má meðal annars gera með því að niðurgreiðsla fasteignalána nýtist til skatta-afsláttar. Jafnframt þarf að meta svigrúm til niðurfærslu með hliðsjón af því hvað það kostar að taka ekki á vandamálinu og láta það liggja eins og farg á samfélaginu.

Ekki er hægt að bæta stöðu heimilanna án þess að taka atvinnumálin föstum tökum. Á Íslandi eru allar aðstæður til atvinnu- og verðmætasköpunar ef rétt er á haldið. Hér er næg umhverfisvæn orka, enn eru innviðirnir sterkir, umhverfið er heilnæmt og öruggt, einn mikilvægasti þátturinn í allri atvinnustarfsemi, hreint vatn er hér nánast óþrjótandi á meðan vatnsskortur er að verða eitt mesta vandamál heimsins á 21. öld, landrými er nægt og staðsetning landsins er að verða kostur frekar en galli með tilliti til framleiðslu. Eftir fall gjaldmiðilsins eru laun á Íslandi orðin lág miðað við það sem tíðkast víða í nágrannalöndunum.

En í vandanum liggur lausn hans. Það þarf að nota tækifærið til að fjölga störfum og auka framleiðslu. Einungis þannig hækka tekjurnar. Víða er þróunin á hinn veginn. Á Írlandi, þar sem tekjur hafa lækkað um 20% frá upphafi efnahagskrísunnar, er atvinnuleysi enn rúmlega tvöfalt meira en á Íslandi. Þar er talið að kaupmáttur þurfi að lækka um þriðjung í viðbót svo að landið verði á ný samkeppnishæft innan evrunnar. En það að hafa fólk hér á lágum launum og halda um leið aftur af þeirri framleiðsluaukningu sem ætti að verða við þær aðstæður er stórskaðleg og óskiljanleg stefna.

Ef stjórnvöld nýta kosti landsins eru allar forsendur til að kaupmáttur geti aftur farið að vaxa jafnt og þétt. Það eina sem skortir er pólitískur stöðugleiki, skynsemi í lagasetningu og vilji til að framkvæma. Næsta ríkisstjórn þarf fyrst og fremst að skapa stöðugleika. Hún þarf að einfalda skattkerfið á nýjan leik en jafnframt að gæta þess að það tryggi tekjujöfnun, m.a. með hækkun skattleysismarka.

Einnig þarf að afnema ósanngjarnar og óhagkvæmar tekjutengingar sem bitnað hafa mjög hart á eldriborgurum undanfarin ár. Það er fráleitt að viðhalda kerfi þar sem stór hluti launþega hefur nánast engan hag af því að greiða í lífeyrissjóð umfram lögbundna skyldu.

Næsta ríkisstjórn þarf að vinna með launþegum og atvinnurekendum að því að skapa þær aðstæður sem helst ýta undir fjölgun starfa og leita ráða hjá þeim sem best þekkja til á hverju sviði. Ný ríkisstjórn ætti að setja sér sams konar markmið og stjórnvöld vinna eftir annars staðar á Norðurlöndum um að skera niður regluverk og samræma og einfalda lög landsins. Jafnframt þarf að yfirfara stofnanakerfi ríkisins með það að markmiði að gera það skilvirkara. Hlutverk stjórnvalda á að vera að gera líf borgaranna þægilegra og einfaldara en ekki öfugt.

Álag á opinbera starfsmenn á borð við kennara og heilbrigðisstarfsfólk hefur aukist gífurlega. Þetta er fagfólk sem hefur unnið kraftaverk í því að halda uppi góðri grunnþjónustu í samfélaginu þrátt fyrir aðstæðurnar sem því eru búnar. Ef samfélagið á að komast á réttan kjöl verður að búa þessu mikilvæga starfsfólki þess betri starfskjör og vinnuumhverfi. Að öðrum kosti mun það leita að betri kjörum annars staðar.

Það er einnig mjög aðkallandi að fólki verði gert auðveldara að stofna og reka lítil fyrirtæki. Slík fyrirtæki eru uppspretta þeirra starfa og verðmætasköpunar sem við þurfum á að halda. Nú eru kerfisflækjurnar orðnar slíkar að starfstími einyrkja eða lítilla atvinnurekenda fer að miklu leyti í að komast í gegnum frumskóg skriffinnsku og annarra hindrana.

Ný ríkisstjórn verður að vinna að því alla daga að ýta undir fjölgun starfa, aukna framleiðslu í landinu og auka kaupmátt. Hver ráðherra ætti að hugsa með sér á hverjum degi: „Er eitthvað sem ég get gert í dag til að stuðla að atvinnusköpun og framleiðsluaukningu?“ Það ríður mikið á að auka útflutning og skapa aukinn gjaldeyri. Þess vegna eiga stjórnvöld að veita stöðugleika fyrir útflutningsgreinarnar svo að þær geti haldið áfram uppbyggingarstarfi. Einungis þannig styrkist krónan og kjör batna.

Næsta ríkisstjórn þarf að leggja ofuráherslu á að efla menntun á sviði verkfræði og annarra tækni- og iðngreina og gera fólki með slíka menntun kleift að nýta hana hér á landi. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi útflutningsgrein en stjórnvöld verða að vinna að því að gera greinina arðbærari meðal annars með eflingu heils-árs-ferðaþjónustu. Hlutir á borð við heilsutengda ferðaþjónustu og aðlaðandi borg og bæi skipta þar sköpum. Með skynsamlegri stefnu í skipulagsmálum má ná fram sams konar þróun og í Mið- og Austur Evrópu þar sem fallegir bæir laða að ferðamenn allan ársins hring.

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að olíu er að finna í íslenskri lögsögu og flest bendir til að mjög góðar líkur séu á því að hún sé í vinnanlegu magni. Norskir sérfræðingur telja að á Jan Mayen-hryggnum, þ.m.t. Drekasvæðinu séu álíka miklar gas- og olíulindir og í Noregshafi.

Ný ríkisstjórn á að leggja allt kapp á að flýta fyrir leit og vinnslu. Mikilvægt er að gera Orkustofnun kleift að fylgja olíuleitarmálum fast eftir og stofnun ríkisolíufélags getur í senn laðað að fleiri fjárfesta og tryggt sanngjarna og skynsamlega ráðstöfun tekna af olíuvinnslu. Gera þarf Ísland í stakk búið til að nýta sér staðsetningu landsins þegar siglingaleiðir opnast yfir norðurskautið. Sú þróun á sér nú stað hraðar en nokkurn óraði fyrir.

Þegar forsætisráðherra Kína heimsótti Ísland fyrir skömmu var tilkynnt um að Kínverjar hygðust þegar á næsta ári sigla skipi frá Kína, yfir norðurskautið og til Íslands. Það hefur gríðarmikla táknræna þýðingu og mun vekja heimsathygli.

Matvælaverð hefur hækkað í heiminum á síðast liðnum árum. Jarðarbúum fjölgar enda hratt og skortur á vatni og jarðnæði er orðinn verulegt vandamál. Framtíðarmöguleikar íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu eru því miklir, bæði þegar horft er til núverandi afurða og nýrrar framleiðslu. Stjórnvöld þurfa að taka mið af þessari þróun og ýta undir hana. Rétt eins og gert var í heimskreppunni á fjórða áratugnum ættu stjórnvöld að nýta tækifærið til að bæta samgöngur og aðra innviði samfélagsins. Það er nauðsynlegt að undirbúa atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar með því að sameina atvinnusvæði en jafnframt þarf skipulega að fjarlægja slysagildrur úr vegakerfinu.

Þörf er á stórfelldu átaki gegn glæpum. Fíkniefnasala og skipulögð glæpastarfsemi eiga ekki að fá þrifist á Íslandi. Næsta ríkisstjórn verður að sýna fram á ótvíræðan árangur í baráttunni gegn glæpastarfsemi á innan við fjórum árum. Á Íslandi á fólki alltaf að finnast það vera öruggt.

Ríkisfjármálin þarf að taka föstum tökum. Ný stjórn ætti strax að loknum kosningum að vinna fjárlagaáætlun fyrir allt kjörtímabilið þar sem áhersla verður lögð á fjárfestingu sem skilar auknum tekjum til lengri tíma litið, jafnvel þótt þær skili sér ekki á fyrsta árinu, og sparnað sem er raunverulegur en eykur ekki kostnað þeim mun meira annars staðar.

Þannig má komast hjá vanhugsuðum aðgerðum eins og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu sem eykur kostnaðinn enn meira annars staðar í kerfinu. Það þarf að þora að fjárfesta í framtíðinni en það ættu stjórnvöld að gera í þeirri vissu að langtímahorfur á Íslandi séu góðar.

Hér eru næg verðmæti og framleiðslugeta til að skapa velferð fyrir rúmlega 300.000 íbúa landsins. En það byggist á því að vel sé með verðmætin farið og stjórnvöld hvetji til verðmætasköpunar í stað þess að draga úr henni.

Umfram allt ætti næsta ríkisstjórn að sameina þjóðina í uppbyggingarstarfi og ýta undir samvinnu og framsækni í stað tortryggni og niðurrifs. Tækifærin eru til staðar og ef stjórnvöld skapa stöðugleika, öryggi og samstöðu er ekkert því til fyrirstöðu að hvergi verði betra að búa en á Íslandi.