11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

08/18/11

Leggjum ESB umsóknina til hliðar – þjóðin ákvarði framhaldið

Evrópusambandið leikur á reiðiskjálfi. Erlendir fjölmiðlar fjalla daglega um efnahagskrísuna sem blasir við evrusvæðinu og um pólitískar ástæður og hugsanlegar afleiðingar hennar. Það hvernig trúin á að sameiginleg mynt tryggði sameiginlega lága vexti skapaði efnahagsbólu sem sprakk og hvernig sameiginlega myntin heldur mörgum ríkjum sambandsins í efnahagslegri sjálfheldu.

Stuðningsmenn og andstæðingar Evrópusamrunans eru orðnir sammála um að ESB geti ekki lifað óbreytt. Annað hvort þurfi að vinda ofan af samrunaferlinu eða koma á evrópsku ríki með sameiginlegan fjárhag.

Breyttar forsendur

Á sama tíma halda nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar áfram súrrealískum málflutningi um mikilvægi þess að ganga í ESB og taka upp evru til að skapa stöðugleika.

Framsýnni þingmenn flokksins virðast þó gera sér grein fyrir því að Íslendingar muni ekki samþykkja aðild að Evrópusambandinu í bráð. Þeir hafa því breytt um taktík og tala nú um að langt sé í ákvörðun um aðild. Allt talið um flýtimeðferð er gleymt. Á meðan minna kosningasvik Vinstri grænna betur á sig í hverjum mánuðinum sem líður og nú síðast hefur formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnt að umsóknina skuli draga til baka. Hættan er að í þessum pólitísku átökum gleymist aðrir hagsmunir almennings. Nú er allt upp í loft og forsendur algerlega breyttar frá því sem var þegar umsóknin var lögð fram. Því er eðlilegt að þjóðin fái tækifæri til að segja sína skoðun þegar rykið sest.

Tækifærið

Hér er tækifæri til að losa um þá sjálfheldu sem íslensk stjórnmál eru í vegna aðildarumsóknarinnar. Allir flokkar eiga að geta náð saman um að leggja aðildarviðræðurnar til hliðar. Sjálfstæðisflokkurinn kemst þá hjá því að láta landsfund sinn snúast um ESB, Samfylkingin getur áfram átt málið sitt eina og svarað öllum spurningum með þremur bókstöfum. Vinstri grænir geta vonað að kjósendur gleymi framgöngu þeirra í málinu.

Þegar málin hafa skýrst og við vitum hvort eða hvernig ESB lifir af er rétt að þjóðin taki afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort taka skuli viðræður upp að nýju. Þeir sem halda því fram að efnahagskrísan muni styrkja ESB og evruna telja sig væntanlega ekki þurfa að óttast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem telja hins vegar að Íslendingar muni prísa sig sæla að hafa ekki klöngrast um borð í brennandi skip þurfa væntanlega ekki að óttast að þjóðin segi já.

Sú íhaldsemi að stjórnmálamenn taki einir ákvarðanir var sem betur fer brotin þegar þjóðin hafnaði Icesave samningum í trássi við vilja þeirra flokka sem nú vilja ná stöðugleika með aðild að efnahagslegum rústum ESB. Við fetum nú í átt til frjálslyndari stjórnhátta og ESB umsóknin er tilvalið prófmál.

ESB hentar líka að leggja viðræðurnar til hliðar

Ákafir ESB-sinnar ættu að sjá sér hag í að leggja málið til hliðar því þrýstingur á að umsóknin verði dregin til baka mun fara vaxandi. Frestun hentar líka Evrópusambandinu ágætlega. Þar á bæ er menn farið að renna í grun að umsókn Íslands sé innantómt fiaskó. Hún nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar, ekki þingsins og ekki nema hálfrar ríkisstjórnarinnar.

Jafnvel sá helmingur stjórnarinnar sem stendur að baki umsókninni heldur því fram að aðeins sé verið að sækja um til að „kanna hvað er í pakkanum“. Sviðstjóri stækkunarskrifstofu ESB bauð enda Íslendingum nýverið að fresta viðræðunum og benti á að vinnan muni ávallt nýtast ákveði þjóðin að hefja þær aftur síðar.

Öndum léttar

Við getum þá farið að huga að því að byggja upp landið án þess að ESB-málið haldi stjórnmálunum í pattstöðu og tekið á skulda- og atvinnumálum án þess að spurt sé hvaða áhrif það hafi á Evrópuferlið. Allt í einu verða hinir erlendu kröfuhafar ekki jafn ógnvænlegir, hægt verður að ráðast í áætlanagerð (aðra en 20/20-áætlun að forskrift ESB), slaka má á áróðri gegn landbúnaðinum, stjórnsýslan getur snúið sér að uppbyggingu heima fyrir, fjármagnið má nýta í annað, semja má um makrílveiðar án hótana um viðræðuslit og óhætt verður að leita að olíu og gasi.

Mikilvægast er þó að loksins mun gefast tækifæri til að ræða landsins gagn og nauðsynjar án þess að afstaða til allra mála byggist á því hvað menn halda um Evrópusambandið.

Leggjum viðræðurnar til hliðar

Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort ekki sé best að afgreiða málið, ljúka viðræðunum og fella samning til að losna við umræðuna. Gallinn er að ekki verður kosið um samning á næstunni. Viðræður verða ekki kláraðar fyrr en þeir sem stýra ferlinu telja sig hafa náð meirihluta fyrir jái. Þangað til verður samfélagið undirlagt af Evrópuvegferðinni og síharðnandi deilum.

Milljörðum verður varið í móður allra áróðursherferða og Vinstri-grænar hagstjórnar- og samfélagstilraunir fá að halda áfram samhliða því að Samfylkingin útskýrir að hagvöxtur og atvinna verði ekki til nema innan ESB. Núverandi ástand er óásættanlegt, hvað þá nokkur ár í viðbót af stöðnun og innbyrðis átökum. Leggjum ESB umsóknina til hliðar og snúum okkur að mikilvægari verkefnum. Það hentar öllum.

01/26/11
Stjórnlagaþing 2011

Rétt hjá forsætiráðherra: Framkvæmd kosninganna brást. Og hver ber ábyrgð á því?

Í gær ógilti Hæstiréttur kosningarnar til stjórnlagaþings.Í ræðu sinni á Alþingi í kjölfarið benti forsætisráðherra ítrekað á eigin mistök. Jóhanna lagði þar fyrst og fremst áherslu á að ógildingin byggðist á framkvæmd kosninganna en ekki á lögunum um þau.

Og það er rétt hjá henni. Það var framkvæmd kosninganna sem brást. Og hver ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á Íslandi? Er það ekki framkvæmdavaldið? Ríkisstjórnin?

Þessi hrakför er því miður ekkert einsdæmi heldur bara enn eitt klúðrið sem ríkisstjórnin hefur á samviskunni.  Skuldamál heimilanna, stofnun bankanna, sparisjóðirnir, salan á Sjóva, nýja einkavæðingin (t.d. Vestia og Icelandic Group), ólögmætu myntkörfulánin, Magmamálið … hvenær mun hætta að bætast í þessa upptalningu?

Eitt af því sem stöðvar framfarir í efnahags og atvinnulífinu eru áhyggjur erlendra fjárfesta af pólitískri áhættu á Íslandi. Ríkisstjórnin talar um að erlend fjárfesting sé nauðsynleg en er á sama tíma sjálf helsta hindrunin í þeim efnum. Fyrsta hreina vinstristjórnin sannar það betur og betur dag frá degi með eigin orðum og aðgerðum að hún er ófær um að stjórna landinu.

Alþingismenn verða að þora að leiða – ekki elta.

Varðandi stjórnlagaþingið þá getum við samt ekki leyft okkur að skella allri skuld á ríkisstjórnina. Við þingmenn verðum einnig að líta í eigin barm. Við verðum að spyrja okkur hvort við höfum tekið nógu gagnrýna umræðu við undirbúning málsins á sínum tíma? Var málið nægilega vel úr garði gert í upphafi?

Við verðum líka að spyrja okkur hvort við þorum ekki að ræða á gagnrýnin hátt um það sem við teljum að sé krafa tíðarandans? Erum við of upptekin við að elta frekar en að leiða? Ef alþingismenn horfa ætíð fyrst til almenningsálitsins og mynda sér skoðun og framkvæma í samræmi við það er hætta á slysum, jafnvel þegar ætlunin er að efla lýðræðið.

Aðeins um þriðjungur þjóðarinnar hafði áhuga á að taka þátt í kosningum til stjórnlagaþings. Hugsanlega voru það skilaboð um að þjóðin hefði meiri áhuga á öðrum málum, að önnur mál væru brýnni í huga fólks? Úrlausn skuldavanda heimilanna?Síhækkandi skattpíning velferðarstjórnarinnar? Óleyst atvinnuleysi tólf þúsund einstaklinga? Af nógu er að taka.

Við alþingismenn verðum að þora að ræða mál upp án nýtt þegar þörf krefur. Við verðum að þora að nýta það lýðræðislega umboð sem okkur er falið. Alþingi þarf að þora að taka ákvarðanir sem hjálpa fólki að leysa skuldavanda sinn, gefa því fleiri krónur í vasann eftir skatta og umfram allt skapa atvinnu. Einn grundvöllur þess er að framkvæmdavaldið sé tilbúið til að hlusta á og styðja hugmyndir frá fleirum en sjálfu sér. Því að á meðan stefnu ríkisstjórnarinnar er haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist munu þessi mál áfram verða óleyst. Klúðrunum mun fjölga.

Gefum okkur tíma – beinum sjónum að stærri vanda

Í málefnum stjórnlagaþings liggur ekkert á. Í kjölfar dóms Hæstaréttar er rétt að við gefum okkur tíma til að fara yfir málið af yfirvegun. Flumbrugangur gerir ekkert nema auka líkurnar á áframhaldandi mistökum. Í millitíðinni verðum við að beina kröftunum að atvinnumálum og kjörum almennings.

Tækifærið til að bæta stjórnarskrána fer ekki frá okkur. Það gerir hins vegar fólkið sem streymir úr landi í leit að mannsæmandi kjörum og tækifærum erlendis.

Í gær, sama dag og Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings, sóttu 200 manns á Íslandi kynningu á strætóbílstjórastörfum í Noregi. Það er vandi sem verður að leysa strax.

01/24/11

Lýðræðið er versta hugsanlega stjórnkerfið…

Einn höfuðvandi stjórnmálanna í dag er að finna jafnvægi milli fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis. Frá hruni hefur verið mikið talað um mikilvægi þess að vægi beins lýðræðis sé aukið í stjórnskipan landsins. Ýmsar leiðir hafa verið nefndar til þess.

Þessi krafa um að fólk fái að hafa eitthvað um mikilvæg mál að segja á milli kosninga er réttmæt krafa og við eigum að gera meira að því að gefa fólki tækifæri til að greiða atkvæði beint um mikilvæg mál.

Icesave málið er ágætt dæmi. Það var á sínum tíma tekið úr þeim farvegi sem hingað til hefur verið hefðbundinn á Íslandi og sett í hendur þjóðarinnar, sem tók mjög mikilvæga og hugrakka ákvörðun. Síðan þá hefur komið skýrar og skýrar í ljós að það var rétt ákvörðun.

Þess vegna tel ég að þjóðin eigi að eiga síðasta atkvæðið í Icesave málinu. Alþingi mun fjalla um og afgreiða málið fyrir sitt leyti og á þeim tíma gefst gott tækifæri til umræðna og til að greina möguleikana sem fyrir liggja. Þjóðin hefur þar gott tækifæri til að kynna sér stöðuna í málinu eins og hún er nú. Kjarninn er að þjóðin fékk málið í hendur og stjórnmálamenn eiga ekki að kippa því til sín aftur.

Sérstaklega á þetta við ef niðurstaða Alþingis er að almenningur taki á sig þessar tugmilljarða skuldbindingar, sem geta hugsanlega í framtíðinni vaxið í hundruð milljarða, t.d. við fall krónunnar. Ef það á að biðja þjóðina um að axla þessa ábyrgð, sem nú virðist loks vera samstaða um að ekki sé lagastoð fyrir, þá  hlýtur að vera grunnskilyrði að um það ríki sem mest sátt  meðal þjóðarinnar.

Nú má auðvitað gagnrýna þessa afstöðu, jafnvel segja að stjórnmálamenn verði að taka ábyrgð á afgreiðslu þessa máls, að þingmenn megi ekki skýla sér bak við þjóðina eða eitthvað slíkt.

Við búum vissulega við fulltrúalýðræði, en því fylgja bæði kostir og gallar. Winston Churchill orðaði það svo að lýðræðið væri versta hugsanlega stjórnkerfið, fyrir utan öll hin. Og eins og í svo mörgu öðru þurfum við því að finna hinn gullna meðalveg. Það er skynsamur meðalvegur að kjörnir fulltrúar fari daglega með ákvarðanavaldið, en að þjóðin geti með skýrum og ákveðnum hætti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál þegar þörf krefur. Tekið þau til sín

Icesave málið er þegar komið til þjóðarinnar og það hefur sýnt sig að sú leið varð til góðs. Því finnst mér eðlilegt að málið verði klárað með sama hætti.