Að berjast við eigin fuglahræður

Stjórnmál virka best ef þau skila skynsamlegustu niðurstöðunni í gegnum rökræðu. Vilji til að bæta stjórnmálastarf á Íslandi hefur verið talsverður í öllum flokkum. Það veldur því meiri vonbrigðum en ella að sjá nokkra stuðningsmenn flokka sem nú eru komnir í stjórnarandstöðu fara strax í hefðbundnar brellur gamaldags stjórnmála.

Ein slík brella er sú að reyna að endurskilgreina stefnu andstæðingsins og ráðast svo ekki á hina raunverulegu stefnu heldur eigin tilbúning. Þessi aðferð er svo þekkt og svo gömul að hún er á öllum listum yfir rökvillur og hefur sérstakt nafn, þetta er svo kölluð „strámanns-aðferð“. Þar sem búinn er til gerviandstæðingur og svo ráðist á hann, enda strámaðurinn auðveldari viðureignar en hinn raunverulegi andstæðingur.

Nokkrir nýir stjórnarandstæðingar hafa að undanförnu sótt hart fram gegn eigin strámönnum. Til að byrja með snerist þetta um að skilgreina algjörlega upp á nýtt stefnu framsóknarmanna í skuldamálum og skammast svo yfir því að ríkisstjórnin sé ekki á fyrsta degi búin að framfylgja hinni ímynduðu stefnu.

Þetta á ekki hvað síst við þá sem hröktust úr einu víginu í annað í tilraunum til að vega að tillögum framsóknarmanna í kosningabaráttunni en enduðu svo á því að segja „jæja hugsanlega er þetta hægt en það tekur amk allt of langan tíma“. Þeir hinir sömu tromma nú upp með yfirlýsingar um að verið sé að svíkja kosningaloforð með því að hafa ekki hrint þeim í framkvæmd áður en ríkisstjórnin tók við.

Svo eru það málin sem hluti hinnar nýju stjórnarandstöðu var búnir að ákveða að hlytu að vera ómöguleg hjá nýrri ríkisstjórn og þannig skal það vera sama hvað líður raunveruleikanum. Þetta eru mál sem nýir stjórnarandstöðuflokkar telja að henti sér, eða telja jafnvel að þeir „eigi“.

Dæmi um þettta eru umhverfismálin. Eins og skýrt er kveðið á um í stjórnarsáttmála leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á umhverfismál. Það virðist þó henta „eigendum“ málaflokksins afskaplega illa. Fyrir vikið var reynt að búa til nýjan veruleika. Fullyrt var að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja niður umhverfisráðuneytið. Um það leyti sem varaformaður framsóknarflokksins var að taka við embætti umhverfisráðherra var því meira að segja haldið fram að búið væri að leggja ráðuneytið niður.

Allt í einu ráku hinir sömu svo um ramakvein yfir því að ráðherrar lýstu yfir stuðningi uppbyggingu í Helguvík. Þó hafði síðasta ríkisstjórn ekki aðeins þvertekið fyrir að hafa á nokkurn hátt staðið í vegi fyrir því verkefni, hún hafði ár eftir ár gert framgang verkefnisins að forsendum eigin áætlanagerðar í ríkisfjármálum, eigin viljayfirlýsinga og samninga við atvinnurekendur og launþega.

Svo er það rammaáætlun. Vinna hófst við gerð rammaáætlunar fyrir nærri einum og hálfum áratug til að tryggja umhverfisvernd og umhverfisvæna orkuframleiðslu utan pólitískra átaka. Það fór varla framhjá neinum að þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fór að krukka í niðurstöðum faghópana og gera pólitískar breytingar á rammaáætlun þá andmæltu núverandi stjórnarflokkar því harðlega, sem og fjölmargir aðrir. Því var jafnframt lýst yfir að þessu yrði breytt aftur við fyrsta tækifæri. Nú er látið eins og það komi á óvart og sé á einhvern hátt í andstöðu við náttúruvernd að taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið með faglegu vinnuna.

Allt var þetta svo toppað með því að snúa út úr svari mínu við spurningu útvarpsmanns um þau fjölmörgu álit sem send Alþingi voru send vegna rammaáætlunar. Gefið var í skyn að ég hefði gert lítið úr slíkum ábendingum þótt ég hafi tekið skýrt fram í viðtalinu að slíkt aðhald hugsjónafólks væri jákvætt og skipti miklu máli í stjórnmálum. Það breytir ekki því að stór hluti skeytanna innihélt efnislega sambærilegar ábendingar.

Loks má nefna viðtal við formann Femínistafélagsins sem taldi að áhersla nýrrar ríkisstjórnar á að bæta árangur í jafnréttismálum og eyða kynbundnum launamun hlyti að vera til marks um að ríkisstjórnin ætlaði sér hið gagnstæða.

Ef stjórnmálin eiga að virka sem skyldi, ef menn vilja raunverulega bæta stjórnmálin, þurfa menn að vera reiðubúnir til að vinna saman og gefa fólki sem vill láta gott af sér leiða tækifæri til þess. Aðalatriðið er að ræða málin út frá staðreyndum og rökum en ekki fordómum og gömlum brellum. Strámenn geta reynst vel til að fæla fugla af ökrum, en þeir hafa lítið hlutverk í uppbyggilegri pólitískri rökræðu.