Mikilvægi fjölmiðla og gagnrýni

 

Þrátt fyrir síaukin áhrif samfélagsmiðla skipta hefðbundnir fjölmiðlar enn miklu máli fyrir samfélög Vesturlanda (og auðvitað víðar). Frá því ég man eftir mér hef ég haft áhuga á bæði fjölmiðlum og stjórnmálum. Ég hef starfað á báðum sviðum og þykir starf fjölmiðlafólks ekki síður merkilegt en stjórnmálamanna. En áhrifin kalla líka á ábyrgð.

Ný rannsókn Otto Brenner stofnunarinnar í Þýskalandi er stórmerkileg af ýmsum ástæðum. Hún var kynnt fyrir nokkrum dögum og sagt frá niðurstöðunum í fjölmiðlum víða um heim, m.a. á mbl.is. Eins og sjá má í meðfylgjandi frétt fjallar skýrslan um hvernig stórir þýskir fjölmiðlar fjölluðu um innflytjendamál, straum flóttamanna og annars förufólks til Þýskalands á undanförnum misserum. Í stuttu máli reyndist umfjöllunin hafa verið einhliða, áróðurskennd og oft mörkuð af fordómum í garð þeirra sem aðhylltust ekki „hina réttu skoðun“ eða voru bara óvissir um hvort skynsamlega væri haldið á málum.

Niðurstaðan er merkileg burt séð frá tilefninu. Ef hefðbundnir fréttamiðlar eiga að rækja lýðræðislegt hlutverk sitt og viðhalda mikilvægi sínu á tímum stórkostlegra breytinga í upplýsingamálum verða þeir að segja fréttir fremur en að búa þær til. Segja frá því hvernig heimurinn er fremur en að draga upp ákveðna heimsmynd og birta aðeins það sem fellur að henni eða styrkir hana, þ.e. að líta á innrætingu sem megin hlutverkið.

Það ætti að vera óhætt að greina frá staðreyndum ef menn trúa því að fólk sem fær réttar upplýsingar sé sjálft fært um að meta þær, draga ályktanir og taka skynsamlegar ákvarðanir. Þ.e.a.s. ef menn trúa á hugmyndina um lýðræði.

Auk þess hafa hefðbundnir fjölmiðlar ekki lengur sömu stjórn á því og áður hvað almenningur fær að vita. Ef fólk verður vart við maðk í mysunni leitar það annað.

Rétt eins og með stjórnmálamenn og -flokka er mikilvægt að almenningur geri greinarmun á ólíkum fjölmiðlum og því ólíka fólki sem starfa á þessu mikilvæga sviði. Í báðum tilvikum eru alhæfingar skaðlegar. Alhæfingar koma í veg fyrir nauðsynlegan samanburð en í honum felst mikilvægt aðhald. Bæði fyrir stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn. Báðir hópar vinna störf sem verður að mega gagnrýna. Annars væru þau ekki merkileg.

Annað sem er merkilegt við skýrsluna er að hún skuli yfir höfuð hafa orðið til. Otto Brenner stofnunin er fræðastofnun á sviði borgaralegra réttinda. Hún hefur það að markmiði að ýta undir rannsókna -og þróunarstarf. Stofnunin heyrir undir IG Mettal, stærsta verkalýðsfélag Þýskalands, líklega stærsta verkalýðsfélag heims. Meðal félagsmanna eru fjölmiðlamenn.

Ég er ekki viss um að hægt hefði verið að vinna og birta svona skýrslu í hvaða lýðræðisríki sem er (og það af stéttarfélagi þeirra sem verið var að gagnrýna). Víða hefðu menn líklega ekki lagt í slíkt en hefðu þeir gert það þá sjálfsagt mætt ásökunum um að „vega að starfsheiðri fjölmiðlafólks“.

Stjórnmálamenn eru oft sagðir viðkvæmir fyrir gagnrýni. Eflaust er það rétt en það er þó ekkert miðað við viðkvæmnina sem einhverra hluta vegna einkennir marga í gömlu stéttinni minni. Helst þó þá sem vilja fremur búa til fréttir en segja þær. Þ.e. hópinn sem öðrum fremur ætti að vera búinn undir gagnrýni.

Hvaða áherslur sem hefðbundnir fjölmiðlar hafa ættu þeir ekki að veigra sér við gagnrýni. Hún er áminning um að þeir séu enn mikilvægir.

 

 

Frétt mbl: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/07/25/umfjollun_fjolmidla_einhlida/

Skýrslan (því miður bara til á þýsku): https://www.otto-brenner-shop.de/uploads/tx_mplightshop/AH_93_Haller_Web.pdf