Þetta er staðan. Henni má ekki leyna fram yfir kosningar.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og matsfyrirtækið Oliver Wyman hafa um langt skeið unnið að mati á verðmæti eigna sem fluttar verða úr gömlu bönkunum í þá nýju. Úttektin felur ekki aðeins í sér upplýsingar um stöðu bankanna sjálfra heldur íslenska hagkerfisins í heild, fyrirtækja og heimila.

Tilkynnt hafði verið um að matið yrði birt eigi seinna en á miðnætti 15. apríl síðast liðinn. Ekkert varð af birtingunni þá, en vonir stóðu til að upplýsingarnar yrðu birtar fyrir kosningar. Nú virðst ljóst að ríkisstjórnin ætli að bíða með birtingu þessara grundvallarupplýsinga um stöðu íslenskra efnahagsmála fram yfir kosningar.

Endurtekin frestun á birtingu upplýsinga, sem ríkisstjórnin hefur nú þegar fengið, vekur spurningar. Er birtingu upplýsinganna frestað vegna þess að staðan er mun verri en talið var? Í því fælist að fullyrðingar Framsóknarflokksins um raunverulegt ástand efnahagsmála og nauðsyn þess að færa niður skuldir væru réttar.

Niðurstaða matsins

(allar tölur eru námundaðar skv. drögum)

Það er óforsvaranlegt að fara í kosningar án þess að gera þjóðinni grein fyrir raunverulegri stöðu efnahagsmála. Auk þess þótti mér taka steininn úr þegar áfram var haldið gagnrýni á tillögu Framsóknar um skuldaleiðréttingu þegar stjórnin hefur undir höndum upplýsingar sem sýna fram á að málflutningur þeirra um kostnað stenst ekki. Jafnframt sýna upplýsingarnar að tillögurnar eru enn framkvæmanlegri og nauðsynlegri en talið var og raunar spurning hvort 20% duga til.

Ég tel því fulla ástæðu til að gera grein fyrir helstu niðurstöðum matsins og skora á ríkisstjórnina að birta skýrsluna í heild fyrir kosningar.

Við hrun bankakerfisins voru eignir bankanna metnar á um 14.400 milljarða króna.

Eftir hrunið var bönkunum skipt í gamla og nýja banka. Ákveðið var að flytja lán að nefnverði um 6.000 milljarða króna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Eftir urðu verstu lánin, fjárfestingafélög, erlendar eignir bankanna osfrv. Eins og ég hef all-oft nefnt var gert ráð fyrir um að lánin færðust yfir í nýju bankana á um 50% afskrift. [Í það hef ég margoft vísað í umræðunni um skuldaleiðréttingu. Sú staðreynd var dregin í efa en síðan kom reyndar fram í fjölmiðlum að afskriftin væri a.m.k. 50%.]

Afskriftin var áætluð með því að fara yfir stöðu fyrirtækja sem voru með lán sem færðust í nýju bankana og meta hvað væri líklegt að mikið tapaðist.

Lán uppá 6.000 milljarða voru semsagt keypt af nýju bönkunum á um 3.000 milljarða.

Nú hefur þetta breyst.

Vegna endurmats og þess hversu hratt hefur fjarað undan atvinnulífinu undanfarnar vikur og mánuði var ákveðið að 2.000 milljarðar til viðbótar af milljörðunum 6.000 væru ónýt lán. Þau lán fara því aftur í gamla bankann og eftir standa í nýju bönkunum 4.000 milljarðar að nafnverði. En þeir 4.000 milljarðar verða þó aftur afskrifaðir um helming. Þ.a. í raun er aðeins gert ráð fyrir að í gegnum nýju bankana innheimtist 2.000 milljarðar af upphaflegum 14.400 milljörðum.

Þessar tölur fela í sér að gert sé ráð fyrir algjöru hruni íslensks efnahagslífs.

Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir að ekki aðeins verði stórfellt tap vegna fjárfestingafélaga heldur muni stór hluti íslenskra rekstrarfyrirtækja fara í þrot.

Sömu aðilar, Deloitte og Oliver Wyman höfðu áður metið hlutfall þeirra fyrirtækja sem þóttu lífvænleg og komist að þeirri niðurstöðu að það væri um 30%. Það var fyrir endurmatið sem getið er um að ofan.

Þegar gert er ráð fyrir slíku hruni, hvaða von hafa þá þau 30% sem eftir eru þegar atvinnuleysi er orðið slíkt að ekki eru til tekjur til að standa undir verslun og þjónustu? Hverjar verða svo afleiðingarnar fyrir ríkið þegar tekjuskattar og neysluskattar þorna upp á sama tíma og ríkið stendur frammi fyrir gífurlegri útgjaldaaukningu? Það er ekki hægt að leysa þann vanda með því að hækka skatta, því að skattstofnarnir eru horfnir, og ekki heldur með því að segja upp fólki, því að ekki verður á atvinnuleysið bætandi.

Niðurstaðan er sú að matið á íslensku bönkunum og stöðu íslenskra fyrirtækja er það að hér sé að hefjast fullkomið kerfishrun. Allsherjarhrun íslensks efnahagslífs.

Þetta sýnir að sú gagnrýni sem sett hefur verið fram á skuldaleiðréttingu fæst ekki staðist og að fullyrðingar um að ástand efnahagsmála sé að lagast eru ekkert annað en blekkingar af hálfu ríkisstjórnar sem býr yfir þessum upplýsingum.

Það þarf að upplýsa fólk um ástandið vegna þess hversu alvarlegt það er en einnig vegna þess að við höfum stórkostleg tækifæri til að vinna á ástandinu. Þ.e. með því að framkvæma skuldaleiðréttingu áður en íslenska hagkerfið hrynur algerlega og lítið sem ekkert innheimtist. Þörfin fyrir skuldaleiðréttingu er meiri á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar og tækifærin til að ráðast í slíkar aðgerðir eru meiri en nokkurs staðar annars staðar. Það þarf bara að þora að ráðast á vandann og það þarf að gerast strax því að innan skamms verður það of seint.